29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. hafði ýmislegt að athuga við þetta frv. Grundvöllurinn í hans gagnrýni var sá, að í þessu frv. væri verið

að tengja saman ólík hugtök, t.d. hugtök eins og fasteignamat og eignarskattsstofn. Ég verð að segja það eins og er, að mér fannst þessi ræða dæmigerð ræða manns með kerfishugsunarhátt, sem tekur ákveðin bókhaldsleg hugtök og skýrir þau eftir sinni fræðigrein án þess að gera nokkra tilraun til að lita á samhengi hlutanna.

Auðvitað er samhengi á milli fasteignamats og eignarskattsstofns. Hvaða manni dettur í hug að halda því fram að það sé ekki samhengi þar á milli? Fasteignamat er það mat sem fasteignir eru metnar á og eignarskattsstofn er í langflestum tilvikum algerlega háður þessu fasteignamati. Allur almenningur þessa lands býr í sínum íbúðum, sem metnar eru fasteignamati, og við vitum að stærsti hlutinn af eignum alls almennings er fasteignirnar, þ.e. þær íbúðir sem menn búa í. Það er að vísu rétt, að til frádráttar áður en eignarskattur er lagður á koma þær skuldir sem menn hafa stofnað til. En samt sem áður er það alveg ljóst, að fasteignamatið er sá grunnur sem byggt er á. Ég get því alls ekki fallist á það með hv. þm. að hér sé verið að tengja saman ólík hugtök.

Hitt er annað mál, að ég skal fyllilega vera til viðræðu um að taka mið af einhverju öðru en t.d. skattvísitölu. Hins vegar taldi ég að þeir sem þarna ættu um sárt að binda, þeir sem þyrftu að greiða þessa síhækkandi eignarskatta, væru sæmilega verndaðir með skattvísitölunni vegna þess að sérstaklega núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert sér sérstakt far um að halda niðri skattvísitölunni til að geta hækkað raunverulega tekjuskatta á öllum almenningi. Þetta vitum við og við höfum oft deilt um það hér á Alþingi, en þess vegna valdi ég þessa ákveðnu vísitölu að ég þóttist viss um að með því væru þeir sem eignarskattinn eiga að greiða hvað best tryggðir.

Það er ákaflega mikill misskilningur, sem fram kom í ræðu hv. þm., að þegar eignir manna hækka í verði vegna þess að fasteignamatið hækkar sé um raunverulega eignaaukningu að ræða. Ég er alveg viss um að hann getur sýnt fram á með bókhaldslegum aðferðum að um raunverulega eignaaukningu sé að ræða, en hjá öllu því fólki þessa lands sem byggir sér íbúð til að búa í og er ekki að hugsa um að braska með sínar íbúðir skiptir þetta ekki verulegu máli. Það skiptir fólk upp í Breiðholti eða vestur í bæ engu máli þó að fasteignamatið hækki frá ári til árs, vegna þess að þetta fólk er ekki að hugsa um að selja sínar eignir til þess að braska með þær. Það skiptir það aftur á móti máli að skattarnir hækka í samræmi við hækkun fasteignamatsins. Ræða hv. þm. var byggð á þeim hugsunarhætti að kerfið verði að hafa sinn gang og umfram allt eigi ekki að vera að blanda saman einhverjum óskyldum hugtökum, eins og fasteignamati, hreinni eign og eignarskattsstofni. Þetta er að sjálfsögðu gífurlegur misskilningur hjá hv. þm.

Þessu frv. er ekki ætlað að vernda „hin breiðu bök“ í þjóðfélaginu, eins og hv. þm. gat um. Þessu frv. er ætlað að vernda allan almenning. Þessu frv. er ekki síst ætlað að vernda eldra fólk sem býr í sínum íbúðum og skattbyrðin hækkar á frá ári til árs. Mér er alveg kunnugt um, og hv. þm. þarf ekki að segja mér neitt um það, hvaða fólk það er sem t.d. leitar til mín og fjölda annarra þm. eða borgarfulltrúa hér í Reykjavík þegar skattskráin kemur út. Menn sjá þá eignarskattsbyrðina sem á það er lögð.

Margt eldra fólk, sem býr í þessari borg, fær hreinlega ekki risið undir sinni eignarskattsbyrði. Að vísu skal viðurkennt að það var sett í lög fyrir um það bil tveimur árum, að því er ég hygg, að ef sérstakar aðstæður, sjúkdómar eða þess háttar, mæla með megi lækka eignarskatt, en í fæstum tilfellum er þó hægt að beita því ákvæði nema ströng læknisvottorð komi til.

Ég skal alveg fallast á það, eins og ég sagði í upphafi, að hægt sé að nota einhverja aðra viðmiðun, en ræða hv. þm. sannfærði mig ekki um að fasteignamatið, eins og það er framkvæmt t.d. hér í Reykjavík og reyndar víða úti um land í ýmsum stærri kaupstöðum landsins, sé ekki ósanngjarnt við ákvörðun skattstofns, vegna þess að allur almenningur hagnast í raun ekkert á því þó að gangverð íbúða hækki frá ári til árs. Fólk hugsar ekki íbúðir sínar sem andlag kaups og sölu, heldur hugsar fólk um íbúðir sinar sem skjól til að búa í og lifa í. Ég fellst ekki á þann hugsunarhátt eða þau rök sem fram komu hjá hv. þm. um þetta mál.