25.11.1982
Sameinað þing: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

44. mál, endurreisn Reykholtsstaðar

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. 11. nóvember s.l. hafði ég framsögu fyrir þessari þáltill. um endurreisn og uppbyggingu Reykholtsstaðar í Borgarfirði. Ég vil taka það fram, eins og hæstv. dómsmrh. réttilega sagði, að þessi till. er flutt af öllum þm. Vesturlands. Það sem býr að baki því að okkur þótti rétt að flytja þessa þáltill. er þrýstingur úr héraði, sem er mikill, á að gera átak til að endurreisa og endurbyggja þennan sögufræga stað. Eins og ég tók fram þá er Reykholt í huga fólks, jafnt Íslendinga sem annarra þjóða manna, helgur staður vegna þeirra andans stórvirkja sem þar voru unnin á sínum tíma.

Héraðsskólinn í Reykholti hefur starfað í rúm 50 ár. Hann hefur notið álits og trausts og verið sóttur af nemendum víðs vegar af landinu og hefur jafnan verið fullsetinn og oftast orðið að vísa frá fjölda umsækjenda. Svo er einnig nú.

Það þarf ekki að taka það fram að saga Reykholts í fortíð og samtíð krefst þess að uppbygging og svipur staðarins í framtíðinni verði sú héraðsprýði sem einum sögufrægasta stað á Norðurlöndum ber. Það á að vera metnaðarmál okkar Íslendinga.

Um margra ára skeið hafa mannvirki í Reykholti verið í niðurníðslu vegna skorts á fjármagni til viðhalds til vansæmdar héraði og raunar landinu öllu. Þetta er meginástæða þess að við viljum leggja til og styðja heimamenn og alla aðila sem um þetta fjalla að fjármagn verði veitt til að endurbyggja staðinn og gera Reykholt að glæsilegu menningar- og menntasetri þjóðarinnar. Það eitt mundi örugglega auka hróður Íslands meðal annarra þjóða. Slík er frægð þessa staðar. Við viljum að hér verði stefnubreyting. Þetta er búið að vera í undirbúningi um langt árabil og við viljum framkvæmdir í stað kyrrstöðu.

Eitt brýnasta verkefni er að ljúka uppbyggingu skólahúsnæðis í Reykholti. Þar er forgangsverkefni að koma upp svokallaðri A-álmu þar sem á að vera mötuneyti svo og félagsaðstaða skólans. Þess konar aðstaða er algerlega ófullnægjandi nú og stendur raunar öllu skólastarfi fyrir þrifum. Því til viðbótar, sem er mikilvægt, mundi bygging A-álmu stórbæta ferðamannaþjónustu yfir sumarmánuðina, sem er nánast ekki bjóðandi erlendu fólki og raunar innlendu líka við þær aðstæður sem núna eru. Þetta eru grundvallaratriði sem við viljum leggja áherslu á.

Ég vil minna á það hér aftur, sem ég gerði raunar í framsögu fyrir þessu máli, að á 50 ára afmælishátíð héraðsskólans á s.l. hausti var saman komið mikið fjölmenni í Reykholti, gamlir nemendur héraðsskólans og héraðsbúar, velunnarar skólans og ýmsir forustumenn þjóðarinnar. Þar gáfu hæstv. menntmrh. og hæstv. dómsog kirkjumálaráðh. góð fyrirheit um að hafist yrði handa um uppbyggingu og endurreisn staðarins. Ég vona í framhaldi af orðum hæstv. dómsmrh. að það verði reynt að gera allt sem hægt er til að koma þessu máli á góðan rekspöl.

Það má segja að við þm. Vesturlands höfum með máli þessu viljað fylgja fram óskum héraðsbúa í þessum efnum, sem menn geta séð sem fskj. með þáltill., því við teljum nauðsynlegt að fá viljayfirlýsingu Alþingis um að það sé samstaða um að vinna að þessu verkefni, — og ekki síst nú þegar vonandi er fram undan afgreiðsla á fjárlögum. Þar þurfum við að fá stuðning við að verulegu fjármagni verði veitt til að hefja svokallaða A-byggingu, sem er nærtækasta verkefni og það sem þarf að vinna að fyrst.

Auðvitað kemur inn í þetta mál, eins og hæstv. dómsmrh. nefndi hér réttilega, að taka þarf ákvörðun um skipulag staðarins, forráð staðarins og margt annað sem inn í málið kemur. En ég vonast til að þessi þáltill. okkar þm. Vesturlands fái greiðan framgang á Alþingi.