24.11.1982
Efri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

97. mál, þjóðsöngur Íslendinga

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Árið 1874 var haldin þjóðhátíð á Íslandi af tilefni 1000 ára afmælis byggðar á Íslandi. 2. ágúst það ár gekk í gildi stjórnarskrá sú sem enn er gildandi að mestu leyti og þann sama dag var haldin hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þar var fluttur í fyrsta sinn lofsöngurinn „Ó, guð vors lands“ eftir séra Matthías Jochumsson við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds. Það leið nú alllangur tími þangað til „Ó, guð vors lands“ hafði unnið sér hefð sem þjóðsöngur, en svo varð smám saman að það grópaðist æ dýpra í vitund þjóðarinnar að hér væri þjóðsöngur Íslendinga og sem slíkur eitt af táknum hins íslenska þjóðernis.

Það gerðist svo alllöngu síðar, eða á árunum 1948–1949, að íslensk stjórnvöld keyptu réttindi bæði að ljóði og lagi og árið 1959 var þjóðsöngurinn gefinn út í vandaðri útgáfu af hálfu forsrn., þar sem skýrt var tekið fram að „Ó, guð vors lands“ væri þjóðsöngur Íslendinga.

Það er vissulega orðið tímabært að sett séu lóg um þjóðsönginn eins og að sínu leyti sett voru á árinu 1944 lög um þjóðfána Íslendinga.

Í 1. gr. þessa frv. til l. um þjóðsöng Íslendinga segir: „Þjóðsöngur Íslendinga er „Ó, guð vors lands“, ljóð eftir Matthías Jochumsson og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.“

Í 2. gr. segir: „Þjóðsöngurinn er eign íslensku þjóðarinnar og fer forsrn. með umráð yfir útgáfurétti á honum.“

Um vernd þjóðsöngsins segir svo nánar í næstu greinum. Í 3. gr.: „Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upphaflegu gerð höfunda hans. Á það jafnt við um ljóð, laggerð, hljómsetningu og hljóðfall þjóðsöngsins.“

Nokkru nánari ákvæði eru svo um rétta notkun þjóðsöngsins í hinum næstu greinum.

Ég vænti þess að hv. alþm. verði sammála um að rétt sé og tímabært að set ja lög um þjóðsöng Íslendinga og legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.