19.10.1982
Sameinað þing: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

13. mál, stefna í flugmálum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hefði viljað óska eftir því að flm. þessarar till. létu svo lítið að hlusta á umr. um hana og ber þá ósk sérstaklega fram að þeir þm. Vestfjarða, sem hér hafa skrifað upp á, verði í salnum meðan ég flyt mál mitt. Vildi ég með leyfi forseta mega gera hlé á máli mínu þar til þeir mæta. (Forseti: Ég hef óskað eftir því að þeirra yrði leitað.)

Ég vil byrja á því að rekja hér þá jákvæðu hluti sem eru í þessari þáltill. Þar er skylt og rétt að byrja á 8. liðnum. Það er tvímælalaust til hagsbóta fyrir Íslendinga almennt að Reykjavíkurflugvöllur verði framtíðarflugvöllur vegna innanlandsflugs. Ég vona að það séu sameiginlegir hagsmunir Reykvíkinga og dreifbýlisins að svo verði um ókomna framtíð og tel reyndar að það sé um svo sjálfsagt mál að ræða að ekki þurfi að eyða miklum tíma í rökstuðning um það.

Ég er líka í öllum aðalatriðum sammála því sem sagt er í 4.lið þessarar till.: „Ekkert flugfélag skal hafa forgangsrétt til leiguflugs og öllum frjálst að semja við hvaða flugfélag sem er, uppfylli það skilyrði um öryggismál.“ Þetta er að sjálfsögðu aðalatriðið. Hér kemur á eftir í sömu grein: „Þess verði þó ávallt gætt, að leiguflug fari ekki í bága við áætlunarflug.“ Ég vildi gjarnan fá það betur útskýrt hvað felst í orðinu „bága“. Það er hægt að fela eitt og annað bak við það orð og meðan ég veit ekki hver er hin hugsaða merking tel ég ástæðulaust að vera með neinar getsakir í því sambandi.

Ég er hlynntur því að stefnt verði að því að viðhald flugvéla fari fyrst og fremst fram innanlands. Hins vegar tel ég að undir mörgum kringumstæðum sé hæpið að binda það í of fastar skorður.

Hitt sem vakti undrun mína og gerði það að verkum, að ekki er undan því hægt að víkja að ráðast nokkuð harkalega á þessa þáltill., er sá boðskapur sem hún flytur gagnvart þeim flugfélögum sem starfa í landinu. Hv. 1. flm., 6. þm. Norðurl. e., gat þess hér að hann væri ekki að troða skóinn niður af Arnarflugi. Það er hárrétt athugað. Hér er um miklu róttækari aðgerðir að ræða en svo, að hægt sé að nota jafn hógvært orðalag og að verið sé að troða skóinn af félaginu. Hann sagði hér orðrétt og það er kjarni málsins í þeirri merkingu sem liggur á bak við þetta: Það er ekki lífsrými fyrir tvö áætlunarflugfélög til og frá Íslandi — eða á Íslandi. Ég tók ekki nákvæmlega eftir niðurlagi setningarinnar. Þetta hugtak með lífsrýmið er ákaflega sjaldan notað nú á dögum. Þetta var notað mikið af Hitler á sínum tíma. Hann sagði að Þjóðverjar þyrftu meira lífsrými. Og hann var ekki í neinum vafa um það hvað hann ætlaði sér að gera. Hann ætlaði að ryðja úr vegi, taka þá af sem stóðu gegn því að Þjóðverjar fengju það lífsrými sem þeir þyrftu. Ef merkingin er sú hin sama sýnist mér að ekki verði hægt að skilja þetta á annan veg en þann, að þetta sé hrein aðför að öðru flugfélaginu, og það liggi ljóst fyrir hver merkingin sé, falin á bak við fegurri orð hér í till. (Gripið fram í.) Þetta fer í bága við lífsrýmið, segir hv. 6. þm. Norðurl. e. Ég veit ekki hvort nokkur von er til þess að við getum rætt þessi mál á þann veg, að nokkurt samkomulag um lífsskoðanir geti átt sér stað.

Ég vil vekja athygli á öðru sem kemur hér fram í 2. gr. Það segir svo: „Öðrum flugfélögum í innanlandsflugi verði gert kleift, með opinberri aðstoð ef nauðsynlegt reynist, að tengjast neti aðalflugleiða til að halda uppi áætlunarflugi til þeirra staða er aðalflugleiðirnar ná ekki til“ Þessi setning gerir mig bæði reiðan og undrandi. Það vekur furðu mína að hv. 3. þm. Vestf. skrifi upp á till. þar sem verið er að leggja svona hluti til. Það vekur enn meiri furðu mína að hv. 6. landsk. þm. skuli gera það. Það er flogið af hálfu Flugleiða til þriggja staða á Vestfjörðum, á Ísafjörð, á Þingeyri og á Patreksfjörð. Ég fæ ekki betur séð en að með þessum till. sé verið að leggja til að á hina staðina eigi að taka upp doríuflug til þessara þriggja staða. Ef gert er ráð fyrir að menn komist samdægurs til Reykjavíkur eða frá Reykjavík, eftir að þetta doriuflug væri upp tekið, þýðir þetta að það þyrfti að fljúga tvisvar t.d. frá Holti í Önundarfirði á Ísafjörð, bæði áður en flugvél færi suður og einnig eftir að flugvél kæmi að sunnan. Menn geta rétt ímyndað sér kostnaðinn af þessari tilhögun. Það vekur og undrun mína að það er verið að tala um öryggismál samhliða í þessari till. Hvaða öryggi fylgir þeirri tilhögun, ef hún yrði upp tekin, hvaða öryggi er bætt með slíkum ráðsröfunum? Ég vil leggja þá spurningu fyrir Sighvat Björgvinsson, hv. 3. þm. Vestf., hvað hann telur að kostnaður aukist hjá farþegunum á þessari leið — eða hjá ríkinu ef það ætlar að fara að greiða þau gjöld. Ég vil líka fá svör við því hvernig hann hefur hugsað sér umrætt doríuflug.

Hér er talað um að verðlagning fargjalda á innanlandsflugleiðum verði gerð raunhæf til að tryggja það að eðlileg endurnýjun flugflota, þjónusta og rekstur geti farið fram og fyllsta öryggis sé gætt í hvívetna. Ég veit ekki til að slakað hafi verið á öryggiskröfum vegna þess að fluggjöld hafa ekki verið hærri. Hafi verið gefin úr reglugerð, sem heimili það að slakað sé á öryggiskröfum vegna þess að fluggjöld séu ekki hærri, þá vildi ég gjarnan fá að frétta af því. Hins vegar hafa fluggjöld í innanlandsflugi hækkað um 73 eða 75% á þessu ári. Ég vil fá hrein svör. Hvað telja flm. að fluggjöldin hefðu átt að hækka mikið í prósentum á þessu ári? Það skiptir nefnilega íbúana þó nokkru máli á hvaða verði þeir geta flogið t.d. Vestfjörðum til Reykjavíkur.

Það er vitnað í Noreg og sagt að Norðmenn hafi tekið upp það kerfi í flugmálum að flogið sé inn á aðalvelli. Ráðh. samgöngumála talaði um að sér fyndist þetta skynsamlegt en lýsti því jafnframt yfir að þetta væri óframkvæmanlegt á vissum stöðum á Íslandi. Ég fæ það nú ekki til að ganga upp. En hver er höfuðmunurinn ef við horfum á Noreg og berum hann saman við Ísland? Annað landið er aflangt og gerir það að sjálfsögðu mun einfaldara að taka upp þá stefnu sem hér er verið að tala um. En ég biðst undan þeirri forsjá sem þessir hv. þm. leggja til að hið háa Alþingi taki sér handa vissum landshlutum þessa lands í samgöngumálum — og vinna til hreinnar bölvunar að þróun flugmála fyrir t.d. það kjördæmi sem ég er þm. fyrir. Mig undrar það í fyrsta lagi að þm., sem eiga að vera þar staðkunnugir, láti sér detta í hug að skrifa upp á þessa till. til þál. Og ég harma það, forseti, að þeir sjái sér ekki fært að vera við þegar till. er rædd — nema þeir hafi metið það svo að það gæti verið skynsamlegt að vera fjarverandi.