02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

64. mál, umferðaröryggisár

Sveinn Jónsson:

Herra forseti. Af sérstökum ástæðum hef ég haft nokkur afskipti af því máli, sem hér er til umfjöllunar, og get ekki látið hjá líða að koma hér aðeins inn í þessa umr.

Það er rétt um margt það, sem fram kom hér hjá hæstv. ráðh., að að undirbúningi þessa máls er nokkuð vel staðið. En það vekur þó athygli manna að hér virðist seint hafa verið af stað farið. í því sambandi vil ég vekja athygli á því að þegar við hófumst handa um undirbúning þessa í byrjun þessa árs, þá var undirbúningur þegar vel á veg kominn í nágrannalöndum okkar er taka þátt í þessu einnig. Það er því spurning mín til hæstv. ráðh. hvaða ráðh. það er, sem sæti hefur átt í norrænni ráðherranefnd, sem hefur að tillögu Norðurlandaráðs ákveðið að við skulum taka þátt í framkvæmd þessa verkefnis hér á landi, og hvers vegna það hefur ekki verið gert fyrr, að umferðarráði væri komið af stað við undirbúning þessa. Og ég vil lýsa furðu minni á því að það skuli aðeins hafa fengið 100 þús. kr. fjárveitingu til að undirbúa málið á yfirstandandi ári, þegar það hefur þó beðið um 500 þús. kr., sem mér finnst þó samt sem áður hafa verið nokkuð hógvær beiðni.

Sömuleiðis furða ég mig á að því skuli ekki hafa verið liðsinnt með því að sinna beiðni þess um 1 500 þús. kr. sérstaka fjárveitingu vegna þessa verkefnis fyrir næsta ár, að aðeins skuli vera 500 þús. kr. inni í frv. til fjárl. fyrir árið 1983.

Það er ótrúlegur kostnaður, sem hlýst af umferðarslysum hér á landi á hverju ári. Árið 1980 er hann talinn hafa numið um 202 millj. gkr. og varlega áætlað er talið að kostnaðurinn árið 1982 verði 500 millj. kr. Á sama tíma ætlum við að verja sérstaklega til þessa verkefnis 100 þús. kr. Á næsta ári má áætla að kostnaður vegna umferðarslysa verði 750 millj. kr., og þá ætlum við aðeins að veita 500 þús. kr. sérstaki framlag til að taka á því alvarlega máli sem hér er um fjallað, en það eru óhöpp og umferðarslys, sem hafa kostað ótalin mannslíf. Ég vil nefna það sérstaklega í þessu samhengi að við undirbúning H-dagsins 26. maí 1968 var kostað til fræðslu á núvirði 7.3 millj. kr. að því er ég hef fengið upplýst hjá umferðarráði. Og það er hlægilegt til samanburðar ef umferðarráð á ekki að fá 1.5 millj. kr. á næsta ári til undirbúnings norræna umferðaröryggisársins.