02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég held að póst- og símamálastjórnin hljóti að vera þeim vanda vaxin að svara fyrir sig. Ég vil þó vekja athygli á einni staðreynd. Þeir hafa æ ofan í æ kvartað yfir því að ekki sé mögulegt að hafa hér á landi sjálfvirkan almenningssíma, t.d. í Reykjavík og í Hafnarfirði. Væri það ekki sómasamlegt átak af hálfu Alþingis að veita ákveðna fjárhæð til áróðurs svo að þessi tæki fengju að vera í friði og þjóna mönnum, eins og hv. þm. eru hér að tala um, að þessi öryggistæki séu til og m.a. sé komið upp svona símum í nokkrum fiskiplássum fyrir komandi vertíð, gerð tilraun með 4–6 tæki, og athugað hvort þeir fái að vera í friði í þágu þeirra manna sem eru að biðja um þá. Það þekkja allir hv. alþm. að út um alla Evrópu, Ameríku og víðar eru almenningssímar látnir í friði af því að almenningur finnur hvers virði þeir eru. En hér á Íslandi og meira að segja í næsta nágrenni lögreglustöðvarinnar í Reykjavík fær svona öryggistæki ekki að vera í friði. Póst- og símamálastjórnin hefur vakið aftur og aftur athygli á þessari staðreynd, en samt sem áður er sjálfvirki almenningssíminn brotinn niður.