29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir að fundartími er liðinn og ég þakka fyrir að fá að segja hér nokkur orð. Ég skal ekki flytja langt mál í sambandi við það frv. sem hér er lagt fram á þskj. 102 og er, ef ég man rétt, 100. mál.

Íbúðir fólks eða vistarverur sem eru í eign fólksins, eru greiddar með peningum eða byggðar fyrir peninga sem fólkið á afgangs þegar það hefur greitt ríki og sveitarfélagi öll sín opinberu gjöld, hvort sem það heita skattar eða útsvör. Það er sem sagt byggt fyrir sparifé og vinnuframlag. Á þessar eignir á alls ekki að leggja síhækkandi fasteignagjöld. Þessar eignir eiga ekki að vera tekjulind aftur og aftur fyrir ríkissjóð.

Þeir sem hafa notað tekjur sínar á annan hátt, t.d. lagt í banka til geymslu, fá verðbætur og vexti af sparifé sínu, en þeir sem leggja sparifé í fasteignir, þ.e. byggja sér þak yfir höfuðið, greiða endalausa skatta af sömu tekjum.

Skattleggja mætti söluágóða af húseign, ef hún er seld, eða af þeim mismun sem er á söluverði og nýjum vistarverum, ef um sannanlegan söluhagnað, raunverulegan söluhagnað, í slíkum skiptum er að ræða. En ég er á móti því að skattleggja og meta fasteignir manna til skatts og hafa þær að tekjulind aftur og aftur fyrir ríkissjóð, eins og raun ber vitni um.