24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

16. mál, þingsköp Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Sjálfsagt eru um það skiptar skoðanir meðal þm. hversu mikil afskipti þeir sem einstaklingar eða sem hugsanlegir nm. í einhverri þingnefnd eiga að hafa af framkvæmd framkvæmdavaldsins. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé í raun og veru ekki vansalaust hvernig Alþingi hefur látið framkvæmdavaldið leika lausum hala að eigin frumkvæði, burtséð frá því hvað Alþingi sjálft með lagasetningu og tilgangi lagasetningar hefur ætlað. Og ég held að það sé nauðsynlegt að þm. almennt geri sér grein fyrir því að í raun og veru er ekki nægjanlegt að Alþingi setji bara löggjöf og láti svo lönd og leið hvernig með slíka löggjöf er farið.

Ég bendi t.d. á eitt dæmi, sem ég hef raunar áður gert hér og oftar en einu sinni. Hvað sem líður ákvörðun Alþingis, fjárveitingavaldsins, varðandi fjárlagasetningu fyrir ríkið, þá sé ég ekki betur en framkvæmdavaldið, og þar með ráðherrarnir kannske í broddi fylkingar, sé búið að setja upp önnur fjárlög við hliðina á hinum samþykktu fjárlögum Alþingis með aukafjárveitingum í hitt og þetta. Mér er ljóst að það getur verið nauðsynlegt. Það geta komið upp þau tilvik í þjóðfélaginu að nauðsynlegt sé að greiða fyrir slíku. En þetta er ekki orðin undantekning heldur er þetta að mínu viti orðin regla, ráðherrar hafa í raun og veru frítt spil um að veita aukafjárveitingar við hliðina á samþykktum fjárlögum Alþingis. Ég er þeirrar skoðunar, og ég segi það í framhaldi af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ekkert síður þurfi að veita hæstv. ráðherrum aðhald í þessum efnum en almennum óbreyttum þm., ekki síður. Því að mér sýnist þeir fara æði frjálslega með ákvarðanatöku í þessum efnum oft og einatt og stíga skref til hliðar við raunverulegar ákvarðanir Alþingis. Ég tel því ekki síður ástæðu til að hæstv. ráðherrar viti af því að Alþingi ætlast til þess af þeim sem forsvarsmönnum framkvæmdavaldsins að þeir fari að settum lögum, ákvörðunum Alþingis.

Sumir segja: Það er erfitt að draga línur í þessum efnum. Það má vera. Ég á ekki við að hv. 1. flm. og frsm. ætlist til neins tittlingaskíts í þessum efnum. Hér er verið að tala um hina stærri hluti sem ákvarðanú eru teknar um til hliðar við löggjafarvaldið. Ég hef a.m.k. skilið það svo og ég er því sammála, að full þörf sé á að fylgst sé með því hvernig þessum málum er háttað og hvaða ákvarðanir eru teknar hverju sinni af framkvæmdavaldinu. Það væri hægt að rifja upp, án þess að ég ætli að fara að gera það, ótal dæmi þess að reglugerðir, sem settar eru í kjólfar lagasetningar, reglugerðir settar af ráðherrum ganga þvert á löggjöfina sem Alþingi sjálft hefur sett um viðkomandi mál. Auðvitað er það ótækt af Alþingi að una slíkum ákvörðunum. Og það er auðvitað rétt sem hv. 1. flm. sagði hér áðan, það er eins með hv. alþm. og aðra, að þeir eru lítt til þess fallnir að hafa eftirlit með sjálfum sér. Það gefur auga leið, það á ekki síst við um ráðherrana.

Hv. 1. flm. og frsm. vék að því hér, að hann hefur verið talsmaður þess, að þm. væru almennt litið í hinum ýmsu opinberu störfum. Þá hefur hann fyrst og fremst talað um þau tilvik þar sem útdeilt er fjármunum. Út af fyrir sig viðurkenni ég þá skoðun að vissu marki. En ég sé ekki að það þurfi endilega þar með að vera algert bannorð að þm. komi nálægt slíku, það er mjög fjarri minni hugsun í þeim efnum. Ég held að þm. séu almennt talað ekkert verr til þess fallnir en einstaklingar úr öðrum stéttum þjóðfélagsins. En að sjálfsögðu verða þeir að bera ábyrgð gerða sinna, eins og aðrir eiga að sjálfsögðu að gera, en um það er allt of lítið í okkar þjóðfélagi að einstaklingurinn beri ábyrgð á einu eða neinu. Almennt talað, ekkert sérlega að þingmönnum sneitt, almennt talað er orðið æði mikið um algert ábyrgðarleysi af hálfu einstaklingsins að því er varðar hina ýmsu þætti í þjóðmálastarfinu og lífinu.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði hér áðan sem dæmi: Bankaráðsmaður getur vigtað meira heldur en þm. Það má segja: Kennari getur vigtað meira heldur en þm. Og þá kemur spurningin: Er það eðlilegt — það er að mínu viti óeðlilegt — að einstaklingur, hvort sem er um þm. að ræða eða einhvern annan sem er ráðinn í starf eða kjörinn til starfa hjá ríkisvaldinu, sé í tvöföldu starfi, á tvöföldum launum hjá því opinbera? Mér finnst það óeðlilegt. Eigi að síður viðgengst það, að ég held, í æðimörgum tilvikum. Á það jafnt við um menn í kennarastétt og einhverjum öðrum stéttum í þjóðfélaginu. Tilbrigðin eru ærið mörg um það hvernig þessi mál eru vaxin í okkar þjóðfélagi.

Út af því sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði hér áðan um að ráðherrar, sem eru jafnframt þm., eigi að sjá um að lögum sé framfylgt er þetta út af fyrir sig rétt hugsun. Það eiga þm. að gera líka. En staðreyndirnar í ótalmörgum og allt of mörgum tilvikum eru bara þær, að bæði ráðherrar og áhrifamiklir einstaklingar í þingmannastétt virðast hafa haft þá aðstöðu að geta tekið skref á svig við það sem löggjafinn hefur ætlað. Ótalmörg dæmi, allt of mörg eru um að það hefur verið gert, bæði af ráðh. og óbreyttum þm.

Ég skal ekki, herra forseti, fara miklu lengra út í umr. um þetta mál. Ég vildi samt koma á framfæri þeirri skoðun minni, sem ég hef sett fram hér oftar en einu sinni áður, að ég tel fulla þörf á að Alþingi fari að átta sig á því að það þarf vissulega ótalmargra ástæðna vegna að fylgjast betur með því hvernig framkvæmdavaldið í raun og veru fylgir eftir eða fer með þær ákvarðanir sem teknar eru hér á Alþingi.

Út af því sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði hér áðan um tillögur forseta varðandi vísan mála til nefnda, þá sá ég ekki betur en hv. þm. greiddi atkv. með þeirri till. sem hér var um fjallað. (GHelg: Ég sagði það.) En ég get tekið undir það að vissu leyti að mér finnst oft og tíðum að málum sé efnislega vísað til — það var nú orðað svo — vitlausrar nefndar. Það eru ótal dæmi þess. Auðvitað á það að vera hin almenna regla að það sé efni málsins sem ræður því til hvaða nefndar það fer. En mér sýnist í þessu tilfelli, sem varðar tannlækningar, að það sé nær því að vera réttlætanlegt heldur en margar aðrar ákvarðanir, sem hér hafa verið teknar um vísan mála til nefnda, að slíkt mál fari í heilbr.- og trn. Þetta eru tannviðgerðir tannlækna, lækning. Um þetta má að sjálfsögðu deila. En ég hygg að oft hafi verið gengið meira á svig við að vísa máli efnislega til réttrar nefndar heldur en í þessu tilfelli.