24.11.1982
Efri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

97. mál, þjóðsöngur Íslendinga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði að það væri tímabært að setja lög um þjóðsönginn hliðstætt því sem sett voru 1944 sérlög um þjóðfána Íslands. Það kann að vera að svo sé, sem hæstv. forsrh. segir, en mér þykir rétt að lita samt nokkru nánar á þetta mál en fram kom í ræðu hæstv. forsrh.

Það segir í grg. með þessu frv. að með því sé leitað staðfestingar á fyrri afstöðu stjórnvalda varðandi þjóðsönginn. Tekinn er af allur vafi í máli sem mestur hluti þjóðarinnar mun vera einhuga um. Ég hygg að það sé enginn vafi, ef það er átt við með vafa, hver sé þjóðsöngurinn. Það er þá spurning um vernd þjóðsöngsins og hvað á að gera í því efni. Hann er ekki verndarlaus nú sem stendur, en vera kann að það þurfi að vernda hann betur en er samkv. lögum nú. Þá er spurning hvort setja eigi sérlög um þjóðsönginn eins og gert er ráð fyrir með frv. því sem við nú ræðum.

Ég hygg að hjá þeim þjóðum sem okkur eru skyldastar og næstar sé ekki um slík sérlög að ræða. Ég hygg að það sé rétt, að á Norðurlöndum séu ekki sérlög um þjóðsöngva þeirra ríkja né í Bretlandi eða Þýskalandi, svo að eitthvað sé nefnt. En það þýðir ekki að þjóðsöngur þessara ríkja njóti ekki einhverrar verndar. Og hvar er þeirrar verndar að leita? Þeirrar verndar er að leita í hinum almennu höfundalögum hvers ríkis fyrir sig. Þar er líka hjá okkur að leita nokkurrar verndar, sem þjóðsöngurinn hefur í dag. Spurningin er, ef okkur þykir ekki þjóðsöngurinn nægilega verndaður samkv. höfundalögum eins og þau eru hjá okkur, hvort það eigi að bæta úr því með því að setja sérlög, eins og hér er gert ráð fyrir, eða hvort það eigi að bæta úr því með því að breyta höfundalögunum. Ég vil strax segja að mér þykir það eðlilegri leið, ef um er að ræða að setja sérstök ákvæði um þjóðsönginn, að setja þau ákvæði þá með sérlögum, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv., en fara að breyta höfundalögum okkar í þeim tilgangi að veita þjóðsöngnum meiri vernd en þar er nú að hafa.

Þjóðsöngurinn nýtur samkv. lögum ekki verndar hins almenna höfundaréttar og er ekki háður höfundarétti. En í hófundalögunum er gert ráð fyrir, að þó að svo sé ástatt fyrir þjóðsöngnum eða öðrum verkum, sem verndar þurfa að njóta, njóti þau verndar samkv. ákvæðum í 4. gr. höfundalaganna. Þar er tekið fram að óheimilt sé að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.

Þjóðsöngurinn nýtur þessarar verndar. Í 53. gr. höfundalaganna er tekið fram, eins og ég hef raunar þegar sagt, að þetta ákvæði, sem ég tiltók, í 4. gr., gildi um bókmenntaverk og listaverk sem ekki eru háð höfundarétti. En hvernig á þá að snúast við ef sá réttur er skertur sem 4. gr. höfundalaganna gerir ráð fyrir? Um það höfum við ákvæði í 53. gr. höfundalaganna, þar sem segir að mál út af slíkum brotum skuli aðeins höfða eftir kröfu menntmrh., enda telji hann þess þörf vegna tillits til almennrar menningarverndar.

Mér þykir rétt að víkja að þessu og draga þá staðreynd fram að þjóðsöngurinn nýtur vissrar verndar samkv. lögum. Ég má segja að það sé svipað umbúið t.d. í höfundalögum á Norðurlöndum og hér er gert. Það mun vera í hliðstæðum ákvæðum í lögum á Norðurlöndum kveðið sterkara að orði um hvenær höfða skuli mál í þessu sambandi en hér er gert, og ákvæðin, sem eru í okkar höfundalögum, eru frekar um réttarfarsleg skilyrði en efnisástæður fyrir málshöfðun. En eftir því sem ég veit best er litið nokkuð frjálslega á Norðurlöndum á meiðingar eða misþyrmingar á mikilvægum listaverkum á þeirri forsendu, þ.e. talið að þau muni standa slíkt af sér og það sé ekki nema í undantekningartilfellum sem þurfi að beita löggjöfinni til verndar.

Með frv. því sem hér er lagt fram og við ræðum nú er gert ráð fyrir að veita þjóðsöngnum meiri vernd en hann nýtur nú og ef við eigum að gera það, sem ég tel ekki óeðlilegt að gert sé, er ég samþykkur því að fara þá leið, sem hér er gert ráð fyrir, að setja sérlög um þjóðsönginn en ekki að breyta höfundalögunum.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að frv. sjálfu, sem hér liggur fyrir. Í 3. gr. frv. er kveðið á um það efni, sem er meginatriði frv., að þjóðsönginn skuli ekki flytja eða birta í annarri mynd en í hinni upphaflegu gerð höfunda hans. Það er ennfremur tekið fram að það á jafnt við um ljóð, laggerð, hljómsetningu og hljóðfall þjóðsöngsins. Það er nokkur spurning hvernig á að orða ákvæði sem þetta og það vakna spurningar í því sambandi. Og það er spurning hvað á að taka stíft til orða í þessari grein. Þetta virðist eiga að hafa almennt gildi, t.d. gilda um hljómplötur og lifandi flutning, og það er spurning, sem ég vil vekja athygli á, hvort hér eru of þröng mörk sett. Það getur verkað spaugilega ef það er brot á lögum þegar menn í góðri meiningu syngja þjóðsönginn hver með sínu nefi og það megi telja að eitthvað skorti t.d. á hljóðfall eða annað slíkt í þeim flutningi.

Svo virðist sem það sé séð fyrir þessu með ákvæðum 5. gr. því að þar er gert ráð fyrir að ráðh., þ.e. forsrh., geti veitt undanþágu frá 3. gr. frv., sem ég var að lýsa, þegar sérstaklega stendur á. Það rísa líka spurningar í sambandi við þetta ákvæði um hversu raunhæft þetta er og hvernig framkvæmdir væru á ákvæðum um undanþágur. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu og ég dreg þá ályktun af þessum hugleiðingum að það kunni að vera að réttara sé að hafa ákvæðin í 3. gr. eitthvað rýmri en þar er gert ráð fyrir, en hins vegar gera ekki ráð fyrir neinum undantekningum, þ.e. engar undanþágur verði veittar. Ég held að ef hægt væri að koma frv. í það form — ég segi: ef það væri hægt — kynni það að vera betri lausn á þessu máli.

Herra forseti. Mér hefur þótt rétt nú þegar við 1. umr. að hreyfa þessum hugleiðingum með sérstöku tilliti til þess að ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem þetta frv. gengur til, allshn., en ég vænti þess að frv. fái þar góða meðferð.