02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það er gaman að því að umr. um þessa fsp. hv. 1. þm. Vesturl. skuli fara fram á 50 ára afmælisdegi sjálfvirks síma á Íslandi og þá sé verið að ræða um hvaða ráð eigi að finna til að jafna símakostnað milli byggða eftir að búið er að vera sjálfvirkt ódýrt símasamband á Reykjavíkursvæðinu í 50 ár.

Það komu sérstakar upplýsingar fram í ræðu hæstv. samgrh. Það var í fyrsta lagi yfirlýsingin frá Pósti og síma um að gjald „hnútstöðva“ væri ákvarðað af rn. Ráðh. vildi ekki viðurkenna að raunverulega væri það ákvarðað öðruvísi en samkv. tillögum Pósts og síma. Okkur hefur verið sagt að vandamálin í kringum „hnútstöðvar“ væru ekki beinlínis hvernig ákveða skyldi gjald, heldur væri þarna um erfiðleika í tækni að ræða. Ráðh. upplýsti það reyndar. En „hnútstöðvar“ eru beinlínis notaðar, hafa verið notaðar undanfarandi og eru notaðar, til að leggja sérstök gjöld á sérstök svæði. Ég vil nefna dæmi. T.d. var sunnan Skarðsheiðar sett upp „hnútstöð“ í Lambhaga til að hægt væri að innheimta sérstakt gjald af svæðinu, viðskiptasvæði Akraness. Þetta er að mínu mati mjög merkilegt og sérstakt. Þegar undan því er kvartað er einhverjum tæknibúnaði kennt um og þá í öðru lagi rn., en ekki stofnuninni sjálfri. Það sem ráðh. sagði um að póst- og símamálastjórnin væri að stinga sér undan að svara sjálfsögðum hlutum eins og þessum með því að vísa á einhverja aðra er því ekki út í bláinn. Þetta er allt of algengt í þessari stofnun. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Aðeins eitt atriði. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Helgi Seljan nefndi hér áðan um lokun stórra landssímastöðva frá kl. 5 á föstudagskvöldi til kl. 9 á mánudagsmorgni. Slík þjónusta, þegar verið er að fala um að bæta þjónustuna úti um landið, er fyrir neðan allar hellur. Það er langt frá því að hægt sé að tala um að bæta þjónustu þegar ekki er hægt að senda samúðarskeyti, heillaskeyti eða hafa nein viðskipti við þessi stóru svæði í meira en tvo sólarhringa. Það er á allt annan veg. Það hlýtur að vera krafa allra að þessi þjónusta verði tekin upp á nýjan leik og einnig út frá því sjónarmiði, sem hv. þm. Helgi Seljan benti á áðan, að veita sjálfsagða þjónustu við gesti og aðkomumenn í byggðarlögum.