30.11.1982
Sameinað þing: 23. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

60. mál, rafvæðing dreifbýlis

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar þáltill. sem hér er til umr. vil ég segja örfá orð. Það munu vera nálægt 60 jarðir í landinu, sem þannig háttar um, að þær eru ekki tengdar samveitum. Heldur hefur sú tala farið lækkandi á undanförnum árum, en mjög hægt miðar í þeim efnum vegna ónógra fjárveitinga.

Það hefur verið frá ári til árs lagt til af hálfu iðnrn. að meira fé yrði ráðstafað í þessu skyni heldur en fengist hefur undir liðnum sveitarafvæðing í fjárlagafrv. Þannig liggur fyrir að á yfirstandandi ári er ekki nema óverulegt fjármagn til þess að tengja nýjar jarðir við landskerfið, en að því hefur þó verið unnið. Það er rétt að menn átti sig á að í sambandi við þennan fjárveitingalið, sveitarafvæðingu, er ekki eingöngu og engan veginn í meginatriðum um að ræða fjárveitingu til nýlagningar á jarðir, sem ekki eru í tengslum við landskerfið, heldur falla undir þennan fjárveitingalið viðbætur við eldri veitur. Megnið af því fé, sem Alþingi hefur ákveðið í þessu skyni á undanförnum árum, hefur farið í slíkar tengingar jarða sem liggja við eldri veitur. Er þá um að ræða styrk í sambandi við tenginguna.

Á árinu 1983 er gert ráð fyrir samkv. áætlun að í þessu skyni þurfi um 8 millj. kr., til þess að tengja jarðir við eldri veitur. Samkv. þeim tölum, sem eru inn í fjárlagafrv., er þannig um mjög óverulegt fé að ræða, ef nokkuð, til þess að bæta við býlum sem einangruð eru og ekki njóta rafmagns frá samveitum.

Hins vegar hefur árlega verið gert ráð fyrir styrk til einkarafstöðva, til dísilrafstöðva fyrir slíkar jarðir og þar hafa menn notið tiltölulega hagstæðra kjara. Vegna þess að í þetta verkefni hefur ekki fengist það fjármagn sem þurft hefur til að leysa þennan vanda á undanförnum árum, þá sneri iðnrn. sér til Byggðasjóðs fyrir tveimur árum með erindi þar að lútandi, að Byggðasjóður kæmi inn í þetta verkefni, veitti lán og stæði undir fjármagnskostnaði í sambandi við úrlausn í þessum efnum. Jákvæðar undirtektir hafa ekki fengist frá Byggðasjóði enn sem komið er í þessu efni, en málið hefur verið þar til meðferðar.

Á s.l. vori óskaði stjórn Framkvæmdastofnunar eftir heimild til að taka erlend lán, mig minnir að upphæð nálægt 13 millj. kr., til að setja í þetta verkefni, sem hugsað var sem lántaka utan við lánsfjáráætlun og ekki á vegum Byggðasjóðs. Við þessu var ekki orðið. Það þótti ekki fært. Þetta tengdist fleiri erindum frá stjórn Byggðasjóðs um viðbót við erlendar lántökur og það þótti ekki fært að taka þannig á málinu. Hins vegar veitti fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrn. Framkvæmdastofnun heimild til lántöku nálægt 2 millj. kr. til að verja í þessu skyni á yfirstandandi ári til þess að leysa vanda nokkurra jarða sem næstar eru taldar standa slíkri tengingu.

Ég hef orð manna hjá Framkvæmdastofnun og innan stjórnar Byggðasjóðs fyrir því, að þeir muni lita á þetta mál áframhaldandi. Ég tel mjög eðlilegt að Byggðasjóður komi inn í lausn þessa máls og vona að svo verði þegar varðandi næsta ár. Svör þar að lútandi liggja hins vegar ekki fyrir. Ég tel nauðsynlegt að úr því fáist skorið fyrr en seinna, hvað fjárveitingavaldið er reiðubúið að ganga langt í þessu skyni, til þess að skera úr óvissu, sem ýmsir búa við og er mjög óheppileg fyrir þá sem jarðir sitja, sem ekki hafa fengið frambúðarúrlausn í sambandi við sín raforkumál.

Það er vissulega ekkert á móti því að gera áætlanir um þessi efni eins og þáltill. gerir ráð fyrir. En ég vek athygli á að gögn málsins liggja í rauninni fyrir, m.a. um hvaða jarðir er að ræða upp að þessari meðaltalsfjarlægð, 6 km milli jarða. Það liggur allt fyrir og í tiltekinni röð með ábendingum frá orkuráði þar að lútandi. Fyrir utan þessa meðaltalsfjarlægð eru um 25–30 jarðir, að mig minnir, sem eru enn einangraðri en þessar jarðir. Þar er nauðsynlegt að leita sem hagkvæmastra leiða í sambandi við raforkuöflun, hvort sem það er með lánum til einkarafstöðva eða öðrum úrræðum eins og með vindorku, svo sem til athugunar hefur verið. Fleiri þættir geta komið inn í athugun þessa máls. Þetta vildi ég að fram kæmi til upplýsingar um málið.