02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er varðandi 2. lið þessarar fsp. að ég vildi leggja á það áherslu að ekki verður hjá því komist að endurskoða þær reglur sem gilda um gjaldtökuna. Ég vil nefna um það eitt dæmi.

Það hefur verið mikið óánægjuefni á Austurlandi að það var ein símstöð á Héraði, stöðin á Eiðum, og að hringja frá henni til Egilsstaða, sem er ekki nema um 11 km leið, er mun dýrara en t.d. að hringja héðan úr Breiðholti ofan í miðbæ. Hvað um það. Á næsta ári verður kominn sjálfvirkur sími þar í öðrum sveitum, sem eru í mun meiri fjarlægð, og það verður miklu ódýrara að hringja þaðan. Komin er stöð í hálfa sveit þar og það er mun dýrara að hringja úr sveitinni til Egilsstaða en innan Egilsstaða, en á næsta ári kemur væntanlega sjálfvirkur sími í hinn hlutann af sveitinni og þá kostar sama að hringja úr þeim hluta sveitarinnar til Egilsstaða og innan Egilsstaða. Það verður jafnvel allt annað gjald fyrir að hringja á milli bæja innan sömu sveitar. Þarna yrði náttúrlega komið í algert öngþveiti, sem ekki er hægt að verja. Menn verða að breyta til áður en þetta ástand skapast t.d. á þessu svæði. Það þarf að skipta landinu niður í þjónustusvæði og félagssvæði. T.d. er Fljótsdalshérað eitt þjónustusvæði. Það verður að vera sama gjald innan þessa þjónustusvæðis. Þetta vantar, en verður að gera með skipulegum hætti. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. beiti áhrifum sínum gagnvart Póst- og símamálastofnuninni til að svo verði.