24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

16. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil aðeins nú í lok þessarar umr., sem mér finnst ekki að hafi farið út og suður, heldur hafi verið efnisleg vegna þess að þetta er víðfeðmt mál, taka undir það með síðasta ræðumanni, hv. 9. þm. Reykv., að efnislega tengist þetta mál auðvitað mjög þáltill. sem hér hefur verið flutt um gerð frv. til stjórnarskipunarlaga um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, og það tengist því, sem fleiri hv. þm. hafa sagt, þar á meðal hv. þm. Guðrún Helgadóttir, að málið er sennilega of stórt í vöfum til þess að dugi að flytja það sem viðbót við 19. gr. þingskapalaga, eins og hér er gert.

En ég vil aðeins nefna, að í þeirri þáltill. er komið inn á nákvæmlega þetta. Það segir í staflið 3, með leyfi herra forseta:

„Löggjafarþing verði kosið til fjögurra ára, á ári þegar kosning forsrh. fer ekki fram. Kjördæmaskipan og kosningalög verði að öllu leyti óbreytt, nema hvað kosningaaldur verði lækkaður í 18 ár. Alþingi starfi í einni málstofu. Alþingi fari með fjárveitingarvald, löggjafarvald og strangt eftirlitsvald með framkvæmd löggjafar, en þm. verði óheimilt að sinna framkvæmdavaldsstörfum. Verði þm. ráðh. taki varamaður sæti hans á Alþingi“.

Þetta er aðeins sagt til undirstrikunar því, að í 3. staflið þessarar þáltill. er öll sú hugsun sem ég heyri ekki betur en menn séu sammála í grófum dráttum, þó þeir geri einhverjar hjákátlegar persónulegar athugasemdir, sumir a.m.k. Við erum að tala hér um raunverulegt vandamál og mér sýnist að hvort sem menn hafa áður skilgreint sig til hægri eða vinstri, svo ég noti þessi delluorð á hinu pólitíska sviði, séu menn í grundvallaratriðum sammála um þetta. Ég vil segja, og það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að í 3. staflið er þessi grundvallarhugsun niðurnjörvuð, og ég vil bæta við, og taka undir með hv. síðasta ræðumanni raunar, að þetta er lykill að vanda okkar undanfarin ár. Það er ekki, og það má ekki örla á slíkum misskilningi, verið að gera lítið úr persónum einstakra hv. þm. Eflaust hafa menn, og þar með talinn sá sem hér stendur, gert sig of seka um slíkt.

Kjarni málsins er sá, að þetta eru einfaldlega meiri freistingar en hægt er að standast, en í mannlegu valdi stendur að standast. Ég tala nú ekki um þegar jafneinföld leið til eignatilfærslu og mikil verðþensla er er til staðar. Þá hefur það hent hvern þm. á fætur öðrum að undir því hefur ekki verið risið í raun. Af þessum ástæðum erum við hér ekki aðeins að leggja til þá grundvallarhugsun sem fram kemur á þessu þskj. og hér hefur verið mælt fyrir í dag og hv. alþm. hafa með almennum orðum lýst sig samþykka, heldur er hér verið að leggja til grundvallaruppskurð á stjórnkerfinu sjálfu.

Það eru margar ástæður fyrir því að þetta, sem ég stundum kalla siðleysi af því mér finnst það siðleysi og það er siðleysi, er rekið í nafni einhvers annars, sem sé í nafni byggðastefnu. Byggðastefna á fullan rétt á sér stundum. En þetta er engin byggðastefna. Það eru auðvitað atvinnurekendur á öllum landshornum. Það eru launþegar og atvinnurekendur og árekstrar þar á milli hvort sem það heitir Langanes eða Reykjavík. Menn kalla þetta byggðastefnu af því það er fínna. Þetta er ekki byggðastefna. Hér á sér stað eignatilfærsla, hvað sem menn kalla það.

Þetta stjórnkerfi gengur ekki upp. Í þessu landi eru að hluta til tvær þjóðir. Það má auðvitað ekki gera of mikið úr þeirri skiptingu, en það má ekki heldur líta framhjá henni. Hún er staðreynd. Þessi staðreynd hefur verið notuð til botnlausrar eignatilfærslu. Auðvitað er það ekkert nema venjuleg eignatilfærsla, sem mestan part er í þágu manna sem standa í atvinnurekstri og ráða ekki við hann. Þeir hafa sína sendla. Það er ekki sagt í neinu óvirðingarskyni. Þeir sitja margir hverjir hér. Framkvæmdastofnun er sendisveinn slíkra undirmálsatvinnurekenda. Það er kjarni málsins. Ég efast ekki um að menn sem sitji þar ganga þar inn í góðri og guðlegri meiningu. En freistingarnar eru of miklar til að standast þær. Ég er ekki að bera neitt á borð annað en það sem er borðleggjandi.

Annars staðar erlendis mundi þetta eflaust ganga öðruvísi fyrir sig og með öllu rosalegri hætti. Það hefur enginn borið neinum slíkt á brýn hér, það er ekki um það að ræða. Það er aðeins verið að segja að hinar pólitísku freistingar eru miklar. Ég hugsa að t.d. hafi hv. þm. Eggert Haukdal í öllum sínum „skemmtiferðum“, sem hann hefur auðvitað verið í, ætlast til að fá einhver atkvæði út á það í staðinn. Er það ekki bara mannlegt? En ég segi fyrir mig: Það er þessi pólitík sem ég hef alveg botnlausa skömm á. Hún er orðin þjóðfélaginu allt of dýr. Ekki hvarflar það að mér að hv. þm. sé illmenni eða að hann sé að byggja eitthvað og annars staðar en á að gera. En þetta er of dýrt.

Framkvæmdastofnun er nákvæmlega svona. Svo geta menn kallað þetta byggðastefnu eða eitthvað. Svo koma þeir hérna og segja að ég sé á móti byggðastefnu, ég sé á móti verkalýðshreyfingu og ég veit ekki hverju ég er ekki á móti. En ég hef samt rétt fyrir mér. Þetta veit fólk betur og betur. Það er kjarni málsins. Og öll þessi þáltill., sem hv. síðasti ræðumaður gat um og gat réttilega um, gengur út á þá hugsun að þetta kerfi gengur ekki lengur upp.

Hv. þm. Albert Guðmundsson hélt hér ræðu þar sem hann sagði fjórum sinnum: ég er og ég get. Allt í lagi með það, en ekki hvarflar að mér að það sé neitt óeðlilegt við störf hans í bankaráði Útvegsbankans. Það hvarflar ekki að mér eitt augnablik, en það hvarflar að mér að hann hyggist fá eitthvað af atkv. fyrir störf sín þar, að hann meti vinsældir sínar. (AG: Sem ég óska eftir að verði tekið til greina.) Mér er óskiljanlegt af hverju menn eru svona viðkvæmir fyrir þessu. Þetta er það sem allir vita. Mér er ljóst að auðvitað situr þingið allt meira og minna lamað er það hlustar á þennan sannleika.

Menn sem eru í pólitík eru auðvitað að afla sér fylgis, — ég er að reyna að afla mér fylgis með þeirri ræðu sem ég flyt, við erum öll að því, — en það er ekki sama hvernig farið er að því. Það er þetta sem skiptir máli.

Vitaskuld er Framkvæmdastofnun ríkisins, forstjórastóll þar, metin til margra atkv. Annars væru menn ekki að þessu. Það er þetta sem gengur ekki upp. Það er þessi djúpt sokkna ríkisforspilling, sem Sjálfstfl. er í broddi fylkingar fyrir, sem er að ganga af efnahagskerfi og stjórnkerfi þessa lands dauðu. (Gripið fram í: Þú ert fyrsti kratinn sem talar gegn þessu.) Gegn hverju, hv. þm. (Gripið fram í: Þessu ríkisafskiptakerfi.) Því miður á minn gamli flokkur flekkótta sögu í þeim efnum. (Gripið fram í.) Já, já, á það skal allt fallist, en það hefur margt gott verið gert og vel sagt þar engu að síður.

En þetta er kjarni málsins. Þess vegna er þetta frv. flutt og þess vegna hefur væntanlegt Bandalag jafnaðarmanna lagt til svo róttækar breytingar. Öll þessi hugsun er þar saman komin fyrir utan að verið er að leggja til lausn á kjördæmamáli, sem er í raun leið til sátta milli dreifbýlis og þéttbýlis, sem er meira en gömlu flokkarnir gátu fundið meðan þeir voru og hétu. Það er þetta sem skiptir máli, en auðvitað koma menn hér upp og belgja sig upp og segja: Ég er þetta og ég er hitt og ég er ekki spilltur og slíkt.— Það er samt enginn að bera þeim slíkt á brýn. Það er misskilningur. (Gripið fram í.) Ég veit ekki af hverju hv. þm. líður svona bölvanlega. Það er enginn að bera honum slíkt á brýn. Það er verið að segja það eitt að þetta eru störf sem fara ekki saman. Það fer ekki saman að vera vinsæll bankaráðsmaður og vinsæll pólitíkus. Það fer ekki saman að vera „kommissar“ og á atkvæðaveiðum. Það fer ekki saman að ákveða hvort A eða B fær að stjórna umræðuþætti í sjónvarpi á sama tíma og menn afla sér atkvæða. Það er þetta sem gengur ekki upp. Það er þessi lykilhugsun sem er gangandi í gegnum allan okkar málflutning. Svo getum við horft yfir stjórnkerfið allt, yfir sjónarspilið allt. Ég þykist finna að fólk er sammála þessari grundvallarhugsun og mér til mikillar ánægju, ég neita því ekki.

Svo sitja menn hér og skilja ekkert í þessu litla áliti fólks á Alþingi, en herrar mínir þetta er ástæðan. Það er nákvæmlega þetta sem er ástæðan. Vitaskuld er gaman að geta gert manni greiða, ekki neita ég því, auðvitað er það gaman, en kjörfylgi og greiðar af því tagi sem lýst hefur verið fara ekki saman. Það bitnar á þjóðfélaginu öllu. Ég nefndi hér nákvæmt dæmi áðan, annars vegar almenna stefnu í vaxtamálum og hins vegar hvernig menn spila úr spilunum samkv. þeirri vaxtastefnu. Það er sú grundvallarhugsun sem gengur ekki upp.

Það frv. sem mælt hefur verið fyrir hér í dag er aðeins litill angi af hinu stóra máli sem þáltill. fjallar um. Hugsið ykkur framtíðarþingið, þegar við sitjum hér og erum að gera tvennt í grundvallaratriðum, — setja almennar leikreglur og hafa eftirlit með lögum og framkvæmdavaldi. Það þjóðfélag verður allt öðruvísi. Það þjóðfélag verður þannig, að fólk kemur áhugamálum sínum á framfæri við þjóðþing. Það þjóðfélag verður þannig, að þjóðin mun bera miklu meiri virðingu fyrir þessari stofnun en hún hefur réttmæta ástæðu til að gera í dag. Það er ekki lítill kjarni þessa máls.

Herra forseti. Efni þessa frv., sem mælt hefur verið fyrir, er saman dregið í síðari hluta 3. mgr. nefndrar þáltill. Það var hárrétt athugasemd. Ég verð að bæta um betur efnislega hvað það varðar.