29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

22. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Páll Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af frv. sem hér liggur fyrir.

Ég vil undirstrika að það er sjálfsagt að reyna að stuðla að því sem best má verða að sem best samskipti séu á milli íbúa í dreifbýli og í þéttbýli og ég sé ekkert á móti því að þéttbýlisbúar fái aðstöðu til tómstundadvalar úti á landsbyggðinni, en mér fannst í framsögu hv. 1. flm. kenna dálítillar einsýni. Hann dró ekki fram hlut þeirra sveitarfélaga sem þarna eru að skattleggja.

Ég er alveg á því að ekki megi skattleggja sumarbústaðalönd og mannvirki þar með neinu óhófi, enda tel ég að tæplega sé hægt að segja að það hafi verið gert. Mörg þessi sveitarfélög þurfa á tekjum að halda vegna þess að það land sem fer undir sumarbústaði og það starf sem hér um ræðir verður ekki notað til tekjuöflunar í þágu sveitarfélagsins á hefðbundinn hátt. Þá sé ég ekkert í veginum fyrir því að sveitarfélögin fái að eiga þarna tekjustofn í staðinn fyrir þann tekjustofn sem glatast þegar landið er ekki lengur notað til búskapar og ekki skattlagt á hefðbundinn hátt. Þetta verður að sjálfsögðu að gerast með hófi og þetta má ekki gera skipulagslaust.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa um þetta sem best samstarf allra aðila og samkomulag. Margir sumarbústaðir og mörg sumarbústaðahverfi eru mjög til fyrirmyndar, en sums staðar hafa orðið átakanleg slys. Það hafa verið reistir sumarbústaðir þar sem ekki hefur verið skynsamlegt að setja þá og þeir eru þar illa komnir. Mig minnir að á síðasta þingi eða næsta þar áður hafi verið sett á stofn nefnd einmitt til að vinna að þessum málum. Ég man ekki betur en að við kysum ágæta menn á þinginu í fyrravor í það starf. Ég held að starf þeirrar nefndar þyrftum við að efla.

Ég vil mótmæla því að sveitarfélögin séu að blóðmjólka sumarbústaðaeigendur. Ég hvet til góðs samstarfs, en ég er ekki alveg viss um að þarna sé verið að fara fram á rétta prósentu og treysti því að hv. nefnd, sem málið fær til umfjöllunar, geri þá á því lagfæringar og afgreiði það a.m.k. ekki nema að vel athuguðu máli. Fleira var það ekki, herra forseti.