23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er dálítið einkennilegt að standa hér og ræða till. til þál. um vantraust á ríkisstj. flutta af þingliði Alþfl. sem nú þjáist flokka mest af átökum og innanmeinum. Af eðlilegum ástæðum var talið að Alþfl. væri sá eini af stjórnmálaflokkunum sem stæði heill og óskiptur í stjórnarandstöðu. Svo er þó ekki, því að skoðanakannanir hafa hvað eftir annað leitt í ljós að ýmsir góðir Alþfl.-menn hafa stutt núv. ríkisstj. frá öndverðu og þau meginmarkmið sem hún hefur keppt að.

Það er nú ljóst orðið að sjaldan hefur orðið meiri og óvæntari efnahagssamdráttur í íslenskum þjóðarbúskap en á árinu 1982 sem nú er að líða. Fyrir aðeins einu ári voru þjóðhagshorfur taldar allgóðar. Búist var við 1% vexti í þjóðarframleiðslu, viðunandi jafnvægi í viðskiptum við útlönd og minnkandi verðbólgu. Sú spá mætti lítilli gagnrýni. En margt fer öðruvísi en ætlað er, jafnvel þótt stuðst sé við bestu manna yfirsýn. Nú er talið líklegt að þjóðarframleiðsla dragist saman um 3,5%. Þetta er meiri samdráttur en orðið hefur síðan 1968. Ástæðuna má einkum rekja til tveggja þátta. Annars vegar mun minni sjávarafla og hins vegar óvenjulangvinnrar og alvarlegrar kreppu í alþjóðaefnahagsmálum sem valdið hefur ómældum þrengingum á útflutningsmörkuðum Íslendinga bæði fyrir sjávarafurðir og iðnaðarvörur. Horfur á næsta ári eru einnig dökkar og nýjustu spár benda til þess að þjóðartekjur á mann muni dragast saman um samtals 9% á árunum 1982 og 1983, það blæs því ekki byrlega um sinn. Hverju er um að kenna að ekki hefur betur til tekist en raun ber vitni? Þegar svo er spurt verða margir fljótir til svars, og skella allri skuldinni á stjórnarfarið í landinu. En skýringin er ekki svo einföld. Um þróun alþjóðamála fá Íslendingar litlu ráðið nú sem fyrr, þvert á móti erum við ofurháðir þeim svölu veðrum og vindum sem hingað blása utan af heimsbyggðinni. Á hverju sem gengur verðum við að leggja kapp á alþjóðleg viðskipti, að flytja út afurðir okkar og selja svo að við getum keypt til landsins margháttaðar nauðsynjar í þjóðarbúið.

Á hinn bóginn megum við aldrei gleyma því að margur vandinn er heimafenginn og hlutverk okkar er að sjálfsögðu að bregðast á þann veg við aðsteðjandi vanda að við getum séð fótum okkar forráð með sómasamlegum hætti.

Frá öndverðu hefur þessi ríkisstj. haft hin sömu höfuðmarkmið að leiðarljósi í efnahagsmálum, öflugt atvinnulíf og næga atvinnu fyrir alla landsmenn, hjöðnun verðbólgu, tryggingu kaupmáttar.

Þegar sýnt þótti að þjóðhagsáætlunin fyrir árið 1982 mundi ekki ná að rætast og erfiðleikar fóru ört vaxandi í íslensku efnahagslífi var reynt að hamla á móti og veita viðnám með ýmsum hætti svo sem segir m.a. í skýrslu ríkisstj. frá 27. janúar s.l. um aðgerðir í efnahagsmálum. Og þegar áfram þyngdi í lofti og syrti í álinn, gaf ríkisstj. út brbl. um efnahagsaðgerðir í ágústmánuði s.l., og boðaði samtímis ýmsar mikilvægar viðbótarráðstafanir í efnahagsmálum svo sem alkunna er.

Brbl. hafa nú verið lögð fram á Alþingi, svo sem lög og venjur segja til um. Efni þeirra er alþjóð kunnugt af langri umr. í fjölmiðlum og manna á meðal og skal ekki rakið hér, en þó að flest orki tvímælis þá gert er, þá er það mitt álit og sannfæring, að sá alþm., sem ris öndverður gegn þeirri lagasetningu án þess að benda á betri leiðir, skapi sér þunga ábyrgð að ekki sé meira sagt.

Stjórnarandstaðan hefur að vísu klifað á því seint og snemma, að brbl. leysi engan vanda. Þau muni jafnvel gera illt verra. Ríkisstj. beri að fara frá þegar í stað og efna til nýrra alþingiskosninga. Segja má auðvitað, að það sé auðveldasta og hægasta leiðin fyrir hverja ríkisstj. að hlaupast frá vandanum þegar á móti blæs hvernig sem á stendur. En það er hvorki mannlegt né stórmannlegt. Sá sem hefur tekið að sér að stjórna um skeið getur ekki kastað frá sér stýrinu og flúið frá allri ábyrgð eftir eigin geðþótta, hvenær sem honum þykir henta.

Alþingiskosningar eru á næsta leiti. Þær eiga að fara fram á næsta ári samkv. lögum. Ég tel ástæðulaust og óráðlegt að efna til þeirra fyrr en dag fer að lengja og sólin hækkar á lofti. Nefna mætti síðari hluta aprílmánaðar í fyrsta lagi úr þessu. Þeir sem óskað hafa eftirskammdegiskosningum í desember eða janúar t.d. hafa vart hugsað málið til enda. Hvað hefði þá orðið um fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir, viðnám gegn vanda og stjórnarskrármálið? En ekki dugar að láta deigan síga. Hvað sem öðru líður er þess að vænta að þjóðin og ráðamenn hennar eigi nægan þrótt og þor til að takast á við örðugleikana og sigrast á þeim.

Þegar horft er til baka yfir valdaskeið núv. ríkisstj. getur hver og einn rifjað upp og hugleitt hverju íslensk þjóð hefur komið í verk á þessum árum til sjávar og sveita. Það er ekki lítið sem áunnist hefur, það er margt stórvirkið sem hrundið hefur verið í framkvæmd. E.t.v. höfum við farið of geyst á sumum sviðum. Kapp er ævinlega best með forsjá.

Það hefur verið sagt að ríkisstj. hafi ekki sýnt næga fyrirhyggju, gert of litið og of seint til að ná árangri. Ég hygg að ráðh. sjálfir fari nærri um þetta og þá eins hitt, hvaða stjórnarflokki er um að kenna að ýmsar knýjandi aðgerðir hafa stundum dregist úr hófi fram í tíð stjórnarinnar.

Sé horft fram á veginn má sjá mörg skemmtileg verkefni sem við blasa og unnið er að. Ég nefni sem dæmi byggðamálin í allri sinni fjölbreytni, atvinnumálin til lands og sjávar, menntamál, orku- og samgöngumál, ræktun lýðs og lands. Þar er um að ræða ótalmörg áhugasvið og athafna sem einstaklingurinn á að geta fundið við sitt hæfi og fest við æviyndi án þess að leita langt yfir skammt.

Í því andstreymi sem við er að etja um þessar mundir er því engin ástæða til að láta hendur fallast, en það þarf að taka fast á, koma fram þeim óumflýjanlegu ráðstöfunum sem brbl. hafa að geyma og öllum verða til góðs þegar stundir líða, halda áfram að framfylgja þeim tillögum öðrum sem ráðgerðar voru jafnhliða brbl. frá í ágúst, svo sem nýju viðmiðunarkerfi sem alls ekki má dragast lengur, leggja frv. til nýrrar stjórnarskrár fyrir þingið nú þegar, fjalla um það og afgreiða snemma á næsta ári, svo framarlega sem þm. hafa jafn brennandi áhuga á því máli og þeir hafa látið í veðri vaka. Að því samþykktu yrði þing rofið og stjórnmálaflokkarnir gengju til reglulegra alþingiskosninga hver í sínu lagi, svo sem venjulegt er, með svipuðum hætti og í sama sameiningaranda, a.m.k. að því er varðar Sjálfstfl., og gengið var til sveitarstjórnarkosninga á liðnu vori, enda hefur í mínum huga aldrei komið til greina að framlengja núverandi stjórnarmynstur óbreytt eftir þingkosningar.

Í öllum flokkum eru uppi skiptar skoðanir og ólík sjónarmið, ekki síst í Sjálfstfl., en ég hef alltaf vonað og gengið út frá því að við sjálfstæðismenn gætum borið gæfu til samþykkis, til þess að jafna deilur og greiða úr málum nú eins og ævinlega hefur tekist í 50 ára sögu flokks okkar. Og eitt er víst, að það mundi verða landi og þjóð fyrir bestu. Lifið heilir, hlustendur góðir.