24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

16. mál, þingsköp Alþingis

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það er orðið ósköp leiðigjarnt að dag eftir dag, fund eftir fund, kemur hv. 4. þm. Reykv. hér upp og ber menn og stofnanir þungum sökum, án þess að þurfa nokkru sinni að færa orðum sínum nokkurn stað eða sönnun. Nú í lok ræðu sinnar talaði hann um hina forspilltu Framkvæmdastofnun. Við getum verið sammála um að það eigi að leggja niður Framkvæmdastofnunina. En ég hef ekki sem þm. og ekki heldur sem borgari orðið var við þessa forspillingu. Ef þar er einhver forspilling, þá á það náttúrlega að heyra undir lög. Og þá ber þm. skylda til að benda á þessa forspillingu. Ekki bara fullyrða að stofnunin og þá kannske einstaklingar innan hennar og framkvæmdastjóri — sem er einn af mínum samþm. sem er fjarstaddur — hann sé forspilltur. Það hef ég ekki orðið var við í samskiptum við hann. (VG: Hefur þú skoðað ársskýrsluna?) Nú vildi ég gjarnan að virðulegur þm. gerði sama og ég þegar hann talar og gripi ekki fram í.

Hv. þm. talar um að lög séu brotin af valdhöfum. Það út af fyrir sig varðar við lög. Þá er bara að koma með það hvaða lög eru brotin. Hvað á hv. þm. við? Hann segir hér að alþm. sitji í bankaráðum og ákveði vextina. Orðrétt skrifaði ég þetta niður vegna þess að ég er bankaráðsmaður sjálfur, kosinn sem trúnaðarmaður Alþingis. Ég er búinn að vera tvö ár sem slíkur í bankaráði Útvegsbanka Íslands, en ég hef aldrei haft neitt með vaxtaákvörðun að gera.

Hv. þm. talar um að menn skammist sín fyrir að sitja í bankaráðum. Af hverju ættu þeir að skammast sín fyrir það? Ég skammast mín ekkert fyrir það að vera trúnaðarmaður Alþingis í bankaráði Útvegsbanka Íslands. Og ef það er eitthvað sem hv. þm. veit um að ég eigi að skammast mín fyrir, eða aðrir bankaráðsmenn kjörnir af Alþingi, ef þeir eiga að skammast sín fyrir bankaráðssetu, þá verð ég beinlínis að óska eftir því við forseta þessarar hv. deildar að hann beiti sér fyrir því að þessi ummæli hv. 4. þm. Reykv. verði könnuð. Og ég ítreka það. Ég óska eftir að þessi hv. þd., sem ég tilheyri og er kjörinn til að sitja í, kanni þessi ummæli hv. 4. þm. Reykv.

Ég verð að taka undir margt af því sem hefur komið hér fram í framsögu fyrir því frv. sem liggur hér fyrir til afgreiðslu og umr. Ég er á margan hátt sammála því. En ég skil ekki hvað hv. þm. á við þegar hann segir að bankaráðsmenn, og aðrir þeir sem hann tíndi til og talaði um, sem væru trúnaðarmenn kjörnir af Alþingi hingað og þangað, þeir missi áhuga fyrir lagasetningu. Menn missi áhuga fyrir því að vera þm. bara vegna þess að þeir verða trúnaðarmenn Alþingis einhvers staðar úti í þessu vonda kerfi, sem hv. þm. hyggst brjóta niður og ber saman á andstyggilegasta hátt við einhverja spennitreyju.

Ég hlustaði á hv. þm. flytja hér útvarps- og sjónvarpsræðu í gær sem var ákaflega vel orðuð og skörulega flutt. En mér fannst hann tala eins og útlagi á flótta frá einhverju valdakerfi, sem setti hann í þvílíka spennitreyju að helst mætti líkja víð þau lönd þar sem byltingarástand ríkir. Furðulegur má sá málflutningur kallast í einu frjálsasta lýðveldi veraldarinnar, að maðurinn skuli finna sig í þessari spennitreyju og koma svo í þennan hv. ræðustól og ætla bara að slá til hægri og vinstri, líklega í von um að hann gangi svo fram af fólki að enginn svari honum, og spilla kannske þannig fyrir ágætum málum sem hann er að tala fyrir.

En til upplýsinga fyrir hv. 4. þm. Reykv., þá hef ég sem bankaráðsmaður aldrei rætt í bankaráði um eitt einasta útlán úr bankanum. Bankaráðsmenn sitja alls ekki og ræða útlán til hinna og þessara fyrirtæk ja og einstaklinga. Það gerist ekki. Hv. þm. talar af algerri vanþekkingu um það sem hann er að fullyrða.

Ég er alveg sammála því ágæta Nóbelsskáldi sem vitnað var til í sjónvarpsumræðum. Hann bað um að umræðurnar yrðu færðar á hærra plan en þá variðkað. Ég reikna með að hinn virðulegi þm. óski þá líka að umr. hér á Alþingi um þetta mál verði færðar á hærra plan. Ég bið hann þess vegna að hjálpa til og gera með því máli sínu gagn eða þessu frv. sem hann talar fyrir, því að hann talar þar sem 1. flm. fyrir sín ágætu fyrrv. flokkssystkin. En í sambandi við þá siðanefnd sem hér á að setja á laggirnar getur vel verið að í nefnd kæmi viðbótartillaga um að hún næði þá yfir framkomu og hegðan og málflutning alþm. líka. Það er ekki vanþörf á því.

Hv. þm. vitnaði í að Alþingi hefði afsalað sér ákvörðunarrétti um vexti í hendur Seðlabanka Íslands. Það er alveg rétt. Samkv. 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands á Seðlabankinn að ákveða vexti fyrir innlánsstofnanir. Og í þessari 13. gr. er vitnað til 10. gr. þar sem taldar eru upp þær stofnanir sem Seðlabanki Íslands á að ákveða vexti fyrir. En það er ekki sagt í þessum lögum að Seðlabanki Íslands eigi að ákveða sína eigin vexti, enda hlýtur það að tilheyra því siðleysi sem hv. þm. er að tala um, að menn eigi ekki — eða stofnanir að ákveða slíkt fyrir sjálfa sig. Ég tek því undir þetta frv. Sem bankaráðsformaður í Útvegsbanka Íslands hefði ég gjarnan viljað áfrýja til slíkrar þingnefndar þeirri ákvörðun að viðskiptabankarnir — jafnvel þó þeir eigi meira inni en yfirdrætti nemur í Seðlabankanum og viðskiptareikning í Samvinnubankanum — þurfi að borga mörgum sinnum hærri vexti og meiri vaxtamun heldur en er á hinum almenna vaxtamarkaði. Ég hefði viljað láta þingnefnd rannsaka réttmæti Seðlabankans til þess að ákveða sína eigin vexti. Og eftir þau ummæli sem hér hafa komið fram um bankaráðsmenn hefði ég beðið slíka nefnd um að kanna minn feril sem fulltrúa Alþingis í bankaráði Útvegsbankans.

Ég legg eindregið til að þessu frv., sem hv. 4. þm. Reykv. er 1. flm. að, verði vel tekið og það kannað hvort þarna er ekki einmitt lausn á ýmsum vanda í þjóðfélaginu. Ég skal svo sannarlega ekki liggja á mínu liði í stuðningi við það. En ég vil biðja hv. 1. flm. um að blanda ekki persónum eða óviðkomandi rökum eða málflutningi inn í þetta annars ágæta frv.