02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

64. mál, umferðaröryggisár

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann hefur hér veitt við þessari fsp. minni en ég verð jafnframt að láta í ljós nokkur vonbrigði með innihald þess svars eða þeirra svara sem frá honum komu og frá umferðarráði komu vegna þess að mér þykir augljóst, eins og raunar kom hér fram hjá hv. þm. Sveini Jónssyni, að hér hefur verið seint af stað farið, a.m.k. með undirbúninginn hér innanlands og það kann vel að vera og er áreiðanlega rétt, sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði hér áðan, að við undirbúning þessara mála hafa fulltrúar Íslendinga lagt ýmislegt gott til mála, en það hefur bara ekki náð hingað heim ennþá. Það hefur gerst á fundum einhvers staðar erlendis en þær tillögur hafa ekki náð hingað heim.

Ég held að það sé auðvitað forsenda þess að eitthvað gerist í þessum málum að umferðarráð fái nokkurt fjármagn til ráðstöfunar, og beri ekki að skera það við nögl eða telja eftir. Hins vegar held ég líka að umferðarráð hafi brugðist og ekki staðið í stykkinu sem skyldi um ýmislegt sem því ber að gera, eins og t.d. að hvetja til notkunar bilbelta. Það hefur lítið farið fyrir því nema nm verslunarmannahelgina kannske einna helst. Í öðru lagi, held ég, að umferðarráð hafi ekki beitt sér sem skyldi við að efna til samstarfs félagasamtaka um þessi mál og virkja félagasamtök í landinu sér til hjálpar í þessum efnum til að vinna að þessu lífshagsmunamáli. Ég nefni þar Slysavarnafélag Íslands, ég nefni þar klúbbana Öruggur akstur og það má nefna margvísleg fleiri frjáls félagasamtök sem áreiðanlega mundu reiðubúin og fús að leggja sitt af mörkum í þessu efni. En mér finnst tillögur umferðarráðs góðar svo langt sem þær ná — en þær eru allt of seint á ferðinni og skal ég ekki fara nánar út í þá sálma hvað kann þar að valda. En betra er seint en aldrei, eins og þar stendur, og vonandi á þetta eftir að takast vel og bera tilætlaðan árangur sem er auðvitað meginatriði.

Hér hefur verið minnst á útvarp og sjónvarp og víst gæti þáttur sjónvarps og þeirra ríkisfjölmiðla verið mikill á þessu sviði en ég verð því miður að segja að þar hefur mér ekki fundist ríkja sá áhugi á þessum efnum sem ætti að vera — og raunar ber ríkisútvarpinu sem stofnun lagaskylda til þess því að það á að veita fræðslu um umferðarmál. Ég get nefnt það að í útvarpsráði hef ég flutt tillögur um að fluttir verði þættir í sjónvarpi um hjólreiðar, sem hafa margfaldast hér á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu, þættir annaðhvort fengnir frá Norðurlöndum, þar sem þeir eru á boðstólum, eða ef þeir fengjust ekki — þeir eru fáanlegir, — gerðir sérstakir þættir um hjólreiðar til að benda á þær hættur, sem þar bíða vegfarenda. Á þessu hefur ekki reynst eða virst vera áhugi. Þetta hefur a.m.k. ekki fengist í gegn. Ég hef sömuleiðis lagt til að í auglýsingaþáttum sjónvarpsins verði sýndar stuttar kvikmyndir, einkanlega ætlaðar ungum börnum, sem mikið horfa á auglýsingar, þar sem varað væri við hættunum í umferðinni. Þetta hefur heldur ekki náð fram að ganga og þykir mér það afar leitt. Þetta eru aðeins örfá dæmi um það sem þarna mætti gera. En ég vil að endingu ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir svör hans og vona að þetta megi vel takast.