29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurgeir Bóasson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög áferðarfallegt mál, sem ég ætla ekki að taka beina afstöðu til, en hins vegar finnst mér að þau rök, sem hér eru færð fram í grg. og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson var að tíunda, séu dæmigerð fyrir þá vitleysu sem viðgengst hér á landi í umræðum um efnahagsmál almennt. Hér eru gripin upp ýmis hugtök, eins og fasteignamat, vísitala framfærslukostnaðar, skattvísitala, kauptaxtar launþega, og svo er bætt við ýmsum prósentutölum. Síðan er þessum hugtökum raðað saman til að í áferðarfallegum búningi megi rökstyðja einhvern málstað. En þegar farið er að skoða málið betur stendur ekki steinn yfir steini. Langar mig til að minna á nokkur atriði í því sambandi.

Meginuppistaðan í röksemdafærslunni hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni er sú, að hann tengir saman fasteignamat og eignarskattsstofn. Hann lítur á þessi tvö hugtök sem eitt og hið sama og segir síðan að þegar fasteignamat hækkar hækki um leið eignarskattsbyrðin. Síðan sýnir hann fram á að fasteignamat í Reykjavík hafi hækkað meira en framfærsluvísitala og kaupgjaldsvísitala og þar af leiðandi eigi að miða hækkun eignarskatts við skattvísitölu. Hvaða vit er nú í svona röksemdafærslu?

Í fyrsta lagi er sú forsenda sem allt þetta byggist á, þ.e. að bein tengsl séu á milli fasteignamats og eignarskattsstofns, mjög hæpin. Eins og allir vita er eignarskattur lagður á hreina eign manna, þ.e. mismun eigna og skulda. Hækkun á fasteignamati hefur því ekki áhrif á eignarskatt nema hjá mjög takmörkuðum hóp manna. Eins og við vitum öll er samkv. lögum um tekju- og eignarskatt heimild fyrir því að ákveðinn hluti af hreinni eign komi ekki til skatts. Þessi frádráttur er á þessu ári u.þ.b. 500 þús. kr. fyrir einstakling. Það þýðir að hjón sem eiga 1. millj. kr. í hreina eign í árslok 1982 borga engan eignarskatt. Þetta mundi þýða að hjón sem ættu skuldlausa fjögurra herbergja íbúð og ágætis bil mundu alfarið sleppa við eignarskattinn árið 1982. Og þeir sem eiga stærri eignir og skulda mundu einnig sleppa því að auðvitað hækka þeirra skuldir í samræmi við lánskjaravísitölu eða annan mælikvarða. Það eru einungis þeir sem eiga skuldlausar mun stærri húseignir sem þurfa að greiða einhvern eignarskatt. Og þá komum við að kjarna málsins. Það eru hin „breiðu bök“ sem þessu frv. er ætlað að vernda. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig, en hins vegar er þarna beitt ýmsum felurökum og reynt að fela kjarna málsins með ýmsum blekkingum og rökum sem eiga ekki við.

Af þessu, sem ég hef rakið, má sjá að það er langt frá því að bein tengsl séu á milli fasteignamats og eignarskattsstofns. Það stafar af allt öðrum ástæðum en fasteignamati að menn borga eignarskatt. T.d. áttu sumir hér á árum áður kost á góðum lánum og byggðu á þeim tíma þegar vextir voru mjög neikvæðir. Þetta fólk borgar eignarskatt í dag.

En jafnvel þó að við gæfum okkur að bein tengsl væru á milli fasteignamats og eignarskattsstofns standast þau rök ekki heldur að það eigi að miða hækkun fasteignamats við hækkun skattvísitölu eins og hér er lagt til. Hér er líka verið að blanda saman óskyldum hugtökum. Skattvísitala á að sýna breytingu á almennum launatekjum í þeim tilgangi að tekjuskattsbyrðin verði svipuð frá ári til árs á föstu verðlagi. Það er markmiðið með skattvísitölunni. En þarna er verið að tengja hækkun á fasteignamati við skattvísitölu. Þetta eru tvö alveg óskyld hugtök og eiga ekkert sameiginlegt. Ef fasteignamat húseignar í Reykjavík hækkar meira en almenn laun og meira en framfærsluvísitalan þýðir það að eigendur þessara húseigna hafa orðið fyrir raunverulegri eignaaukningu, þ.e. eignaaukningu umfram hækkun á almennu verðlagi. Það er raunveruleg eignaaukning. Hvað er athugavert við að skattleggja í samræmi við það? Hækkun á almennum launatekjum kemur þessu máli ekkert við. Eru t.d. þessir aðilar sammála því að söluverð fasteigna mætti aðeins hækka í samræmi við skattvísitölu með þeim rökum að almenn laun kaupanda hefðu ekki hækkað meira en hækkun á skattvísitölu? Ég er hræddur um að slíkt yrði aldrei samþykkt, því að auðvitað vilja menn fá markaðsverð fyrir húseignir sínar og eiga þess vegna að borga skatta í samræmi við það. Þetta liggur í augum uppi, að mínum dómi.

Eitt vil ég nefna í viðbót. Hvernig snúa þessi rök að þeim sem eiga íbúðir úti á landi, þar sem fasteignamat hækkar kannske minna en skattvísitala, sem er mjög algengt? Þeir þyrftu samkv. þessu frv. að greiða viðbótareignarskatt út á eignir sem þeir geta ekki selt nema fyrir verð sem er langt undir kostnaðarverði. Þessir aðilar þyrftu að borga einhvern viðbótardreifbýlisskatt út á það.

Herra forseti. Ég þykist hafa sýnt fram á að þetta frv. sé til þess að vernda breiðu bökin og þá einungis þau breiðu bök sem búa í bestu hverfum landsins. Ég fæ ekki séð að það sé mest aðkallandi mál miðað við stöðu þjóðarbúsins í dag.