29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

19. mál, verðlag

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 19 hef ég leyft mér ásamt Sighvati Björgvinssyni, Karvel Pálmasyni, Magnúsi H. Magnússyni, Árna Gunnarssyni, Jóni Baldvin Hannibalssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni að flytja frv. til l. um breyt. á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Frvgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aftan við 13. gr. komi nýjar mgr., svohljóðandi: Verðlagsstofnun skal mánaðarlega gefa út verðkynningarrit þar sem fram kemur verð og verðlagsbreytingar á öllum helstu þáttum vöru og þjónustu sem Verðlagsstofnun fjallar um eða fær til staðfestingar. Ef um er að ræða verðlagsbreytingar á vöru og þjónustu umfram almenna verðlagsþróun skal gefa á því sérstakar skýringar.

Auk þess skal í verðkynningarritinu fjallað um breytingu á hinu opinbera verðmyndunarkerfi. Fyrirkomulag dreifingar skal ákveðið af Verðlagsstofnun, en skal þó þannig háttað að tryggt sé eins og kostur er að það nái til sem flestra neytenda.

Á fjárlögum ár hvert skal Verðlagsstofnun standa undir útgáfukostnaðinum.“

Eins og allir vita er því almennt haldið fram, að í skjóli myntbreytingarinnar hafi átt sér stað óeðlilegar verðlagshækkanir og verðlag á mörgum vörum hafi hækkað langt umfram almenna verðlagsþróun. Víst er um það, að hver getur dæmt það af eigin buddu að sífellt virðist stærri skerfur launanna fara í kaup á matvörum og brýnustu nauðsynjum. Með fullgildum rökum er þó varla hægt að halda fram að almennt sé um óeðlilegar verðlagshækkanir að ræða nema fram fari ítarleg könnun á allri verðlagsþróun frá myntbreytingunni, sem raunverulega sýni fram á slíki. Reyna þyrfti t.d. áhrif erlendra kostnaðarhækkana, þar sem um það er að ræða, og einnig hvort á því séu eðlilegar skýringar ef ýmsar vörutegundir fara fram úr almennri verðlagsþróun.

Þótt úrtakskannanir hafi verið gerðar á vegum Verðlagsstofnunar til að kanna áhrif myntbreytingarinnar á vöruverð, þá er það mín skoðun að hvergi hafi verið nægjanlega að því staðið af hálfu stjórnvalda að halda uppi nauðsynlegu aðhaldi og eftirliti sem tvímælalaust var nauðsynlegt í kjölfar myntbreytingarinnar. Hefðu t.d. kannanir Verðlagsstofnunar strax í upphafi þurft að verða ítarlegri og yfirgripsmeiri, auk þess sem fylgja hefði þurft skipuleg verðkynning á þeirri þróun sem varð á verði vöru og þjónustu í kjölfar myntbreytingarinnar þannig að hægt hefði verið að efla verðskyn neytenda og halda uppi nauðsynlegu eftirliti.

Miðað við þá almennu skoðun, sem uppi er í þjóðfélaginu, að óeðlilegar verðlagshækkanir hafi átt sér stað frá myntbreytingunni, þá gæti verið æskilegt og gagnlegt að gerð væri ítarleg könnun og úttekt á allri verðlagsþróun vöru og þjónustu frá myntbreytingunni, en á það ber að líta að þar sem tvö ár eru liðin frá myntbreytingunni yrði slík könnun mjög tímafrek, viðamikil og kostnaðarsöm og greinilega ýmsum annmörkum háð þar sem svo langt er um liðið.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að leitað sé nýrra leiða til að halda uppi virkara aðhaldi og eftirliti með allri verðlagsþróun vöru og þjónustu, sem jafnframt gæti eflt verðskyn neytenda og þekkingu á vöruverði og þróun þess.

Það er almenn skoðun að bæði myntbreytingin og óðaverðbólgan hafi ruglað mjög verðskyn neytenda. Það þarf ekki að undrast slíkt því að þær öru verðlagsbreytingar, sem sífellt eru að eiga sér stað, gera það að verkum að neytendur almennt festa sér ekki einu sinni í minni á hvaða tug verðlag á brýnustu nauðsynjum stendur þó um sé að ræða vörur sem notaðar eru frá degi til dags. Fólk stendur varnarlaust frammi fyrir þessu og þeim tíðu hækkunum, sem verða á vöru og þjónustu, því að því er ekki búin aðstaða til að fylgjast með þeim hækkunum sem verða.

Flestir eru sammála um að nauðsynlegur þáttur í aðhaldi og eftirliti með allri verðlagsþróun sé virki neytendaeftirlit, en það er ekki nóg að tala um virkt neytendaeftirlit þegar neytendum er ekki búin aðstaða til að fylgjast með þeim öru verðbreytingum sem eiga sér stað svo að þeir geti gert sérgrein fyrir réttmæti þeirra verðlagsbreytinga sem sífellt dynja yfir. Það frv., sem ég mæli hér fyrir, miðar einmitt að því að gera neytendum að einhverju leyti kleift að halda uppi slíku eftirliti því að við núverandi aðstæður er það gersamlega útilokað. Ég tel að ef sú leið væri farin, sem í þessu frv. felst, opnuðust möguleikar til að efla verðskyn neytenda og koma á nokkuð virku neytendaeftirliti.

Eins og fram kemur í grg. er nauðsynlegt að með slíku verðkynningarriti komi fram upplýsingar um verð og verðlagsbreytingar sem eiga sér stað frá mánuði til mánaðar á helstu nauðsynjavörum og allri algengri þjónustu. Nefna má upplýsingar um leyft hámarksverð þar sem um það er að ræða, heimildir til hlutfallslegrar verðhækkunar, ákvæði um álagningu ýmissa vöruflokka, auk upplýsinga um gjaldskrár og verðtaxta sem sett er af einstökum stéttum og þjónustuaðilum. Einnig væri brýnt að í slíku riti kæmu fram skýringar ef um verðlagsbreytingar er að ræða umfram almenna verðlagsþróun þannig að neytendur geti áttað sig á orsök þess ef um óvenjumiklar verðlagsbreytingar er að ræða. Einnig er lagt til í frvgr. að fjallað sé um allar breytingar á hinu opinbera verðmyndunarkerfi, sem ég tel mjög mikilvægt. Þannig kæmu fram í verðkynningarritinu upplýsingar um vörur sem felldar hafa verið undan verðlagsákvæðum. Því yrði síðan fylgt eftir í verðkynningarritinu hvernig slík breyting gefst auk þess sem neytendur sjálfir geta betur glöggvað sig á hver þróun vöruverðs verður ef vörur eru felldar undan verðlagsákvæðum.

Í grg. er einnig gerð nokkur grein fyrir hvað gert hefur verið af hálfu Verðlagsstofnunar til að efla verðskyn neytenda, en nokkur tölublöð hafa verið gefin út af Verðlagsstofnun af riti sem kallað hefur verið „Verðkynning frá Verðlagsstofnun.“ Einnig hefur verið hleypt af stokkunum nýrri könnun, sem nýlega er hafin, en það er aðeins tímabundin könnun sem standa á fram að jólum, og auk þess er sú könnun, sem nú hefur verið hrundið af stað, ekki nærri eins ítarleg og hér er lagt til og einnig er nauðsynlegt að slík könnun eða slíkt verðkynningarrit sé reglulega í gangi.

Það er erfitt að gera sér grein fyrir þeim kostnaði sem af þessu verðkynningarriti mundi leiða, en líklega verður að telja að hann geti skilað sér aftur ef slíkt mundi efla verðskyn neytenda og stuðla að virkara aðhaldi og eftirliti með allri verðlagsþróun.

Með frv. er kveðið á um að fyrirkomulag dreifingar skuli ákveðið af Verðlagsstofnun, en skuli þó þannig háttað að tryggt sé eins og kostur er að það nái til sem flestra neytenda. Rétt þykir að hafa þann háttinn á, en binda það ekki í löggjöf nákvæmlega hvernig dreifingu skuli háttað. Má hugsa sér á því margs konar fyrirkomulag. Best færi að dreifing gæti verið gegnum póstþjónustu og yrði kynningin borin reglulega á hvert heimili í landinu. Einnig mætti hugsa sér það fyrirkomulag, að verðkynningarrit lægi frammi í öllum matvöruverslunum, hjá ýmsum þjónustuaðilum, svo sem biðstofum lækna, hárgreiðslustofum og fleiri slíkum sambærilegum stöðum. Einnig er ein leiðin sú, að Verðlagsstofnun dreifi slíku riti á vinnustöðum og hefði um það samráð við samtök launafólks, t.d. á þann hátt að dreifing ætti sér stað gegnum trúnaðarmannakerfið á hinum ýmsu vinnustöðum. Sú hugmynd var einmitt uppi hjá Verðlagsstofnun varðandi það rit sem ég áður lýsti og Verðlagsstofnun hefur gefið út, en hefur þó ekki komist til framkvæmda.

Herra forseti. Að lokum má nefna það, að ef það sýnir sig að þessi tilraun, sem hér er lagt til að gerð verði, skili ekki tilætluðum árangri, þá er hægur vandi að endurmeta þetta ákvæði verðlagslöggjafarinnar og leita nýrra leiða að því markmiði að efla verðskyn neytenda og halda uppi virku aðhaldi og eftirliti með allri verðlagsþróun.

Ég vil að lokum gera það að tillögu minni, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.