29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurgeir Bóasson:

Herra forseti. Mér fannst gæta talsverðs misskilnings hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni. Kjarninn í hans málflutningi er sá, að hann er að reyna að láta líta þannig út að almennt samhengi sé á milli fasteignamats og eignarskattsstofns. En það er ekkert beint samhengi á milli fasteignamats og eignarskattsstofns vegna þess að eignarskattur leggst nú aðeins á þá menn sem eiga í hreina eign yfir 1 millj. kr. í árslok 1982, sem þýðir að allur almenningur, eins og hv. þm. talar um, borgar ekki eignarskatt. Þess vegna er hv. þm. ekki að vernda hinn almenna borgara með þessu frv. Hann er einungis að vernda „hin breiðu bök,“ sem borga eignarskatt. Menn þurfa að eiga umtalsverðar eignir til að lenda í eignarskatti.

Annað sem hann nefndi var að það væri misskilningur að um raunverulega eignaaukningu væri að ræða þegar fasteignamat íbúðar í bestu hverfum í Reykjavík hækkar um 80% eða 100%. Menn verða að líta á þetta með landið allt í huga. Ef við hugsum um fasteignir úti á landi, sem hækka tiltölulega miklu minna, kannske um 25% eða 30% á sama tíma og fasteignir í Reykjavík hækka um 80–90%, þá er auðvitað eignaaukning hjá þeim sem búa í Reykjavík. Það er eignaaukning umfram almennt verðlag. Auðvitað á fólkið að borga eignarskatt í samræmi við það.

Hins vegar ætti hv. þm. að beina athygli sinni að fasteignaskattinum. Það er flatur skattur sem leggst á húseignir manna og kemur harðast niður á stórum fjölskyldum, sem þurfa að búa í stórum húsum. Menn sem eru skuldugir upp fyrir haus þurfa að borga ein eða tvenn mánaðarlaun í fasteignagjöld. Að þessari hlið ætti hv. þm. að beina athygli sinni, en ekki að því að vera að leggja áherslu á að lækka eignarskatt þeirra tekjuhærri og eignameiri.