30.11.1982
Sameinað þing: 23. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

60. mál, rafvæðing dreifbýlis

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur hér fengið. Í sjálfu sér kemur mér það ekki á óvart því að vissulega brennur þetta mál á mönnum. Ég get staðhæft það að a.m.k. við þm. sem úr dreifbýlinu komum finnum vissulega fyrir þessu máli.

Ég vil aðeins þakka hv. 11. landsk. þm. fyrir umfjöllunina og varðandi það sem hann spurði um, hvort það væri virkilega alvara á ferðum í þessu máli, vil ég segja honum það eitt fyrir mig — og ég vil meina að það sé eins með þá meðflm. mína — að við erum ekki að þessu að gamni okkar. Það er vissulega alvara á ferðum og við erum ákveðnir í að standa við það sem við höfum hér sagt. A.m.k. get ég talað fyrir mig, ég hef ekki eytt tíma þessarar virðulegu stofnunar til að tala um einskis nýta hluti. Þegar ég hef komið hér upp, þá hef ég yfirleitt meint það sem ég segi og ég geri það hér enn.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson fjallaði nokkuð um þetta mál. Ég verð að segja það, að ég hrökk nú hálfvegis við í fyrstu, þegar ég heyrði í honum tóninn, en svo lagaðist þetta allt saman. Ég er viss um, eins og kom hér fram hjá einhverjum rétt áðan, að við munum eiga samleið, enda hélt ég að við gætum átt samleið í þessu máli. Í mínum huga skiptir það ekki nokkru máli þó að orkuráð hafi fjallað um þetta árið 1975 og ég ætla ekki að fara að metast um það hér hvað var gert og hvað menn sögðu hér einhvern tíma áður fyrr. Ég vil að við horfum fram í þessu máli og hættum að kýta um það sem var. Við skulum heldur reyna að einbeita okkur að því að leysa þau mál sem fram undan eru.

Ástæðan fyrir því að ég vitna í þessari till. til samþykktar orkuráðs frá 14. apríl 1982 er einfaldlega fundargerð, sem ég hafði undir höndum, fundargerð orkuráðs frá 14. apríl 1982, þar sem talin eru upp þau býli sem eru innan þess ramma sem till. segir til um, sem sé innan þessara 6 km. Það er ástæðan fyrir því að ég vitna til þeirrar samþykktar. Svo getur vel verið að það hafi verið búið að samþykkja þetta árið 1975 og svo kannske ætíð síðan. Það bara skiptir mig ekki nokkru máli. Ég vona bara að menn fari ekki að tefja sig á slíku.

Það er einnig rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari, að ég velti vissulega mikið fyrir mér hvort hér ætti að segja: með eins vírs línu, eða hvort við ættum bara að segja: að ljúka þessari sveitarafvæðingu, eða hvort við ættum að segja: með þriggja fasa línu. Vissulega var það kitlandi að segja: að ljúka þessari sveitarafvæðingu. En ég skal vera fullkomlega hreinskilinn: þá hefði ég ekki verið að segja það sem ég meinti. Staðreyndin er sú, að ef við ætlum að leggja þetta með þriggja fasa línu, þá verður þetta ekki gert á tveimur árum. Það er alveg rétt, sem kom hér fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóni Árm. Héðinssyni, að við erum auðvitað að reyna að raða niður framkvæmdum, og mér er í jóst að það er svo gífurlegt fjármagn sem þarf til að gera þá hluti, að það er ekki inni í kortinu í dag, eins og ég sagði hér í framsögu minni, að vera þá að tala um tvö ár. Hins vegar er það mín meining að rafvæðing þessara býla skipti höfuðmáli og eigi að þjóna þeim í flestum eða a.m.k. í langflestum tilfellum. Ég hygg þess vegna að það hafi verið skynsamlegur kostur að binda þetta við þessa vegalengd. Og ég tel líka að það sé framkvæmanlegt að gera þetta á tveimur árum.

Svo vildi ég benda á að í skýrslu orkuráðs, sem ég vitnaði þarna til, er tekið fram að það er ekki alls staðar átt við eins vírs línu, það er ekki alls staðar, svo að ég held að menn þurfi að athuga það betur. En við skulum ekki fara að þrátta um það. Það er held ég ekki verulegt ágreiningsatriði í málinu.

Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson minntist á hvað það væru margir bæir sem væru eftir utan við samveitu þegar þessi býli hefðu verið tengd. Ég held að ég hafi skilið það rétt. Ég held að það sé rétt að það séu um 25–30 býli. Og ég held meira að segja að hæstv. iðnrh. hafi getið um það hér áðan. Hv. þm. var að velta því fyrir sér hvernig við ætluðum að leysa það og las einmitt niðurlag þessarar þáltill., þar sem við leggjum til að gerð verði grein fyrir hvernig að því skuli staðið. Það er um ýmsa kosti að velja. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason minntist t.d. á eina leið, sem ég held að sé ástæða fyrir okkur að gefa meiri gaum en gert hefur verið, þ.e. með vindorku, og reyna hugsanlega að nýta hana. Það kemur vissulega mjög til greina þarna að einhverju leyti.

En ástæðan til þess að við leggjum ekki til í till. að allir bæir landsins fái sterkari línu, eins og mér fannst Þorvaldur Garðar nefna hér áðan, er einfaldlega kostnaðurinn við að framkvæma þetta verk. Við höfum ekki næga peninga. Ég held að við verðum að stilla framkvæmdum í hóf. Mér finnst þetta þess vegna, eins og ég hef áður sagt, skynsamlegur kostur.

Mér fannst einnig hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, 4. þm. Vestf. segja: Orkuráð leggur til skemmri tíma. Það getur vel verið að orkuráð leggi til skemmri tíma, en mér er þá bara ókunnugt um það. Og í sjálfu sér skiptir það mig ekki nokkru máli hvort orkuráð leggur til skemmri tíma. Í till. er miðað við tvö ár og ég hef rökstutt vegna hvers. Ég segi það, að þetta hefur tekið þó þennan tíma að þoka þessum málum áleiðis, og þegar sagt er hér og nú að þetta skuli gert á einu ári, finnst mér að það sé kannske um eitthvert yfirborð að ræða. Þá er ekki um raunhæfan kost að ræða að mínu mati.

Að endingu vil ég þakka hæstv. iðnrh. innlegg hans í þessar umr. Ég efast ekki um áhuga hans á því að þetta mál nái fram. Ég vil aðeins geta þess, vegna þess að hér var vikið að Byggðasjóði og leitað hefði verið til hans á seinasta ári til að ljúka rafvæðingunni, að mér er kunnugt um það. Ég á sæti í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, og þetta kom einmitt á borð okkar og Framkvæmdastofnun ríkisins samþykkti, eins og hér hefur komið fram, að óska eftir heimild til erlendrar lántöku til að ljúka þessu verki. En það fékk ekki náð fyrir augum ríkisstj. Ríkisstj. vildi ekki fallast á að Byggðasjóði yrði veitt heimild til lántöku til þessara framkvæmda, því miður. En menn verða að átta sig á því að það gengur ekki upp að stjórnvöld óski eftir stórkostlega miklum fjárframlögum frá Byggðasjóði á sama tíma sem framlög til Byggðasjóðs fara stórum minnkandi. Kostir Byggðasjóðs voru í þessu tilviki ekki aðrir en samþykktin varð. Hins vegar get ég sagt það hér að menn voru einhuga í þessu máli og vildu vissulega vinna að framgangi þess.

Ég þakka mönnum hér fyrir undirtektirnar og ég vonast til þess að málið fái jákvæða afgreiðslu.