24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

16. mál, þingsköp Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hefur nú orðið eins og oft vill verða, að ýmislegt hefur blandast inn í umr. um þetta mál, sem í raun og veru tilheyrir því ekki sérstaklega, og er að sjálfsögðu ekkert við því að segja. En það eru aðeins örfá orð út af því sem hv. 1. flm. og frsm. kom hér inn á í sinni síðari ræðu.

Ég get út af fyrir sig og að nokkru leyti fallist á þá skoðun hans, að það sé í raun og veru allt of mikið af því að fluttar séu hér þáltill. þar sem — ja, það skiptir ekki máli í mínum huga hvort ríkisstj. er falið að semja lagafrv. um þetta eða hitt eða einhverjum öðrum í þjóðfélaginu. Hv. þm. rökstuddi þetta með því að Alþingi væri orðið það slappt eða þm. almennt að þeir fælu einhverjum öðrum þessa meðferð mála, semdu ekki frv. sjálfir. Nú finnst mér þetta koma úr hörðustu átt, ég verð að segja eins og er, því að fyrsta mál þessa hv. þm., sem nú hefur sagt skilið við varðhundavaldið, eins og hann orðaði það oft hér í gær, fyrsta málið sem hann flytur sem væntanlegur þm. — segir hér í grg. — Bandalags jafnaðarmanna er í þáltill.-formi. Og um hvað? Um að fela stjórnarskrárnefndinni, sem hann úthúðaði hvað mest hér í gær í umr. sem afskaplega lélegum þjónustuaðila í því starfi sem hún átti að sinna, fela henni að semja frv. um þetta. Þáltill.,1. mál væntanlegs þm. Bandalags jafnaðarmanna er í þessum dúr. Ég ítreka það hér með að ég tek tillit til þess sem hv. skrifari sagði, hv. væntanlegs þm. Bandalags jafnaðarmanna.

Þetta er kannske útúrdúr, en mér finnst þetta ekki alls kostar í þeim dúr sem þessi hv. þm. hefur talað áður. Mér finnst gæta hér ósamræmis í málflutningi. Kannske virðir þetta mér einhver til vorkunnar. Þá er að taka því. En þetta er ekki að mér finnst í samhengi við það sem hv. þm. er annars að aðhafast frá degi til dags. Þetta skipti engu meginmáli. Eins og ég sagði áðan get ég að nokkru leyti fallist á að það er allt of mikið gert að því hjá hv. þm. að fela öðrum í raun og veru það ákvörðunarvald sem þeir eiga að hafa sjálfir í sínum höndum. Það væri nær að gera gangskör að því að ná aftur til Alþingis því valdi sem það hefur afsalað sér til ýmissa aðila, því að auðvitað á Alþingi að hafa það vald og þá að sjálfsögðu að bera ábyrgð og standa skil gerða sinna, hvernig það fer með slíkt vald.