24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

16. mál, þingsköp Alþingis

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég segi ekki á þessu stigi málsins mikið um það frv. sem hér liggur fyrir. Ég get um margt verið sammála hv. flm., að þingsköp Alþingis þyrfti að endurskoða. Ég á hins vegar ekki auðvelt með að sjá að þessi lagabreyting eigi rétt á sér við óbreyttar aðstæður. Mér er alveg hulin ráðgáta hvers vegna þingnefnd á að hafa eftirlit með framkvæmd laga á meðan ráðherrar eru jafnframt þm. Ég hélt að það væri þá þeirra mál og þeirra verkefni að sjá um að viðkomandi lögum væri framfylgt.

Hér er talað um að menn eigi hagsmuna að gæta með setu í ráðum og nefndum og auðvitað geta þeir átt það. En þeir eiga það venjulega vegna alls kyns atvinnurekstrar sem þeir sjálfir reka með þingmennskunni. Hér sitja útgerðarmenn, innflytjendur og menn af öllu tagi, og það er þá kannske orðin spurning hvort menn eigi að vera í slíkum rekstri jafnframt þingsetu. Um þetta mætti segja margt. Ég held að þetta sé ekki nærri eins einfalt mál og hv. flm. vill vera láta.

En meginástæðan til þess að ég stóð hér upp er sú, að hér var verið að tala um þingnefndir sem eigi að fylgjast með framkvæmd hinna ýmsu laga. Þá vil ég leyfa mér að beina þeim orðum mínum til hæstv. forseta, að forsetar gefi nokkru nákvæmari gaum að á hvaða tillögu þeir fallast um tilvísun mála í nefndir. Eins og menn rekur minni til bar svo við hér á Alþingi um daginn við afgreiðslu þáltill. um nefnd til að rannsaka starfsemi Íslenskra aðalverktaka að þáltill. var vísað til utanrmn. Þótti mönnum það undarlegt mörgum.

Ég var ekki nógu fljót til áðan, þegar síðasta mál sem á dagskrá var og fjallar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, mál sem hv. 10. landsk. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti, var afgreitt. Þar er verið að fjalla um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Og án þess að blikna eða blána er lagt til að málinu sé vísað til hv. heilbr.- og trn. Mér er þá spurn: Á hv. heilbr.- og trn. að fylgjast með gangi mála í skattakerfi þjóðarinnar í framtíðinni?

Ég held að mál sé til komið að þm. mótmæli þessum ábyrgðarlausu samþykktum forseta um að hin ólíklegustu mál berist hinum ólíklegustu nefndum. Og ég verð að koma því á framfæri undir þessum lið, vegna þess að ég var ekki nógu fljót til að mótmæla þessu fyrir nokkrum mínútum sem formaður heilbr.- og trn. Ég vil koma þessu á framfæri til forseta þingsins og jafnframt í raun og veru spyrja, þrátt fyrir þá samþykki sem hér var gerð, að þessu máli yrði vísað til hv. heilbr.- og trn., hvort þetta nær í raun og veru nokkurri átt og hvort ekki er hægt að fá þessu breytt. Við getum spurt sjálf okkur hvaða mál eigi þá ekki að koma til þeirrar nefndar.

En varðandi það frv. sem hér liggur fyrir, þá held ég að erfitt sé að fallast á það við óbreyttar aðstæður. Þetta frv. verkar á mig sem hluti af því frv. sem hv. flm. flutti hér sem væntanlegur þm. Bandalags jafnaðarmanna. Og þá gæti þetta fyrirkomulag átt rétt á sér. En meðan hæstv. ráðherrar sitja hér sem þm. á Alþingi, jafnframt því sem þeir stjórna ráðuneytum sínum, þá sýnist mér í fljótu bragði að það sé þeirra æruverðuga verkefni að rekast í því, hvort lög séu framkvæmd, ekki síður en þingnefnda. En vitanlega eiga þm. rétt á því að skipaðar séu nefndir til að rannsaka hin ýmsu mál, komi það í ljós að þm. hafi grun um að lögum sé ekki framfylgt sem skyldi.

En til að gera langa sögu stutta vil ég beina þeim orðum mínum til forseta þingsins að þeir vandi nokkuð til ákvarðanatöku um tilvísun mála til nefnda.