29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

57. mál, orlof

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Hér er um að ræða þskj. 58, frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/1971, um orlof, og er þetta 57. mál 105. löggjafarþings. Flm. eru auk mín hv. þm. Halldór Blöndal, Guðmundur G. Þórarinsson og Guðrún Helgadóttir.

Hér er um að ræða, herra forseti, einungis mjög smávægilega orðabreytingu við 1. gr. orlofslaganna, en þar er lagt til að við bætist ein mgr. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Atvinnurekandi getur þó ekki ákveðið orlof launþega á tímabilinu 2. maí til 31. maí og 1. sept. til 15. sept., nema sérstaki samþykki launþega komi til.“ Síðan er í 2. gr. lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi eins og ven ja er. Grg. með frv. er örstutt eins og hv. alþm. sjá.

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að höfðu samráði við allnokkra launþega sem starfa á stærri vinnustöðum hér í Reykjavík og nálægt Reykjavík. Það hefur valdið launafólki á slíkum vinnustöðum, sérstaklega þar sem ég þekki nokkuð til, í álverinu í Straumsvík af mjög eðlilegum ástæðum mikilli óánægju að sumarleyfi eru skipulögð fyrir fram og oft þannig að launafólkið sjálft hefur ekkert um það að segja hvenær sumarleyfi eru tekin.

Það sjá náttúrlega allir í hendi sér að ákaflega óþægilegt er fyrir fólk ef það er hugsanlega skikkað til að taka sér sumarleyfi á því tímabili sem hér um ræðir, annaðhvort í maí eða fyrri helming septembermánaðar. Ég nefni t.d. launafólk sem á börn á skólaaldri, en eins og kunnugt er hefjast skólar víðast hvar 1. sept. Annaðhvort er skóli því hafinn, skólafólk í prófum eða annað slíkt á döfinni. Mér er kunnugt um það, herra forseti, að mjög víða hefur þetta fyrirkomulag valdið launafólki mjög verulegum óþægindum. Ég hygg að ég fari rétt með þegar ég segi að um þessi mál sé gott samkomulag annars vegar milli þeirra sem reka fyrirtækin og hins vegar þeirra sem taka laun í fyrirtækjum af miðlungsstærð og þaðan af smærri. En í fyrirtækjum yfir miðlungsstærð og þeim allra stærstu veldur þetta iðulega miklum óþægindum. Nú þarf auðvitað enginn að fara í grafgötur með að hér kemur ekki til illur vilji eins eða neins, heldur er það svo, að orlofslögin, þau sem sett voru 1971, eru mjög rúm í þessum efnum. Vitaskuld reyna fyrirtækin að skipuleggja sína starfsemi innan þess ramma sem ríkjandi lög gera ráð fyrir. Hér er lagt til að heimildir fyrirtækjanna séu þrengdar þannig að um þvinguð sumarleyfi , ef ég má nota þannig orð, sé ekki að ræða nema í mánuðunum júní, júlí og ágúst, en sé um að ræða sumarleyfi fyrir launafólk utan þessa tíma þurfi sérstakt samþykki þess að koma til. Mér sýnist satt að segja, herra forseti, að sé þetta mál skoðað vandlega sé um að ræða stórmál fyrir þá sem hlut eiga að máli, en í raun og veru aldeilis sérstaki sanngirnismál.

Mér er um það kunnugt, að sums staðar hjá fyrirtækjum hafa menn verið að reikna hvort þetta hafi aukakostnað í för með sér. Einhvern aukakostnað getur þetta haft í för með sér, en aðallega held ég þó hitt, að með því að skipuleggja svolítið öðruvísi, — þá er ég að reyna að setja mig í spor fyrirtækjanna — sé hægt að komast mjög haganlega framhjá því. Aðalatriðið er vitaskuld, og það sér hvert barn, að það er skerðing á mannréttindum að skylda menn gegn vilja sínum til að taka út sitt sumarleyfi framarlega í maí eða seint í sept. þegar heimilis-, fjölskylduhagir og hvað annað getur aldeilis staðið andspænis slíku.

Þetta frv., herra forseti, var flutt áður á síðasta þingi, á 104. löggjafarþingi, og þá var það komið í gegnum sex umr., hafði að vísu verið gerð svolítil breyting hér og breyting aftur í Ed., og átti eftir eina umr. hér í Nd. aftur þegar hv. þm. Friðrik Sophusson bað um frekari skoðun á málinu og varð það málsins bani. Það sem ég hygg að hafi vakað fyrir þm. var það, að fyrirtæki fengju að reikna sinn hag betur. Út af fyrir sig er það skiljanlegt sjónarmið. En þannig var, að hér var komið á næstsíðasta dag þings og með þeirri frestun sem varð dagaði þetta mál uppi. Nú er það endurflutt óbreytt og flm. eru þeir fjórir hv. þm. sem nefndir voru hér í upphafi.

Menn höfðu það á móti þessu máli í fyrra, og nefni ég þar til hv. 7. þm. Reykv. Guðmund J. Guðmundsson, að þetta ætti að vera samningsmál í frjálsum samningum og um slíka hluti ætti ekki að setja lög. Nú vil ég taka undir að í prinsippinu eiga samningar að vera frjálsir og menn og samtök þeirra að semja frjálst og bera sjálf ábyrgð á niðurstöðum þeirra samninga. Ég nefni kjaramál, ég nefni fiskverð, ég nefni landbúnaðarmál, ég nefni önnur slík grundvallarmál þessa samfélags. Ég vil bæta því við, að mikið af þeirri efnahagslegu ógæfu sem yfir okkur dynur þrátt fyrir verulegt ytra góðæri held ég að megi rekja til samninga, sem menn gera, en bera samt í raun og veru enga ábyrgð á. M.ö.o. vil ég í prinsippinu fallast á að samningar eiga að vera frjálsir og menn eiga að bera á þeim ábyrgð og hafa frumkvæði.

Engu að síður er það svo, að mörg af meiri háttar réttindamálum launafólks hafa aldrei unnist með því sem menn kalla frjálsa samninga. Ég lít þá aftur í söguna og get nefnt vökulögin og orlofsmálin vítt og breitt. Þau hafa áunnist með lögum, sem stundum og að hluta eiga sér rætur í samningum, en þó ekki alfarið. Þannig má segja t.d. um lögin, sem sett voru 1971, að að hluta til hafi þau átt rætur í frjálsum samningum. Af þessum ástæðum verða jafnvel þeir menn sem prinsipfastastir standa að frjálsum samningum að gera sér ljóst að sumt er þannig vaxið að löggjöf er betur fallin til framfara en samningar. M.ö.o.: þó sá, sem er 1. flm. að þessu frv., telji sig harðan talsmann frjálsra samninga verður á sama tíma að gera sér ljóst að sumt er og verður löggjafarefni.

Ástæðan fyrir því að jafnágætur talsmaður fjöldahreyfingar eins og verkalýðshreyfingarinnar og sá sem talaði gegn málinu á s.l. þingi er á móti rek ég til þess, að verkalýðshreyfingin sé svo falski uppbyggð, félagskerfið í henni sé svo falskt, það sé svo langur vegur í gegnum píramídann frá grasrótinni og upp í topp að mennirnir viti ekki að á stærri vinnustöðum er þetta verulegt vandamál hjá allstórum hópi launþega. Mér er mætavel ljóst að meira að segja innan launþegahreyfingarinnar snertir þetta mál hvergi nærri því það sem við köllum meiri hluta, og það er einn vandinn. Og mér er líka ljóst, að menn slá sér ekki upp í kosningum í verkalýðsfélögum með því að taka svona mál fyrir vegna þess að þetta snertir í raun og veru minnihlutahóp ef hreyfingin er skoðuð sem slík. En það breytir ekki hinu, að þessi minnihlutahópur, í demókratískum skilningi talað, á sér líka rétt. Málið er að það gengur ekki að ákveðinn lítill hópur manna sé skikkaður til að taka sumarleyfi gegn vilja sínum í maímánuði eða í septembermánuði. Það er, herra forseti, af þessum stæðum sem þetta litla frv. er flutt.

Tilfinning segir mér það, herra forseti, að um þetta mál verði betra samkomulag og minni athugasemdir en gerðar voru á síðasta þingi. Út af fyrir sig ber fyrir fram að fagna því, sé það rétt tilfinning. En kjarni málsins og aðalatriði er: Þetta er minni háttar breyting á orlofslögunum og þetta þyrfti ekki að hafa neina röskun í för með sér, því kannske vill eftir sem áður einhver hópur launafólks taka sumarleyfi á þeim tíma sem nefndur er. Kannske menn fái þá lengri sumarleyfi en ella. En aðalatriðið er þó það, að gegn vilja manna á ekki að vera hér eftir heimilt að skikka þá til að fara í orlof í maímánuði eða í septembermánuði.

Að lokum, herra forseti, legg ég til að þessu litla máli verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.