30.11.1982
Sameinað þing: 23. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

60. mál, rafvæðing dreifbýlis

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft merkilegu máli í till. þeirri til þál. um rafvæðingu dreifbýlisins sem við ræðum nú. Að vísu er það ekki nýtt mál. Það hefur verið rætt allmikið á hverju einasta þingi í ýmsum samböndum um margra ára skeið.

Með tilliti til þess þykir mér það skjóta dálítið skökku við, sem sagt er í þessari till., þegar talað er um að ljúka eigi rafvæðingu býla í sveitum sem miðist við að samveita nái til allra býla landsins með allt að 6 km meðalvegalengd og eins fasa línu samkv. áætlun orkuráðs frá 14. apríl 1982. Mér þykir þetta nokkuð kyndugt orðalag af því að þetta hefur legið fyrir. Þessi áætlun, sem vitnað er í, var gerð síðla árs 1975 í orkuráði. Á grundvelli þessarar áætlunar, sem var gerð 1975, hefur verið í fyrsta lagi unnið að framkvæmd sveitarafvæðingarinnar og umr. hér á Alþingi hafa í öðru lagi mjög snúist um þessa áætlun og verið að mestu á grundvelli þessarar áætlunar frá 1975. Þetta kom óbeint fram hjá hæstv. iðnrh. sem veit þetta manna best. Hann sagði að það lægi fyrir hjá orkuráði röð framkvæmda í sveitarafvæðingunni. Þessi röð hefur legið fyrir síðan 1975 að áætlunin var gerð. Það var eins og talað er um í þessari þáltill., gert ráð fyrir að samveitur næðu til allra sveitabýla þar sem fjarlægð færi ekki yfir 6 km lengd að meðaltali. Mér þykir rétt að vekja athygli á þessu, svo að við séum ekki að ræða þessi mál eins og við höfum ekki fylgst með hvað hér hefur verið að gerast á undanförnum árum, eða hvað við höfum verið að tala um þessi mál hér í þinginu á undanförnum árum.

Þó að ég segi þetta, þá er það ekki gert til þess að gera lítið úr þessari tillögu eða mæla gegn henni, því að till. er í sjálfu sér jákvæð. Hún er um það að ljúka á næstu tveim árum þessari sveitarafvæðingu sem gerð var áætlun um 1975 í orkuráði. Það sem við höfum verið að ræða um þessi mál á undanförnum árum hefur einmitt verið það að ljúka áætluninni.

Árið 1978 gerði orkuráð tillögu um það að á næsta ári yrði þeirri áætlun lokið sem nú er verið að tala um að í ljúka á næstu tveim árum. Orkuráð gerði till. um það. En sú till. hlaut ekki náð fyrir augum ríkisstj. Síðan hefur orkuráð ítrekað á hverju ári tillögur um fjárveitingar til sveitarafvæðingar, sem miða að því að ljúka verkinu á komandi ári. Á undanförnum árum hafa verið svo fáir bæir eftir að orkuráð hefur lagt áherslu á að ekki væri annað við hæfi en að ljúka loksins þessari áætlun. Eins og kom fram bæði hjá 1. flm. till., hv. 3. þm. Norðurl. v., og raunar líka hjá hæstv. iðnrh., þarf að létta af þeirri óvissu sem bændur sem búa á hinum óraflýstu bæjum búa við, því að það er ekki gott fyrir þá að lifa alltaf í voninni um rafmagn en sjá ekki framkvæmdir.

Ég gæti talað alllangt mál ef ég færi að rifja upp allar þær tilraunir sem hafa verið gerðar til að hrinda þessu máli í framkvæmd á hverju ári fyrir sig undanfarin ár. Þetta hefur verið gert með því að bera fram till. við fjárlagagerð um aukningu á fjármagni til sveitarafvæðingar. Ég hef ár eftir ár borið þessar till. fram, en þær hafa verið felldar af stjórnarliðum. Og með því að það er fjármagn sem þarf til þess að gera hlutina, þá hefur ekkert — eða svo lítið verið gert í þessu efni sem raun ber vitni um. Í nokkur ár hefur tala órafvæddra sveitabæja hlaupið á 25–35 bæjum eða eitthvað slíkt.

Nú liggur fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1983 og enn er sömu sögu að segja. Ég er ekki hér með fjárlagafrv. og skal ekki heldur fara að þreyta menn með að lesa þessar tölur, en ég er með fyrir framan mig fjárlagatillögur Orkusjóðs fyrir árið 1982, árið sem nú er að líða, og fjárlagafrv. sem samþykkt var að þessu leyti óbreytt sem fjárlög fyrir þetta ár.

Orkuráð taldi nauðsynlegt að veita á þessu ári, 1982, 21 millj. kr. til sveitarafvæðingar og gerði það að sinni till. til fjárlaga. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir 7.2 millj. kr. Og meginhlutinn af þessari 7.2 millj. kr. upphæð fer, eins og hæstv. iðnrh. vék að, ekki til nýlagninga heldur til svokallaðra heimtauga á sveitabæi sem byggðir eru á veitusvæðum. Þetta er um hina eiginlegu sveitarafvæðingu.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að styrkleika þeirrar línu, sem ætti að leggja til þeirra sveitabæja sem eftir eru, og talaði um einfasa línu, eins og hefur verið lagt á sveitabæina yfirleitt. Ég er honum sammála um þetta, enda hefur verið gert ráð fyrir því í till. orkuráðs allan tímann, að þarna væri um einfasa línu að ræða.

En það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. segir, að það þarf að hafa í huga styrkleika línunnar. Og það er ekki bara fyrir þessa 25 eða 30 bæi, sem eftir eru, heldur þarf að hafa í huga í þessu efni alla sveitabæi landsins, sem rafmagn hafa, því að á síðari árum hefur alltaf komið betur og betur í ljós þörf fyrir sterkari línulögn en fæst með einfasa línu. Það kemur til af því, að bændur nota í æ ríkara mæli margs konar rafmagnsáhöld, ég tala nú ekki um ef um er að ræða í sveitum landsins léttan iðnað, eins og sums staðar er og er frekar að verða vísir að. Þess vegna er það aðkallandi verkefni að styrkja dreifikerfi rafmagns í sveitum.

Ég hef alltaf litið þannig á, að það ætti að ljúka hinni eiginlegu sveitarafvæðingu og taka þessa fáu bæi sem eftir eru, en jafnframt þyrfti að vinna að styrkingu dreifikerfis í sveitum almennt. Með tilliti til þessa lét orkuráð á sínum tíma vinna ítarlega áætlunargerð um þetta verk. Það voru fengnir færustu sérfræðingar til að vinna að því. Orkustofnun kom þar við sögu og þá ekki síst orkumálastjóri. Árið 1978 samþykkti orkuráð áætlun til átta ára um styrkingu dreifikerfis í sveitum. Þessi áætlun var að sjálfsögðu send ríkisstj. og lögð mikil áhersla á þessa framkvæmd, en til hennar þurfti mikið fjármagn. Það kemur öllum saman um að hér sé um hið brýnasta verkefni að ræða fyrir sveitir landsins.

Orkuráð hefur á hverju ári gert tillögur um fjárveitingar til þessara framkvæmda samkv. áætlun orkuráðs frá 1978. Málið hefur fengið þá viðurkenningu, að á hverju ári síðan hefur verið sérstök fjárveiting á fjárlögum í þessu skyni, en hvergi nærri nógu mikil til að mæta þeirri fjárþörf sem þurfti til þess að ljúka áætlun orkuráðs á tilskildum tíma.

Ég gæti hér, eins og ég sagði, varðandi hina eiginlegu sveitarafvæðingu rifjað upp það sem hefur verið gert til þess að fá þetta leiðrétt. Ég hef á hverju ári borið fram brtt. við fjárlagafrv. um það efni. En ég skal ekki fara að þreyta menn á þessu. Ég hygg líka að mönnum sé þetta nokkuð kunnugt. Ég vil aðeins láta þess getið, að samkv. tillögum orkuráðs þarf 98 millj. kr. á næsta ári til styrkingar rafdreifikerfis í sveitum. Það er tillaga orkuráðs. (Gripið fram í.) Ég hygg að þetta sé rétt, það er 98. Þetta er plagg sem við vinnum með í orkuráði og ég hygg að þetta sé bara misminni, sem getur náttúrlega hent bæði hæstv. ráðh. og mig, en þetta er rétt, það er 98 millj. En í frv. til fjárlaga fyrir 1983 er gert ráð fyrir 27 millj. Það segir sína sögu.

Ég hygg að það sem ég hef nú sagt ætti að nægja til þess að öllum ætti að vera ljóst að það er ekki vanþörf á að ljúka hinni eiginlegu sveitarafvæðingu á næstu tveimur árum eins og þessi þáltill. gerir ráð fyrir. En orkuráð hefur leyft sér að leggja til að til þess fari skemmri tími.

Nú er ágætt að fá þessa till. samþykkta. Ég veit að þessir ágætu framsóknarmenn, sem hafa raðað sér á þessa till., meina það sem þeir segja í þessu efni og ég treysti þeim til að fylgja brtt. frá mér og öðrum, sem mun koma fram við afgreiðslu fjárl., um að gera þetta og lítið eitt betur. Þá kemst þetta strax í framkvæmd. En ég er ansi hræddur um að það geti eitthvað vafist fyrir mönnum um framkvæmd jafnvel þó að við samþykkjum þessa þáltill.

Hæstv. iðnrh. sagði að af hálfu iðnrn. hefði á undanförnum árum verið lagt til að veita meira fé til sveitarafvæðingarinnar en gert hefur verið. Og ég veit að þetta er rétt. En mér hefur fundist skorta á að fylgt væri eftir af meiri festu þessum till. rn. Hæstv. iðnrh. sagði að það hefði verið á þessu ári leitað til Byggðasjóðs um að fá fjármagn til sveitarafvæðingarinnar og þá ljúka hinni eiginlegu sveitarafvæðingu. Mér er kunnugt um þetta og ég hef fyrir mitt leyti verið ákaflega hvetjandi þess að þessi leið væri farin, því að ég hygg að fátt heyri betur undir verkefni Byggðasjóðs en einmitt stuðningur við slíki verkefni sem hér er um að ræða. Ég ætla nú ekki að fara að rekja söguna af viðskiptunum við Byggðasjóð. En ég hef staðið í þeirri meiningu — og hef vel fylgst með þessum málum — að það hafi verið fullkominn skilningur hjá stjórn Byggðasjóðs fyrir þessu máli. Ég dreg ekki í efa vilja hæstv. iðnrh. í þessum efnum, en ég tel að ríkisstj. hafi tekið á þessu máli með hálfum hug og er þá ekki mikið sagt.

Hæstv. iðnrh. tæpti á því að Byggðasjóður hefði farið fram á heimild til þess að taka erlent lán á þessu ári til að verja til sveitarafvæðingarinnar. Þetta er rétt. Hæstv. ráðh. sagði að þessi beiðni hefði tengst öðrum beiðnum um erlendar lántökur. Það er líka rétt. Ég hef reynt að ýta á þetta mál og ég hef heyrt þetta sem hæstv. iðnrh. sagði. En hver trúir því, ef hæstv. ríkisstj. hefði verið nokkur alvara í þessu máli, að við hefðum ekki getað afgreitt þetta þó að í sama bréfi til ríkisstj. hafi verið talað um önnur lán í öðrum tilgangi? Þetta er svo augljóst yfirskin að það tekur því ekki að minnast á það. Við verðum að viðurkenna þá staðreynd að það hefur ekki verið nægilegur áhugi hjá stjórnvöldum til að hrinda þessu máli í framkvæmd — og mér liggur við að segja þessu lítilræði sem eftir er að framkvæma af hinni miklu allsherjarsveitarafvæðingu, sem við höfum verið að vinna að á undanförnum áratugum. Það er ömurlegt.

Ég hefði að sjálfsögðu tilefni til að ræða um margt fleira við hæstv. iðnrh. um þessi mál. Það vill svo til að á dagskrá fyrri fundar, sem var verið að slíta rétt áðan, var fyrirspurn frá mér til iðnrh. varðandi sveitarafvæðinguna á þessu ári. Eins og ég sagði áðan, þá voru það smámunir sem hægt var að verja til nýlagningar í sveitum, hreinustu smámunir. En það er skylda orkuráðs að gera tillögur um hvernig á að verja þessu fjármagni, jafnvel þó að litið sé. Og orkuráð gerði sínar tillögur í apríl s.l. En það er ekki nægilegt að orkuráð geri tillögur. Það er gert ráð fyrir að iðnrh. samþykki þessar tillögur. Í framkvæmd hefur þetta verið formið eitt svo lengi sem elstu menn muna eftir og ég hygg alla tíð, að ráðh. hefur samþykkt það sem orkuráð hefur lagt til. En það hefur ekki fengist nú samþykki enn. Ég vil ekki fara frekar út í þetta mál núna. Ég geymi það þangað til kemur að fsp. En ég geri ráð fyrir að menn hafi tekið eftir því, að þegar ég hef viljað taka kannske frekar upp í mig um aðgerðarleysi í þessum málum, þá hef ég nefnt ríkisstj. í heild frekar en hæstv. iðnrh. Ég efast ekki um að hæstv. iðnrh. hafi fyrir sitt leyti viljað gera betur. Þess vegna hefur mér nú komið spánskt fyrir sjónir að hann skuli ekki hafa samþykkt þetta lítilræði til sveitarafvæðingarinnar í ár. En ég lofaði áðan að fara ekki að ræða það núna. Við ræðum það síðar.