29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

52. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er auk mín flutt af hv. þm. Karvel pálmasyni, Sighvati Björgvinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Höfuðtilgangur frv. er að greiða úr ríkissjóði þann hluta persónuafsláttar við álagningu tekjuskatts sem ekki nýtist til lækkunar álagðra gjalda viðkomandi gjaldanda, en sá háttur er nú hafður á um barnabætur. Þetta fyrirkomulag mundi bæta hag hinna verst settu, þeirra sem lægst hafa launin, bótaþega almannatrygginga og annarra sem af einhverjum ástæðum hafa mjög bág kjör.

Hér er um neikvæðan tekjuskatt að ræða til hagsbóta hinna verst settu og lið í þeirri afkomutryggingu sem Alþfl. beitir sér fyrir og um leið þátt í tillögugerð flokksins um mótun nýrrar efnahagsstefnu.

Á tímum sem þessum, þegar hver kjaraskerðingin rekur aðra, er nauðsynlegt að verja þá verst settu fyrir frekari kjaraskerðingum og er frv. liður í þeirri viðleitni. Fleira kemur til. Þrátt fyrir góðan vilja heildarsamtaka launafólks heldur launabilið í þjóðfélaginu áfram að breikka. Hinir tekjuhærri hafa yfirleitt mun betri aðstöðu en láglaunafólk til að knýja fram hækkanir í ýmsum myndum umfram þær almennu hækkanir sem um semst í heildarkjarasamningum. Það er skoðun flm. þessa frv., að löggjafinn verði að beita sér meira en hingað til hefur verið gert til að rétta hlut þeirra sem bera hann skarðastan frá borði við gerð kjarasamninga og við ákvörðun tryggingabóta. Frv. er liður í þeirri viðleitni.

Því er svo enn við að bæta, að lagfæringar á skattalögum skattþegnum í vil koma yfirleitt ekki þeim verst settu að gagni nema að sá hluti persónuafsláttar sem ekki nýtist til lækkunar gjalds viðkomandi verði greiddur út. Á síðasta þingi voru a.m.k. tvö lagafrv. flutt um að bæta mismun upphitunarkostnaðar íbúðarhúsa hér á landi í gegnum skattakerfið, gera upphitunarkostnaðinn frádráttarbæran. Í báðum tilvikum voru höfuðröksemdirnar gegn frv. þær, að þau næðu ekki til skattleysingjanna, ekki til þeirra sem enga skatta greiddu og þá um leið ekki til þeirra sem helst þyrftu bótanna við. Þetta er rétt. Þessu frv. er ætlað að opna möguleika á því að nota skattakerfið til raunhæfra láglaunabóta.

Eins og áður segir nær frv. aðeins til þeirra allra tekjulægstu og þeirra sem verst hafa kjörin. Þannig fær einstaklingur ekki endurgreiðslur fyrr en árslaunin eru komin niður undir 62 þús. og ekki fullar endurgreiðslur, 8680 kr., nema launin fari niður í 39 þús. á ári. Hjá einstaklingi í námi eru mörkin þannig, að greiðslur byrja við 79 þús. kr. árstekjur og verða fullar við 55 þús. kr. árstekjur. Hjá einstæðu foreldri með tvö börn byrja greiðslurnar við 73 þús. kr. árstekjur og verða fullar við 50 þús. kr. árstekjur. Hjá barnlausum hjónum byrja greiðslur við 105 þús. kr. árstekjur og verða fullar eða 17 þús. 350 kr., ef árstekjur fara niður í 60 þús. kr. Hjá hjónum þar sem annað fær elli- eða örorkustyrk eru mörkin þannig, að greiðslur byrja við 120 þús. kr. árstekjur og verða fullar 17 360 kr. við 72 þús kr. árstekjur og þar fyrir neðan. Ef um er að ræða hjón, sem bæði eru elli- og örorkulífeyrisþegar og njóta tekjutryggingar, byrja greiðslur við 136 þús. kr. árstekjur og verða fullar við 81 þús. kr. árstekjur.

Ég skal vera fyrsti maður til að viðurkenna að þessar endurgreiðslur þyrftu í mörgum tilvikum að vera hærri. Aðalatriðið er að fá viðurkenningu á því að ónýttur persónuafsláttur skuli greiðast út. Þá og þá fyrst er hægt að nota skattakerfið til greiðslu láglaunabóta og til launajöfnunar fyrir þá tekjulægstu.

Þær upphæðir sem um getur í 1. gr. frv. eru byggðar á sömu skattvísitölu og fjárlagafrv. fyrir 1983 gerir ráð fyrir, þ.e. 152 miðað við 100 árið 1982.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar og til 2. umr.