24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

16. mál, þingsköp Alþingis

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það vill oft verða svo, þegar mönnum er mikið niðri fyrir, að menn ræða langt út fyrir efnisþætti frv. sem á að ræða. Svo hefur farið nú.

Raunverulega stendur hér í fyrstu setningunni hvað átti að ræða um: „Þingnefndir skulu fylgjast með framkvæmd laga.“ Í því efni átti að auka nokkuð rétt þingnefnda og e.t.v. í leiðinni, sem fram kom í framsögu, móguleika þm. til að afla sér upplýsinga um hitt og þetta sem er að ske í þjóðfélaginu.

Mig rekur minni til þess, að æ ofan í æ fengum við á borð þm. ríkisreikning og síðan fjáraukalög. Umræða um þessa þætti löggjafans og fjárveitingavaldsins var mjög lítil. Þegar ég átti sæti í nokkur ár í fjárveitinganefnd reyndist oft mjög erfitt að fá nokkrar rökstuddar upplýsingar um hvers vegna ríkisreikningar fóru langt fram úr fjárlögum. Efni þessa frv. er einmitt sígilt dæmi um aðferð til að gefa þingnefndum og alþm. möguleika og sanngjarnan rétt til að krefjast fullrar og eðlilegrar skýringar á þessu. Hér birtist ár eftir ár þáttur sem heitir Samþykkt að fjáraukalögum fyrir gífurlegum upphæðum.

Við sem höfum verið í fjárveitinganefnd vitum það að við hófum ekki getað sinnt bráðnauðsynlegum málum, smámálum fyrir heilbrigða og góða starfsemi í þjóðfélaginu. En svo sjáum við eftir eitt eða tvö ár milljóna króna umframeyðslu sem enginn fær heilbrigða skýringu á. Þetta gengur ekki.

Efni þessa frv. átti að veita aukið aðhald í þjóðfélaginu fyrst og fremst. Það vantar viða aga. Og það er kannske númer eitt að agi sé bæði hér á hv. þm. ýmsum og einnig úti í þjóðfélaginu á þeim mönnum sem er falið það mikla vald að sjá um framkvæmd laga og ráðstöfun fjármuna, sem hörð barátta á sér stað um hér á Alþingi að tryggja. Við vitum að í verðþensluþjóðfélaginu er þetta mikið vandamál og það er eðlilegt að við höfum nokkurt aðhald. Ég skildi þetta frv. þannig að það ætti að auka möguleika á slíku aðhaldi, en ekki fara óralangt út fyrir það í vangaveltum, í heimspekilegum hugleiðingum. Til þess eru almennar útvarpsumræður eða pólitískar umræður hér á Alþingi.

Það er sjálfsagt nauðsynlegur agi að gefa bæði þm. og þingnefndum möguleika á því að tryggja sér aukið upplýsingastreymi og einnig, sem fram hefur komið, að eiga kost á ráðgjöf um samningu frv. Það er auðvitað barnaskapur að halda því fram að allir geti samið gallalaust frv. þó menn hafi valist hér inn á Alþingi. Það er alveg vonlaust. Efnislega get ég því stutt þetta frv. eins og það liggur fyrir, a.m.k. að mesti leyti. Óþarfi er að blanda hér ótal öðrum þáttum inn í þessar umr.