24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

16. mál, þingsköp Alþingis

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér þótti nú vanta í málflutning hv. 4. þm. Reykv. hvernig hann hygðist standa að framkvæmd þeirrar rannsóknar sem hann fór svo mörgum orðum um. Mér þótti í rauninni vanta grundvöllinn undir ræðu hans, hversu mikið þetta nýja kerfi, sem hann ætlar að koma upp, einhvers konar bandalag kerfisins, hversu mikið það muni kosta. Væri satt að segja fróðlegt að fá hugmyndir hans um það. Mér skilst að þessu nýja kerfi sé ætlað að fylgjast með fóstureyðingum, hvað þá heldur meir, eftir grg. frv. að ræða.

Við heyrðum á hv. 4. þm. Suðurl. að hann hugsar sér að þessar nýju rannsóknarnefndir taki ýmis einkafyrirtæki til rannsóknar og fjárreiður þeirra. Þá vaknar nú sá gamli draumur hvort hugsanlegt sé að þingnefndirnar gætu kannske tekið til athugunar jafnframt Alþb., Þjóðviljann og fjárreiður þess. Það hafa ýmsar getgátur verið uppi um að ýmis fjármálaleg tengsl liggi út fyrir landsteinana frá þeim stofnunum. Það er ekki úr vegi að athuga það. A.m.k. held ég að ég muni það rétt að Alþb. hefur ævinlega snúist öndvert við því ef talað hefur verið um að gera fjárreiður stjórnmálaflokkanna opinberar. Að því leyti er þetta innlegg því jákvætt, ef það mætti verða.

Skemmtilegt væri að fá upplýsingar um það hvað hv. 4. þm. Reykv. heldur að þetta kosti. Nú er það svo um hann, sem ekki á við um mig, að hann hefur í senn verið fulltrúi löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Hann var dómsmrh. og menntmrh. á sínum tíma og tók þá byrði á sig án þess að taka varamann inn á Alþingi í staðinn. Ég fæ þess vegna ekki séð að hann sé saklausari en aðrir í þessu efni. Og ef sú mikla hneykslan, sem hann lét í ljós hér áðan, á rétt á sér, þá má hann ekki gleyma því að um stutt skeið ævi sinnar var hann sami kerfiskarlinn og aðrir. Hann var í senn einn af æðstu handhöfum framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins.

Ég vil aðeins minna á þetta til að sýna fram á tvískinnunginn í málflutningi hv. þm. Hann er að reyna að slá keilur hér sí og æ með því að þykjast vera einhver siðferðispostuli, hátt hafinn yfir alla aðra menn. En þegar grannt er skoðað kemur í ljós að hann hefur dottið í sömu gryfjurnar og aðrir.