02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

83. mál, nýting á smokkfiskstofninum

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans og finnst mér þau að öllu leyti fullnægjandi við þeim spurningum sem ég hef lagt hér fram.

Í sambandi við þær upplýsingar sem ég hef fengið um smokkfiskgöngu núna á Breiðafjarðarmiðum get ég að vissu leyti ekki fullyrt um það magn, en allmargir sjómenn hafa sagt mér að þeir hafi orðið þarna varir við smokkfisk. Við einn talaði ég sem reyndi veiðar með gömlu aðferðinni og hann sagði að eftir því sem hann þekkti til hefði hann verið sæmilega vel við. Annað get ég ekki sagt um þetta. En ég er hissa á að Hafrannsóknastofnun ef hún hefur á annað borð fylgst með eftir því sem ráðh. sagði, skuli ekki hafa vitað um þá göngu sem þarna hefur ábyggilega verið í sumar. Vera má að sú ganga hafi alls ekki verið það stór að hægt hefði verið að beita þeim aðferðum sem um er rætt nú, þ.e. að dæla, eða það hafi alls ekki verið eins mikið magn og oft og tíðum var hér á fyrri árum þegar smokkurinn gekk á miðin.

Það sem ég sagði um Sovétmenn og Norðmenn varðandi veiðileyfi á Jan Mayen-miðum var að ég taldi mig hafa heyrt í útvarpsfréttum að þetta hefði verið einn þátturinn í samningi Norðmanna og Rússa um veiðiheimildir á norðaustursvæðinu. Aftur á móti hefur þetta ekki komið fram, í blaðafréttum, sem ég hef lesið af þessu, þannig að þetta er frekar lausafrétt en ég sé að slá neinu föstu.

Við erum að kaupa smokkfisk af Norðmönnum, Færeyingum og Dönum. Er þá kannske ekki mjög til athugunar hvort íslensk skip yrðu styrkt til þessara tilraunaveiða á öðrum miðum en kannske alveg uppi í landsteinum okkar Íslendinga, hvort það væri ekki leið að fá heimild Færeyinga, sem við semjum við um önnur veiðiréttindi, til að fiska smokk á þeirra miðum, ekki eingöngu til að ná í þessa fiskitegund, heldur einnig til að afla okkur tækni og kunnáttu svo við séum tilbúnir til veiða ef þessi fisktegund kemur á Íslandsmið?