24.11.1982
Efri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

97. mál, þjóðsöngur Íslendinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég á þeim mun hægara um vik en hv. síðasti ræðumaður, Þorv. Garðar Kristjánsson, að ég á sæti í þeirri nefnd sem fjalla mun um þetta lagafrv., — á hægara um vik að fjalla nánar um það efnislega. Þó að ég hefði ekki átt sæti í n. hefði ég eigi að síður, eins og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, kvatt mér hljóðs um það þegar við 1. umr.

Ég vil hreint ekki fortaka að eðlilegt sé að setja sérstök lög um þjóðsöng okkar Íslendinga. Ég hefði hins vegar betur kunnað við að hinar raunverulegu ástæður fyrir þessari lagasmíð, kveikjan að þessari lagasmíð, hefðu komið fram af hálfu hæstv. forsrh. þegar hann mælti fyrir frv. Það er á almannavitorði hvers vegna það þykir nú fyrst við hæfi að flytja frv. til l. um þjóðsöng okkar og meðferð hans, þ.e. ósmekklega meðferð á þjóðsöngnum, ljóði og lagi, á opinberum vettvangi. Ég skil það vel, þar sem við búum nú svo vel, Íslendingar, að hafa þann mann á forsætisráðherrastóli sem er ekki aðeins sjálfur músíkalskur maður, heldur einnig smekkmaður á ljóð, að efalítið hafa þessar staðreyndir heldur ýtt undir gerð þess lagafrv. sem hér liggur fyrir.

Lofsöngur Matthíasar, þetta upphafna dýrlega kvæði hins frjálslynda klerks og óðsnillings, ásamt lagi Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar hefur vissulega hlotið þann sess í vitund fólks, og þá fyrst á þeirri tíð sem ég hygg að lifandi kristin trú hafi átt ríkari sess í þjóðarsálinni en síðar hefur orðið, að þetta sé okkar þjóðsöngur, jafnframt því sem hér er á ferðinni upphafinn sálmur þrunginn frjálslyndri trúarjátningu. Ég get aftur á móti ekki orðið handgenginn þeirri staðföstu trú að það sé hin mesta nauðsyn að þessi lofsöngur sé fluttur á sama hátt sem þjóðsöngur og sem sálmur og að það hljóti að vera nauðsyn og liggi við þjóðarstolt okkar og metnaður að hann verði ávallt fluttur í hinni sömu mynd, hvort heldur um er að ræða ljóð, laggerð eða hljómsetningu og hljóðfall.

Ég minnist þess að hafa heyrt þjóðsönginn okkar fluttan í djassútsetningu, sunginn af íslenskri söngkonu og á þann hátt að hann snart mína fremur hrjúfu músíkölsku sál jafnvel ennþá dýpra en í hinni klassísku mynd. Það þóttu mér hvorki vera siðspjöll né óvirðing við lofsönginn og þjóðsöng Íslendinga eins og hann var þá fluttur. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt jafnvel hina heitustu meðal amerískra þjóðernissinna fetta fingur út í útsetningu „Stars and stripes“ eins og Mahalia Jackson hefur sungið þjóðsöng þeirra Bandaríkjamanna. Ég hygg að við verðum að eiga það á hættu, vegna þess að þar er nokkurs til að vinna, að hægt verði að bæta þjóðsönginn okkar í flutningi, gera hann við hæfi hvers tíma, fella hann að gildandi og ríkjandi smekk fólksins í landinu á hverjum tíma og opna jafnvel þannig leið fyrir þjóðsönginn okkar að hjörtum fólksins með því að sniða flytjendum ekki svo þröngan stakk að þarna megi hvergi frá víkja.

Ég er þeirrar skoðunar, að það gæti orðið farsælla fyrir okkur að setja ekki lög af þessu tagi. Dæmin hafa sannað að afskipti löggjafans af listastefnum og túlkun á landi hér hafa þegar til lengdar lét orðið, í það minnsta stundum, til litillar farsældar og hafi jafnvel átt það til að verða skopleg með aldrinum. Nægir að minna þar á t.d. afskipti Alþingis af því með hvaða hætti íslenskar bókmenntir skuli stafsettar.

Ef við víkjum aðeins að 5. gr., þá er ég uggandi um að svo muni verða lengstum, að við munum hafa þá menn fyrir forsrh. sökum þá annarra dyggða sem hvergi nærri komist í jafnkvisti við hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen, hvorki um músíkþekkingu né smekk á íslenskar bókmenntir og skáldskap, — ekki einu sinni víst að ráðuneytisstjóri hans verði liðtækur til ráðuneytis um hvort vikið sé frá geirnegldum lagaákvæðum um laggerð, hljómsetningu og hljóðfall.

Herra forseti. Mér er alls ekki skop í hug, en ég óttast að það kunni enn um sinn að verða svo, að þjóðsöngur okkar verði sunginn vítt um byggðir landsins vegna skorts á músíkþekkingu og þjálfun, gersamlega svo sem verið hefur, án tillits til laggerðar, hljómsetningar eða hljómfalls. Oftar hygg ég að ég hafi heyrt þjóðsönginn okkar sunginn fram eftir ævi án tillits þess arna og þætti það mjög leitt ef við smíðuðum nú þau lög að þjóðelskir Íslendingar, einlægir íslenskir þjóðernissinnar, sem tilbiðja vilja guð síns lands, yrðu gerðir að lögbrjótum með þessum hætti eða yrðu að syngja þjóðsönginn til þess að forðast slík lagabrot á helgum dómum þjóðarinnar. Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að íhuga þetta frv. í allshn., þangað sem því er ætlað að ganga, það finnst mér sjálfsagt, en ég vildi koma þessum aths. mínum á framfæri nú þegar.