20.10.1982
Neðri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

26. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hæstv. sjútvrh. fylgdi úr hlaði með allítarlegri ræðu um sjávarútveg almennt, er til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 21. sept. á s.l. hausti. Ég verð að segja hæstv. sjútvrh. það til hróss, að hann er fyrr á ferðinni með að leggja fyrir Alþingi frv. um Olíusjóð fiskiskipa frá 21. sept. en ríkisstj. öll og hæstv. forsrh. í broddi fylkingar er að leggja fram brbl. þau sem mjög hafa verið umrædd í þjóðfélaginu að undanförnu og gefin voru út 21. ágúst á s.I. hausti. Þessi brbl. hafa verið rædd í fjölmiðlum, bæði sjónvarpi, útvarpi og blöðum, en það virðist ekki enn eiga neinn hljómgrunn að þau verði rædd á Alþingi Íslendinga, sem á þó stjórnskipulega séð að afgreiða brbl., staðfesta þau eða fella.

Hæstv. forsrh. lét að því liggja,-raunar meira en það, hann sagði það mjög skýrt og skorinort,-og hann sagði það fyrir framlagningu þessara laga, hvað stjórnarandstaðan væri sundurþykk, en hæstv. sjútvrh. lætur ekkert tefja fyrir framlagningu frv. um Olíusjóð fiskiskipa þó að stjórnarandstaðan sé svona sundurþykk. En hvers vegna er þá verið að leggja fram fjárlagafrv. þegar stjórnarandstaðan er svona sundurþykk? Það skyldi þó ekki vera eitthvað annað að, annað og meira en að stjórnarandstaðan sé sundurþykk. Ætli það séu ekki fleiri en ein brotalöm í ríkisstj. Það hriktir alls staðar í þeirri hryggðarmynd, eins og allir vita, og það er auðvitað ástæðan fyrir því að brbl. um efnahagsaðgerðir sjá ekki dagsins í jós hér á hv. Alþingi. Það er ástæðan. Og þeir geta rætt í sjónvarpi, útvarpi og blöðum eins og þeir vilja um að stjórnarandstaðan hafi sína ábyrgð, hún eigi að afgreiða allt það sem að henni er rétt, segja bara já og amen, annars séu þetta óábyrgir menn, sem vilji þjóðinni allt illt. Því er nú kominn tími til og hefði verið miklu nær að ræða brbl. á undan þessu frv., því að þau eru þær ráðstafanir sem mest eru umræddar, og þar með að ræða hér á réttum vettvangi, ekki í blöðum heldur Alþingi sjálfu, það sem er að gerast í þjóðfélaginu, en ekki liggja með svona tvískinnung á því að leggja fram þessi margumræddu brbl. og reyna að finna sér eitthvað annað til til þess að ljúga sig út úr ógöngunum, sem hefst þó engan veginn. — Er nú hv. 4. þm. Reykv. farinn að fussa, já. Hann hafði þó helst karlmennsku til þess.

Ég ætla aðeins að snúa mér að efni þessara brbl., sem eru hér lögð fram til staðfestingar, og taka það í raun og veru fram fyrst, að við stjórnarandstöðuna hefur ekkert samband verið haft. Stjórnarandstöðunni var ekki kynnt málið frekar en brbl. um efnahagsaðgerðir. Samviskusömustu þm. stjórnarliðsins, sem enn telja sig fylgja stjórninni, afsaka ríkisstj. gjarnan með því að þeim hafi ekki verið kunnugt um, þegar brbl. um efnahagsaðgerðir voru gefin út, að stjórnin væri svona illa farin, sérstaklega hér í þessari hv. þd., að hún hefði ekki meiri hl. En þetta er þó ekki hægt að segja þegar brbl. um Olíusjóð fiskiskipa voru gefin út. Þá vissu allir þetta, öll þjóðin, og meira að segja ráðh., a.m.k. þeir sem voru á landinu. En samt var þetta gert.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því að fara inn á nýjar brautir, sem eru þó gamlar, — braut sem var horfið frá. Það er verið að auka millifærslurnar í þjóðfélaginu og um þetta er samið og þetta frv. er flutt til staðfestingar á þeim samningi. En eigi að siður er þetta staðreynd, að hér er verið að taka upp í ríkari mæli millifærsluleið í efnahagsmálum, sem hefur aldrei gefið góða raun í okkar þjóðfélagi. Við hurfum frá millifærsluleiðinni 1976 að öllu leyti með því að stórlækka útflutningsgjaldið og afnema þessar millifærslugreiðslur og þá var byggt á nýjum lögum um útflutningsgjald, sem var 6% af útflutningsverði sjávarafla, jafnt á allar tegundir. Því var ekki varið til millifærslu á rekstrarkostnaði, heldur til þess að standa undir starfsemi ákveðinna stofnana, og þá sérstaklega Aflatryggingasjóðs, sem fékk tæplega helming og hefur fengið tæpan helming af þessu útflutningsgjaldi æ síðan. Hinn hlutinn var til Fiskveiðasjóðs og Fiskimálasjóðs, 22%, og til greiðslu á vátryggingarkostnaði fiskiskipa samkv. reglum, sem sjútvrn. setti, 27%. Þá var horfið frá iðgjaldagreiðslunum að öðru leyti en þessu í fullu samkomulagi við sjávarútveginn allan, bæði sjómenn, útgerðarmenn og fiskvinnslustöðvar, og þessi mikilvæga breyting náði fram að ganga á mjög skömmum tíma hér á Alþingi. Þar með var horfið frá þessum millfærsluleiðum eins og við greiðslu olíu. Nú er þetta tekið upp og sagt að þetta séu samningar við forsvarsmenn útgerðarinnar og það dreg ég á engan hátt í efa. Það er engin furða þó að útgerðin hafi verið orðin langeygð eftir því að einhverjar aðgerðir væru gerðar varðandi olíuverð, því að svo oft var búið að lofa þessum aðgerðum og búið að taka margar veltur í sambandi við olíusjóðinn á þessu kjörtímabili eða einkum frá 1979.

Í öðru lagi er hér gert ráð fyrir að 30 millj. kr. af greiðsluafgangi Vátryggingasjóðs fiskiskipa verði varið í þessu skyni. Nú segir í lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, þeim kafla þeirra laga sem fjallar um Aldurslagasjóð, að ráðh. geti ákveðið að Tryggingasjóður fiskiskipa leggi Aldurslagasjóði til fé, að fengnum tillögum stjórnarnefndar Tryggingasjóðs. Þá var rætt um að hér væri um ríflega innheimtu að ræða til að standa undir þessum hluta af vátryggingargjöldum, að það ætti að nota þetta til að efla Aldurslagasjóð. En þeir sjóðir eru tveir sem eru til þess ætlaðir að hafa það hlutverk að stuðla beint að því að útgerðarmenn losni við úrelt og óhentug fiskiskip. Hinn sjóðurinn er Úreldingarsjóður, en hann er byggður á öðru og úthlutunarreglur hans eru líka með nokkuð öðrum hætti. Aldurslagasjóðurinn er hrein vátryggingastarfsemi, þar sem þeir sem fá bætur greiða iðgjöld til þess sjóðs, en til þess að efla hann meira voru eignir hinnar svokölluðu bráðafúadeildar, sem starfað hafði frá 1958, teknar og lagðar í Aldurslagasjóð og hugsað að við bættist verulega frá Tryggingasjóði fiskiskipa. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er ekki ánægður með að það sé eiginlega þegjandi og hljóðalaust horfið frá þessum ágæta ásetningi. M.ö.o.: ef einhvers staðar eru til peningar eru þeir bara hrifsaðir þegar menn eru komnir í harðan hnút til að geta haldið áfram útgerð í þessu landi, sem er undirstaða atvinnulífsins.

Í 2. gr. þessa frv. segir: „Einnig er Olíusjóði fiskiskipa heimilt að taka lán að fjárhæð allt að 30 millj. kr. Ríkissjóði er heimilt að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir láni þessu.“

Hver er staða Olíusjóðs? Hvaða möguleika hefur hann til þess að endurgreiða þetta lán? Af hverju var ekki skrefið stigið til fulls og ríkissjóður tók lán sem það lagði í þennan olíusjóð í þessu augnamiði? Ég er alveg sammála því, að öðru leyti sem ráðh. sagði varðandi þetta. En ég hefði talið, að þetta hefði verið miklu hreinna og ákveðnara. Hvenær á Olíusjóður að borga þetta lán, nema að falla að einhverju leyti frá sinu hlutverki, því sem honum er ætlað?

Hitt er svo annað mál, sem maður kann illa við að blanda inn í Olíusjóðinn, hækkun fiskverðs. Það væri kallað hálfgert klúður að vera að bæta þarna við grein. En það er nú vegna brbl. um efnahagsaðgerðir sem þetta klúður verður til, því að í 3. mgr. 1. gr. þeirra laga segir, að „þegar verð á þeim fisktegundum, sem tilgreindar eru í tilkynningu Verðlagsráðs sjávarútvegsins nr. 11/1982, er ákveðið í fyrsta skipti eftir 1. sept. 1982, skal meðalhækkun á verði þeirra fisktegunda ekki vera meiri en nemur hækkun verðbóta á laun eftir 1. sept. til þess tíma, er fiskverðsákvörðun tekur gildi, að teknu tilliti til 1. mgr. þessarar greinar.“ Þá var ætlun ríkisstj. að ganga lengra gagnvart sjómönnum en öllum öðrum, þegar lögin voru gefin út 21. ágúst, og þar fóru saman hagsmunir útgerðarmanna og sjómanna, að olían héldi áfram að hækka. Eins og hæstv. ráðh. gat um var hlutfall olíunnar komið í tæplega 25%, svo að það var ekki óeðlilegt að viðbrögðin yrðu hörð.

Ég segi fyrir mitt leyti: Ég hef aldrei verið talsmaður þess eða stutt það að fara út í hörð, ósanngjörn verkföll launþega eða stöðvun atvinnutækja. Ég held að það eigi alltaf að vera keppikefli allra aðila að til þess eigi ekki að koma og menn eigi að sýna á þann hátt eins mikla sanngirni og frekast er unnt að sýna. En mér hefur verið sagt að það hafi verið gefið mjög ákveðið undir fótinn um verulega hækkun olíu, en verið snúist þannig við þessari yfirlýsingu að olían hafi litlu síðar hækkað og þá hafi allt farið í bál og brand, sem allir vita og ég ætla ekki frekar að gera hér að umræðuefni. M.ö.o.: í sambandi við þetta frv., eins og það liggur fyrir, er mér það ljóst að hér er um samkomulag að ræða hvað snertir 1. gr., sem aðilar sjávarútvegsins ganga inn á í ítrustu neyð til þess að ekki stöðvuðust öll atvinnutæki í landinu, en mér er þessi leið ákaflega ógeðfelld og kemur þvert ofan í, sem ég var með á þeim tíma sem ég var sjútvrh., breytingu á útflutningsgjaldinu frá 16. febr. 1976, ef ég man rétt dagsetninguna.

Hin atriðin mega koma og koma vafalaust til athugunar í þeirri n. sem fær frv. til meðferðar, sjútvn., sem ég á sæti í, og ég fæ þess vegna tækifæri til að fjalla nánar um það.

Hæstv. ráðh. gerði margt að umræðuefni í sinni ræðu og m.a. olíuverðið og þá sér í lagi gasolíuverðið. Og hann kom inn á þá miklu skuld, sem er við innkaupajöfnunarreikning, sem hann sagði að væri nú um 44 millj. kr. fyrir utan það lán sem tekið var á árinu 1979 að upphæð 30 millj., og þessi lán eða þessar skuldir gerðu 8% hækkun á olíunni. Þetta er eitt af þeim mörgu dæmum sem við gætum nefnt um þær aðgerðir sem hafa verið gerðar á undanfórnum árum í efnahagsmálum og í verðlagsmálum — aðgerðir sem voru gerðar á sínum tíma með því að taka lán til að koma í veg fyrir um litla stund hækkun á olíu. Þessar aðgerðir eru núna að koma okkur í koll. Og þetta eru ekki einu aðgerðirnar sem þessi stjórn hefur gripið til. Stjórnin sem var á undan henni tók líka — (ÓÞÞ: Bretaviðskiptin eru dýr, Matthías.) Var lánið tekið vegna Bretaviðskiptanna 1979? (ÓÞÞ: 50 millj.) Það er ekki ónýtt fyrir ríkisstj. að hafa þennan hagfræðing.

Þetta er afleiðing af rangri stefnu. Þetta er afleiðing af því að vera að fela verðbólguna, ljúga því að þjóðinni hvað eftir annað að verðbólguhraðinn sé ekki nema þetta og þetta, eins og 40% 1981, þegar gengið var sett fast, þegar þeir drukku kaffið, ráðherrarnir, á gamlársdag 1980. Þá var þetta patent tekið upp: Nú festum við gengið. Okkur varðar ekkert um hver verðbólgan verður. — Og það var gert. Að vísu urðu þeir að láta undan síga tvisvar — þrisvar sinnum. En hvað kostaði það útflutningsatvinnuvegina? Hvað kostaði það bæði sjávarútveginn og iðnaðinn og landbúnaðinn? Töluverður hluti af þeim erfiðleikum sem eru í dag eru fyrir þá heimsku sem þá óð uppi. Svo koma þessir menn og segja: Ja, hvaða úrræði hefur stjórnarandstaðan? — Það getur engin stjórnarandstaða haft úrræði á takteinum við öllum vitleysunum sem gerðar eru af þessari ríkisstj. á meðan hún er við lýði. Hversu dugleg sem hún væri, þá hefði hún ekki við. Þetta er eitt af því sem þessi stjórn hefur unnið sér til skammar og öllum hugsandi mönnum til skapraunar. Svo eru bankarnir teknir og skammaðir fyrir allt of mikil útlán. Það er alltaf verið að tala um útlán bankanna. Það er búið að gera bankakerfið þannig, að allir bankarnir, bæði ríkisbankar og aðrir, skulda orðið stórfé í Seðlabankanum, að einum banka undanskildum, sem á nokkrar milljónir enn þá. Og svo um leið og bankarnir eru skammaðir fyrir of mikil útlán biður ríkisstj. þá um að lána enn þá meira í þetta og hitt! En þó held ég að það taki nú út yfir allt að ætla að verja 165 millj. kr. af tekjuafgangi Fiskveiðasjóðs til að létta greiðslubyrði útgerðarinnar. Ráðh. lýsti því réttilega og sagði það alveg satt og rétt, að þessi gróði væri að vísu ekki til nema á pappírnum. Þá á að létta þessa greiðslubyrði á pappírnum! En það vita allir, að stærsti stofnlánasjóður sjávarútvegsins hefur tekið á sig svo miklar skuldbindingar, bæði vegna innlendu skipasmíðinnar og vegna innflutnings skipa á undanförnum árum, sem hann er að taka smám saman við á mörgum árum, að það er ekki hægt að segja að staða sjóðsins sé slæm, hún er alveg hryllingur. Það væri nú gaman að hæstv. sjútvrh. léti einhverja góða reiknimeistara gera rekstraráætlun fyrir skip sem núna er verið að byggja og kosta kannske upp undir 100 og jafnvel 110 millj. kr. Það væri gaman að sjá hvað það skip þyrfti að fiska mikið til að standa undir sínum skuldbindingum. Fyrir hálfu öðru ári var líka áætlun gerð, miðuð við allt annað verðlag, sem var miklu, miklu lægra en nú, og þá var talið að svona skip þyrfti að fiska að mig minnir um 17400 tonn. Ætli það verði þá mikið undir 24 þús. tonnum sem þessi nýju skip þyrftu að fiska — eða ef við ætlum að miða við raunveruleikann, hvað skip fiska almennt, hvað er meðaltalið, hvað þyrfti það fiskverðið að vera til þess að þau stæðu undir sér? Þetta væri nú fróðlegt að fá upplýsingar um. Ég veit að hæstv. sjútvrh. er röskur maður og fljótur að taka ákvarðanir og hefur mörgum á að skipa og ég vænti þess að hann geri nú þetta fyrir ágætan vin sinn og þingbróður að láta gera þessa rekstraráætlun.

Ég verð nú að segja eins og er, að mér finnst eiginlega hálfleiðinlegt alltaf að hlusta á þessar tölur um halla eða útkomu í hinum ýmsu greinum, bæði í sjávarútvegi sem annars staðar, og útreikninga Þjóðhagsstofnunar, sem eru framreikningar. Þessir framreikningar hafa í raun og veru ákaflega lítið að segja og gefa okkur langt frá því þá mynd sem við þurfum að fá. Þegar við lítum til baka, til áranna við skulum segja 1974 –1975, — þá voru mikil erfiðleikaár, verðfall á velflestum mörkuðum, útlendingar tóku upp undir 50% af þeim afla sem veiddur var hér við land, — sjáum við að var ljótt útlit í þessum framreikningum. En með tilkomu nýrrar fiskveiðilögsögu og yfirráðarétti Íslendinga sjálfra batnaði auðvitað stórlega hagur bæði veiða og vinnslu, eins og eðlilegt er og allir skilja. Sama má segja um það, að á árunum 1979, 1980 og ekki síst árið 1981 vantar enn í framreikning Þjóðhagsstofnunar þann mikla halla sem bæði útgerð og fiskvinnsla hafa orðið að bera í stóraukinni skuldasöfnun. Það kemur hvergi inn í þennan framreikning. Þess vegna er útkoman mun verri að svo miklu leyti sem aflinn hefur ekki vaxið fram yfir það, og hann óx þó verulega, einkum á s.l. ári. — Og það er auðvitað alger óþarfi hjá bæði hæstv. ríkisstj. og öðrum að tala um almennan aflabrest. Þetta ár verður annað eða þriðja besta aflaárið í sögu þjóðarinnar hvað snertir botnfiskaflann. Hins vegar er það rétt, að loðnustofninn hefur hrunið gersamlega. Kannske hefði nú ekkert verið betra ástandið núna miðað við hvernig afurðaverði loðnunnar er háttað, að koma henni í verð, og útgerð skipa og afkomu sjómanna, en það er nú lán í óláni, að þegar slíkt ástand er skuli þurfa að beita loðnuveiðibanni og um það deilum við ekki. Vitaskuld væri ósanngirni af mér að viðurkenna ekki að þetta er áfall. Við höfum aftur á móti auknar síldveiðar, við höfum aukið ýmsar aðrar veiðar verulega, en þetta er áfall sem verður auðvitað að viðurkenna. En ég kann illa við að tala um aflabrest þegar annað eða þriðja besta þorskveiðiár er í sögu þjóðarinnar. Ég held að guð refsi þjóðinni ef hún er svona vanþakklát við þau gjöfulu fiskimið, sem við búum við, og vara við þessu tali.

Hæstv. ráðh. minnti hér á nefnd, sem Alþingi kaus í lok síðasta þings til að gera úttekt á atvinnumálum þeirra byggðarlaga þar sem loðnuvinnsla hefur verið veruleg með hliðsjón af þeim breyttu viðhorfum sem hrun loðnustofnsins hefur valdið. Niðurstöður þessarar nefndar ásamt tillögum um aðgerðir átti að leggja fyrir ríkisstj. eins fljótt og unnt var. Þessar tillögur voru lagðar fyrir ríkisstj. 19. júlí í sumar Það var bráðabirgðaskýrsla um athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins og tillögur til úrbóta. Þessir aðilar gerðu sér miklar og bjartar vonir um að á þessu máli yrði tekið og að fjármagn fengist til að lána þeim til þess að bregðast við þessum erfiðu aðstæðum. Þeir bentu á einn sjóð, Byggðasjóð. Það virðast nú flestir benda á, ef einhvers staðar er komið í óefni, að þessi sjóður eigi að leysa úr, og vitaskuld er hlutverk hans að leysa vandamál hinna einstöku byggðarlaga og atvinnulífs, en það hefur nú skeð, að framlög til þessa sjóðs hafa verið skorin niður mjög verulega á undanförnum árum. Þar við bætist erfið efnahagsstaða þeirra sem sjóðurinn hefur lánað. Það fara að því er ég best man um 2/4 úflána til sjávarútvegs, þó allra mest til fiskiskipa. Afborganir og vextir greiðast bæði seint og illa og það er í sífellt ríkari mæli verið að beita skuldbreytingum í þessum sjóði. Á þann hátt minnkar ráðstöfunarfé hans mjög verulega. Það er því alveg um tómt mál að tala að gefa ávísun á þennan sjóð til lausnar þessum mikla vanda á þessu ári a.m.k. og sömuleiðis fram eftir næsta ári. Það væri líkt því og að gefa út tékka á innistæðulausan reikning. Það fengist ekkert út úr því því að þarna eru ekki til fjármunir, enda ekki við því að búast. En þá er komið að því, að vitaskuld er það ríkisstj., sem er framkvæmdaaðili og hefur tekið við áliti þessarar þingkjörnu nefndar, sem verður að gera tillögur um fjárútvegun í þessu skyni og þá jafnframt að marka einhverja tímasetningu, hvenær þessi lán ættu að koma til útborgunar.

Ég hvorki vil né get talað fyrir hönd Byggðasjóðs eða Framkvæmdastofnunar í þessu máli, en ég get sagt það fyrir mig persónulega, sem á þar sæti í stjórn, að það mun ekki standa á mér að greiða atkv. með öllum þessum skuldbreytingum og ef ríkisstj. óskar þess og tryggir að taka lán til útlána í þessu skyni, þá mun sömuleiðis ekki standa á mér að verða við óskum ríkisstj. En þannig stendur þetta mál nú, að engir fjármunir eru til til þess að koma til móts við þær verksmiðjur og þá staði sem eru nú í miklum vanda. Mér dettur ekki í hug að gagnrýna einn eða annan fyrir að þessi vandi verður til. Þar er ekki við neinn að sakast, en þarna verður auðvitað að bregðast við af karlmennsku og dugnaði og menn snúi þar bökum saman.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég segja það, að ég tel sjálfsagt og eðlilegt að athuga og kanna þetta frv. vel í þeirri nefnd, sem því er vísað til, og fá jafnframt ítarlegar og betri upplýsingar, en ég held mér mjög fast við þá skoðun mína, að brbl. um efnahagsaðgerðir hefðu átt að koma á undan þessu frv. og verða því samhliða, sem og önnur þau frv. sem ríkisstj. hét að kæmu fram í kjölfar brbl. Þó að það sé ekki á verksviði hæstv. sjútvrh. sérstaklega, þá er hann sterkur aðili í núv. ríkisstj. Þá langar mig að síðustu að spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvað líði 1. gr. í yfirlýsingu ríkisstj. „Að undangengnum frekari viðræðum við aðila vinnumarkaðarins“, segir þar, „verði tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun, með hliðsjón af hugmyndum viðræðunefndar um vísitölumál, þannig að verðbætur á laun verði greiddar samkv. nýju viðmiðunarkerfi eftir 1. des. 1982.“ Ég trúi því ekki að þetta frv. eigi ekki að sjá dagsins ljós fyrr en eftir að verðbótaskerðingin á laun er komin til framkvæmda 1. des. Ég tel að í framhaldi af þessari yfirlýsingu beri ríkisstj. að leggja þegar í stað fram þetta frv. eða þá segja að hún sé uppgefin á því, ef svo er. Þetta væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um frá hæstv. ráðh., sem hlýtur að þekkja mjög vel þessi mál þar sem hann er einn af þríeykinu í ríkisstj. sem fjallar um efnahagsmálin.