23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Óneitanlega var það góð hugmynd hjá þingflokki Alþfl., að bera fram till. um vantraust á ríkisstj. Býsna góð hugmynd.

Að sjálfsögðu var fyrirfram vitað að till. yrði felld, enginn hefur efast um það. Með flutningi þessarar till. er því Alþfl. að tryggja á ótvíræðan hátt, að Alþingi lýsi yfir trausti á núverandi ríkisstj.

Þetta var flm. að sjálfsögðu fullljóst þegar þeir lögðu till. fram. Ríkisstj. hefur líka sannarlega þörf fyrir á erfiðum tímum að fá ótvírætt traust þingsins.

En kannske var það eitthvað annað, sem forustumenn Alþfl. sáu í þessum tillöguflutningi. Þeim var sem sé ljóst að ríkisstj., sem hlýtur formlegt traust Alþingis, rýfur varla þing strax á eftir og efnir til kosninga. Þetta er því í rauninni kænleg viðleitni til að draga kosningar á langinn.

En nú spyr kannske einhver: Er það ekki einmitt krafa Alþfl. að þing verði rofið og efnt verði til kosninga sem fyrst? Að vísu, en áreiðanlega er það ekki í fyrsta skipti nú að menn segja eitt og vona allt annað. Engir hafa jafn takmarkaðan áhuga á því um þessar mundir að kosningar fari fram eins og einmitt þm. Alþfl.

En hvers vegna er þá Alþfl. svo skelfilega hræddur við kosningar? Jú, svarið þekkja allir. Í skoðanakönnun, sem tvístirnið nýja á síðdegishimninum, Dagblaðið og Vísir, efndi nýlega til, bentu niðurstöður eindregið til þess að fylgi Alþfl. væri nú með því allra minnsta sem sá flokkur hefði nokkurn tíma haft. Síðan þetta var hefur það bæst við, að einn dugmesti slagorðasmiður flokksins hefur yfirgefið skútuna með liði sínu og ætlar að skipta upp þeim stuðningsmönnum Alþfl. sem eftir eru og voru þó ekki til skiptanna.

Hlutskipti Alþfl. í íslenskum stjórnmálum er sannarlega athyglisvert. Á seinustu ellefu árum hefur flokkurinn haldið sig í stjórnarandstöðu alls í tíu ár og aðeins setið eitt ár í stjórn.

Í öðrum löndum Vestur-Evrópu eru flokkar sósíaldemókrata leiðandi afl, að vísu stundum í stjórnarandstöðu, eins og gengur, en miklu oftar í ríkisstjórn og yfirleitt forustuafl innan eða utan stjórnar.

En á Íslandi eru svokallaðir sósíaldemókratar afvelta og utangarðs í sjálfskipaðri útlegð, hvort sem hægri- eða vinstrisinnuð stjórn er við völd, svo að helst hlýtur að minna á óþægan krakka á stóru heimili.

Það er haft fyrir satt samkvæmt fyrrnefndri skoðanakönnun að rúmlega þriðjungur kjósenda Alþfl. styðji núverandi ríkisstj.

Hvernig á annað að vera? Hvorki Alþfl. né Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu hafa komið fram með neinar till. til lausnar þeim gífurlega vanda sem þeir viðurkenna þó að við blasi. Samt sem áður ætla þeir að fella brbl. ríkisstj. af einskæru pólitísku ofstæki, þótt öllum sé ljóst að verðbólgan mundi æða upp úr öllu valdi ef það yrði gert og vandinn yrði nánast óviðráðanlegur.

Engum dettur þó í hug í fullri alvöru að þessir flokkar vilji valda slíkum ósköpum í efnahagslífi Íslendinga. Það er einmitt ofstæki af þessu tagi og ýkjukenndur áróður sem mest hefur grafið undan Alþfl.

Auðvitað er það ekki með glöðu geði, að við Alþb.menn tökum þátt í þessum óhjákvæmilegu efnahagsaðgerðum. En við viðurkennum staðreyndir og lokum ekki augunum.

Þjóðartekjur landsmanna falla nú meira og örar en dæmi eru um í marga áratugi. Efnahagskreppan um víða veröld sækir að okkur í margvíslegum myndum.

Til að komast hjá hruni í útflutningsframleiðslu landsmanna og viðtæku atvinnuleysi um land allt höfum við m.a. orðið að fella gengi krónunnar mjög verulega á þessu hausti, en það er aftur ástæðan fyrir óvenjulega mikilli verðbólgu um þessar mundir.

Ég tek undir það, sem margir hafa nefnt hér á undan mér í þessum umr., að sannarlega er það áhyggjuefni að greiðslubyrði af erlendum lánum fer nú hækkandi. En ég bið ykkur, hlustendur góðir, að varast margvíslegar blekkingar, sem hafðar eru uppi í þessu sambandi, t.d. að ríkissjóður gleypi erlend lán í stórum stíl, eins og Jóhanna Sigurðardóttir leyfði sér að halda fram hér áðan. Það er alrangt, eins og hún sjálf veit. Ríkissjóður tekur sjálfur innlend lán, en hefur þó seinustu árin borgað miklu meira af gömlum lánum en nemur nýjum lántökum, enda rekinn með talsverðum afgangi.

Hitt er annað mál að ýmis opinber fyrirtæki hafa tekið erlend lán. Landsvirkjun tekur meiri lán en nokkur annar aðili, en leggur því miður ekkert til framkvæmda af eigin fé, þrátt fyrir gífurlegar hækkanir gjaldskrár. Hér erum við að gjalda fyrir misheppnaða stóriðjupólitík frá fyrri tíð og lágt raforkuverð til álversins í Straumsvík, sem nú kemur fram í stórfelldum erlendum lántökum í þágu Landsvirkjunar.

Hins vegar er almennt ástæðulaust að óttast erlend lán sem tekin hafa verið til raforku- og hitaveituframkvæmda víðs vegar um land. Það væri mikill aulaháttur, satt best að segja, að stöðva gjaldeyrissparandi framkvæmdir af þessu tagi, aðeins af því að við óttumst erlend lán.

Eins komust við ekki hjá því að taka lán í miklum mæli til að framlengja sjö og tíu ára lán, sem tekin voru um miðjan seinasta áratug til framkvæmda, en hljóta að greiðast niður á 20–30 árum, eins og gildir um orkuver. Sem dæmi má nefna að afborganir af Kröflulánum eru fyrst og fremst framlengingar lána sem frá upphafi var vitað að hlytu að eiga sér stað.

Fjarstæður eins og þær, að skattgreiðendur eigi að borga hundruð millj. kr. til Kröflu á næsta ári, eins og þeir Alþfl.-menn hafa verið að halda fram undanfarnar vikur, eru á svo lágu plani að þær eru ekki svara verðar.

Vel á minnst: Það er ánægjulegt til þess að vita að nú er loks að rofa til við Kröflu, og aldrei hafa boranir þar gengið jafn vel sem í sumar.

Nei, hitt er miklu alvarlegra mál þegar erlend lán eru tekin í miklum mæli til að fjármagna taprekstur fyrirtækja sem komin eru í fullan gang.

Langstærsta og alvarlegasta tilvikið af þessu tagi er rekstur Járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, sem nú er rekin með gífurlegum halla, eins og margir óttuðust, m.a. við Alþb.-menn og vöruðum við á sínum tíma. Ríkið verður nú með fárra mánaða millibili að útvega tugi millj. í erlendum rekstrarlánum til að halda verksmiðjunni gangandi. Í september nam meðlagið frá ríkinu um 38 millj. kr. og næsta meðlagsgreiðsla, sem leggja þarf fram þegar í þessari viku, nemur um 26 millj. kr. — allt fengið að láni erlendis.

En þó er það allra lakast þegar þjóðarbúið sjálft er rekið með halla og mismunurinn er greiddur með erlendum gjaldeyrislánum.

Þegar við Íslendingar flytjum inn vörur frá öðrum löndum fyrir 10 dollara flytjum við vörur út á móti fyrir aðeins 9 dollara. Mismunurinn er tekinn að láni erlendis. Það er einmitt megintilgangur brbl. að draga verulega úr erlendri lántöku vegna þessa uggvænlega viðskiptahalla. Þeir sem þrástagast á því að brbl. breyti engu efnahagslega tala gegn betri vitund. Brbl. draga verulega úr verðbólgu, en þó framar öllu öðru draga þau stórlega úr erlendum lántökum á næsta ári. Þeir sem standa gegn brbl. axla því þyngri ábyrgð en allir aðrir á erlendum lántökum á næsta ári.

Góðir hlustendur. Við Alþb.-menn göngum til næstu kosninga í þeirri von að núv. ríkisstj. fái öflugra umboð frá þjóðinni en nú er fyrir hendi. Enginn efast um að ríkisstj. hafi mikinn meiri hl. þjóðarinnar að baki sér, en hún þarf að öðlast þingstyrk í samræmi við þjóðarvilja. Eins og leikar standa hefur hún aðeins hálfan mátt og getur ekki stjórnað af þeim skörungsskap sem nauðsyn kallar á.

Ef núv. ríkisstj. nær ekki meiri hluta í næstu kosningum er harla óljóst hvað við tekur.

Verður það stjórn sem mótuð er af íhaldssömustu öflum Sjálfstfl., spegilmynd af íhaldsstjórn Thatchers í Bretlandi og Reagans í Bandaríkjunum, eftirmynd þeirra ríkisstj. sem eiga meiri þátt í heimskreppu og atvinnuleysi vestan hafs og austan en nokkurt annað stjórnmálaafl? Eða mun forustuafl vinstri manna, Alþb., leggja þar hönd á plóg?

Er ykkur ljóst, góðir hlustendur, að samsvarandi atvinnuleysi á Íslandi eins og er í þessum löndum jafngildir því að allir þeir, sem hér vinna að sjávarafla samanlagt á sjó og landi, yrðu atvinnulausir?

Það er engin tilviljun að þetta ástand er ekki á Íslandi. Ef stefnu Thatchers og Reagans verður beitt hér á landi, þá skapast þetta ástand. Það er heldur engin tilviljun, að mesta atvinnuleysi frá stríðslokum var einmitt í valdatíð Sjálfstfl. og Alþfl. fyrir 13 árum síðan.

Það einkennir einmitt pólitíski ástand líðandi stundar að kjósendur hafa ekki hugmynd um, hvað stjórnarandstaðan vill eða hvað hún myndi gera, ef hún fengi völdin. Hitt veit fólk að fenginni reynslu, að ríkisstj. sem Alþb. á aðild að mun gera allt, sem unnt er að gera, til að milda áhrif heimskreppunnar á kjör hins almenna manns.

Við Alþb.-menn göngum til kjósenda og segjum af fullri hreinskilni: Við skulum draga úr eyðslu okkar — við skulum draga úr neyslu okkar meðan hríðin gengur yfir. Við skulum dreifa byrðunum á réttlátari hátt. En framar öllu öðru skulum við tryggja óskerta félagslega þjónustu og fulla atvinnu fyrir alla landsmenn. Og við skulum búa okkur undir að snúa vörn í sókn, um leið og færi gefst.