02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans og einnig þær undirtektir sem hér hafa komið fram, sem sýna mikilvægi málsins frá fleiri sjónarhornum.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að mér finnst svörin, sem hæstv. ráðh. lýsti hér, frá Pósti og síma vera mjög flókin og ófullnægjandi. Ég hélt satt að segja að komin væri það mikil tækniþekking að ekki væri hún til trafala. Raunar hefur þessi stofnun sýnt og sannað að hún býr yfir mikilli tækniþekkingu og möguleikum til að beita henni. Þess vegna finnst mér furðulegt að ekki skuli vera hægt að fá einfaldari svör við þessu en fram hafa komið og ákveðnari tillögur um hvernig megi bæta. Þá á ég ekki aðeins við svar stofnunarinnar til hæstv. ráðh., heldur einnig samtöl við einstaka þm. og aðila á þeim svæðum sem um er að ræða.

Á svæði ekki langt frá Reykjavík var haldinn borgarafundur um þessi mál, þar sem allir íbúar svæðisins mættu og tæknimenn Pósts og síma einnig, og þessi mál voru rædd frá sjónarhóli neytandans. Í stuttu máli sagt fengust ekki þau svör sem beðið var um. Þetta tel ég mjög miður því að kjarni málsins er sá, að aðalatriðið er náttúrlega að við njótum þeirra framfara, sem eru á þessu verksviði, sem eru gífurlega miklar og örar. Við eigum að nota það sem lið í því stefnumarki í fyrsta lagi að sjálfvirkur sími komi um allt landið og í öðru lagi að jöfnuður verði gerður. Ég tek undir það, sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Suðurl., að auðvitað er það aðalatriðið í fyrstu lotu að jafna hinn mikla mismun sem er á milli innanbæjar- og langlínusamtala.

Ég geri ráð fyrir að flestir hv. þm. hafi fengið bréf frá starfshópi talsímavarða í landinu, sem lýsa mjög skilmerkilega þeim breytingum sem hafa orðið í þjónustu Pósts og síma, sem eru spor aftur á bak miðað við það sem áður var. Nokkrir hv. þm. hafa fjallað um þetta og ég ætla ekki að endurtaka það hér. Þetta er mjög vel rökstutt í áliti starfshópsins, sem allir hv. þm. hafa fengið í hendur, og þarf ekki neinu við það að bæta. En ég tel að einmitt málefni þessarar mikilvægu stofnunar, Pósts og síma, skipti okkur öll, alla þjóðina, svo miklu að mjög mikilvægt sé að málin séu rædd fyrir opnum tjöldum og þessi stofnun geri sér grein fyrir því að henni ber skylda til að lofa þjóðinni að fylgjast með því hvernig mál hennar þróast. Hún á ekki að vera lokuð stofnun. Hún er í þjónustu okkar allra og öll þjóðin er sammála um að nýta tækniþekkingu hennar til að fá fullkomna þjónustu á þessu sviði. Að því eigum við að stefna og erum allir væntanlega sammála um það.

En ég vil endurtaka þakkir mínar um leið og ég vænti þess að hæstv. samgrh. stuðli að því að þessi mál verði tekin föstum tökum. Ég bendi einnig á þáltill., sem liggur hér fyrir þinginu, um breytt gjaldskrársvæði póst- og símamálastofnunar, ef það gæti orðið liður í því að ná því marki sem við erum allir sammála um að ná í þessu máli.