23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er hvorki nýstárlegt né frumlegt þótt flutt sé till. á Alþingi um vantraust á starfandi ríkisstj. Á hinn bóginn er atburðarásin, sem tengist þessari vantrauststillögu, með nokkrum sérkennum. Eftir að flokksþing Alþfl. hafði lýst stuðningi við framhald viðræðna milli Kjartans Jóhannssonar og ríkisstj. að uppfylltum tilteknum skilyrðum og forsrh. lýsir því yfir, að þau skilyrði fari saman við fyrirætlanir ríkisstj., gerist þrennt að heita má í senn. Kjartan Jóhannsson segist líta svo á að forsrh. hafi slitið viðræðunum, að helst verður skilið með því að fallast á svokölluð skilyrði Alþfl., Alþfl. flytur vantraust á ríkisstj. og Alþfl. klofnar. Enn hefur því Alþfl. tekist að koma á óvart með sérkennilegu háttalagi. Hvort þetta háttalag hans er líklegt til þess að auka traust hans meðal þjóðarinnar skal hins vegar ósagt látið.

Þessi vantraustsumræða fer fram þegar skammt er til loka kjörtímabils og næstu kosninga. Umræðan gefur því ákjósanlegt tilefni til þess að krefja stjórnarandstöðuna um stefnu og úrræði í þeim vandamálum, sem við er að fást, ef þar væri einhverja stefnu að finna aðra en þá að ríkisstj. fari frá. Á sama hátt gefst hér heppilegt tækifæri til að skýra málefni ríkisstj. og rifja upp minnisverð atriði úr starfi hennar.

Í minni stuttu ræðu verð ég að láta við það sitja að drepa á nokkra þætti landbúnaðarmála. Ég nefni þó aðeins úr öðrum málaflokkum stórátök þessarar ríkisstj. í vegamálum. Ég nefni einnig að minnisstæð verður sú harða en sigursæla barátta, sem háð var fyrir virkjun Blöndu, fyrstu stórvirkjun utan eldvirkra svæða.

Ríkisstj. hefur lagt fram till. til þál. um stefnu sína í landbúnaðarmálum. Að ýmsu leyti er þar um að ræða staðfestingu á þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið frá því að ríkisstj. var mynduð, en þar er einnig um mörg nýmæli að ræða. Í samræmi við þessa stefnu hefur tekist að halda jafnvægi í framleiðslumálum, þannig að mjólkurframleiðslan hefur verið við hæfi innlenda markaðarins í þrjú ár. Til að ná þessu marki var óhjákvæmilegt að leggja gjald á innflutt kjarnfóður í júnímánuði 1980, sem jafnframt þjónaði þeim markmiðum að draga úr innflutningi á fóðurvörum og efla innlenda fóðurframleiðslu.

Þrátt fyrir markaðserfiðleika erlendis mun takast að greiða sem næst fullt verð fyrir kindakjötsframleiðsluna frá síðasta verðlagsári og er nauðsynlegt að það uppgjör fari fram nú alveg á næstunni. Til þess þurfum við ekki viðbót við 10% útflutningsbótaréttinn að þessu sinni. En útflutningsbótaréttinn er ekki einungis nauðsynlegt heldur einnig hyggilegt að verja, hvað sem líður kröfum Alþfl. eða upphrópunum Dagblaðsins.

Skipuð hefur verið nefnd til þess að endurskoða kvótakerfið og kanna hvort ekki sé réttara að skipta landinu í framleiðslusvæði, sem hvert um sig hafi rétt á fullu verði fyrir ákveðið framleiðslumagn mjólkur- og sauðfjárafurða, séu markaðir takmarkaðir. Með því mætti draga úr afskiptum af athafnafrelsi einstakra bænda. Mikið hefur verið unnið að markaðsmálum landbúnaðarins og er sú vinna enn í fullum gangi, bæði af hálfu búvörudeildar SÍS, markaðsnefndar og einnig af hálfu einstaklinga úr viðskiptaheimi, sem starfa að þessum málum í tengslum við landbrn. Sú vinna tekur tíma, en þegar hefur sannast að hægt er að flytja út stykkjað og hálfunnið kjöt fyrir mun betra verð en með hefðbundnum hætti.

Í framhaldi af markaðskönnun þessara aðila var einmitt hér í dag staddur fulltrúi stærsta kjötsölufyrirtækis Hollendinga til að ræða möguleika á því að kaupa allt það dilkakjöt sem við getum nú af hendi látið. Þótt samningar takist nú um þessi viðskipti, sem vonandi verður, hefur þegar komið í ljós að áhugi þessa aðila til frambúðar beinist að sérskornu og stykkjuðu kjöti í þar til gerðum umbúðum, sem er enn ein sönnun þess, hvert við eigum að stefna í þessum málum.

Fjölbreytni hefur aukist í vinnslu landbúnaðarafurða fyrir innlendan markað og ný kjötvinnslufyrirtæki hafa risið á vegum einstaklinga, sem virðast geta lagt grunn að aukinni neyslu innanlands í hagkvæmari sölumöguleikum erlendis. Fjölbreytni hefur aukist í landbúnaðarframleiðslu og verulegum fjármunum verið varið á þremur árum til hagræðingar og nýjunga í fiskeldi og fiskiræki, fóðurframleiðslu og loðdýrarækt, auk annarra viðfangsefna. Auk stuðnings við nýjar fiskeldisstöðvar og fiskvegi hefur nokkru fé verið varið til rannsókna og merkingar á seiðum og var um 140 þús. merktum seiðum sleppt í veiðiár á liðnu sumri um land allt, en þó einkum á Austur- og Norðausturlandi, þar sem veiði hefur mjög minnkað á síðustu tveimur árum. Gætu þessar merkingar skorið úr um það hvort lax úr þessum veiðiám sé að einhverju marki í afla Færeyinga og orðið okkur nauðsynlegt vopn í baráttu gegn úthafsveiðum þeirra.

Unnið er að því að skipuleggja uppbyggingu fóðurstöðva fyrir loðdýrafóður, sjóðagjöld af loðdýraafurðum hafa verið lækkuð og aðflutnings- og sölugjöld af efni til loðdýrabúa felld niður. Möguleika í loðdýraræki verða menn að meta af raunsæi og virðist nauðsynlegt að auka leiðbeiningar og eftirlit í þessari búgrein. Kennsla í þessari búgrein verður tekin upp við bændaskólana.

Stuðningur hefur verið aukinn við fóðurverkun og hafin er að nýju kornrækt á Suðurlandi til fóðurframleiðslu. Unnið er að eflingu fóðuriðnaðar og næsta sumar tekur ný fóðurverksmiðja væntanlega til starfa í Skagafirði. Unnið er að skipulagsbreytingum á rekstri tilraunastöðva landbúnaðarins, þannig að áhrif og ábyrgð bænda og samtaka þeirra verði aukin. Menntastofnanir landbúnaðarins starfa nú allar með myndarbrag og hefur tekist að reisa Hólaskóla úr þeirri lægð sem hann var í þegar ríkisstj. tók við.

Athugun er í þann veginn að hefjast á fjárhagsstöðu bænda, en hún er talin misjöfn, einkum vegna mikils fjármagnskostnaðar en einnig af völdum áfalla af árferðissveiflum. Afurðalán hafa að undanförnu verið hækkuð til samræmis við verðlagsbreytingar, en færð út til fleiri framleiðslugreina landbúnaðarins. Rekstrarlán landbúnaðarins voru hins vegar hækkuð á þessu ári um 96.2%, sem er þýðingarmikil breyting.

Lánveitingum Stofnlánadeildar til fjósa- og fjárhúsabygginga hefur fækkað og svara nú til um 2–4% af þeim byggingum sem fyrir eru eða tæplega eðlilegu viðhaldi og endurnýjun. Lán til hlöðubygginga hafa samsvarað eðlilegu viðhaldi.

Ég tel ástæðu til þess að vara við meiri samdrætti í búvöruframleiðslu bænda en þegar er orðinn. Að sjálfsögðu sníður markaðurinn framleiðslunni stakk, en með hagkvæmni og árvekni í markaðsmálum vænti ég að okkur takist að selja framleiðslu landbúnaðarins eins og hún er nú, og með nýjum vinnubrögðum má vera að betur rofi til.

Góðir hlustendur. Í þröngri stöðu efnahagsmála, sem nú stafar af ytri áföllum og langvarandi verðbólguþróun, er þjóðinni nauðsyn frekar en nokkru sinni að stjórnmálamenn sýni ábyrgð og festu. Það er ábyrgðarleysi að þjóna ímynduðum pólitískum hagsmunum með því að fella hin nauðsynlegustu mál, sem flutt eru til að draga úr afleiðingum þeirra alvarlegu áfalla sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir. Til slíkra mála, svo sem brbl. þarf Alþingi að taka afstöðu á næstu vikum. Þjóðin mun fylgjast með því hvort Alþingi sýnir þá ábyrgð eða bara ábyrgðarleysi. Ég efast ekki um vilja og óskir þjóðarinnar. Ég vona sannarlega að hún verði ekki fyrir vonbrigðum. Góða nótt.