02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs hér fyrst og fremst vegna aths. hv. þm. Alexanders Stefánssonar varðandi bréf, sem fyrir liggur hjá þm., um stöðu talsímavarða og þá þjónustu sem póst- og símamálastjórnin er nú að afleggja í tengslum við sjálfvirku stöðvarnar. Að vísu hafði ég ákveðið að hafa um það samstarf við aðra þm. utan af landi að þetta mál yrði tekið sérstaklega fyrir til umr. hér í þinginu, en af því að það hefur borið hér á góma, þá vil ég undirstrika þetta atriði, að þrátt fyrir vottfestar yfirlýsingar af hálfu yfirstjórnar Pósts og síma um það, að ekki yrði minnkuð þjónusta við landsbyggðina í sambandi við sjálfvirku stöðvarnar og að gömlu starfsfólki yrði ekki sagt upp vegna þessarar breytingar, hafa þessi fyrirheit verið berlega svikin, samtímis því sem fyrir okkur liggja mál sem varða minnkandi þjónustu Pósts og síma á sviði öryggismála.

Hér liggur fyrir til umr. fsp. — sem síðar kemur náttúrlega fyrir þó of seint verði fyrir þann þm. sem fsp. ber fram, ef að líkum lætur — frá hv. þm. Tryggva Gunnarssyni varðandi lestur veðurfrétta fyrir sjómenn. Einnig er okkur kunnugt um það, að símamálastjórnin hefur í því skyni — að eigin sögn — að draga úr útgjöldum trassað — og ég mun finna þeim orðum mínum stað þegar eftir verður leitað — trassað öryggisþjónustu á loftskeytastöðvum og radíóstöðvum í kringum landið, svo að við stórslysum hefur legið, ef svo mætti ekki vera að beinlínis stórslys hefðu orðið af á seinni árum, undir því yfirskini að verið væri að draga úr kostnaði. Ég vil aðeins í sambandi við þær umr. sem hér fara fram koma að þeirri skoðun minni, að Póstur og sími, þessi umfangsmikla stofnun, var ekki til þess ætluð fyrst og fremst að standa undir sér fjárhagslega, heldur að halda uppi lífsnauðsynlegri þjónustu með sem minnstum kostnaði.