20.10.1982
Neðri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

26. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er náttúrlega ýmislegt sem hægt er að ræða í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil í upphafi máls míns aðeins vekja athygli á því, að hæstv. sjútvrh. svaraði í engu þeim fsp. sem beint var til hans í sambandi við framlagningu einstakra mála á þinginu nú í vetur og út af þeim ummælum, sem hann hefði um viðræður ríkisstj. við stjórnarandstöðu um efnahagsmál eða önnur mál, er því við að bæta að náttúrlega eru litlar forsendur fyrir slíkum viðræðum ef ríkisstj. veit sjálf ekki hvað hún ætlar að gera. Það er auðvitað forsendan fyrir því að hægt sé að tala um málin að ríkisstj. geri upp eigin hug. Það er skylda ríkisstj., ef hún vill sitja, að gera það. Hæstv. sjútvrh. ber ábyrgð á málefnum útgerðarinnar og hann hlýtur þess vegna að leggja sig fram um að veita einhverjar upplýsingar um hvernig hann hyggst standa að útgerðinni, þegar þeir peningar hafa gengið til þurrðar sem hér er fjallað um í sambandi við niðurgreiðslur.

Ég vil í upphafi aðeins leiðrétta þau ummæli sjútvrh., sem hann viðhafði hér fyrr í dag, að fulltrúi útgerðarinnar hafi hafnað 20% fiskverðshækkun. Þetta er ekki rétt. Þetta hefur formaður Landssambands ísl. útvegsmanna leiðrétt þrásinnis, en hæstv. sjútvrh. heldur sig við sama heygarðshornið. Ég held að það verði hver og einn að meta það og vega eftir þeirri reynslu sem hann hefur af ummælum þessara tveggja manna hvor segir satt, hæstv. sjútvrh. eða formaður Landssambands ísl. útvegsmanna. Ég fyrir mitt leyti er ekki í vafa um það, enda sýnir rekstraryfirlit Þjóðhagsstofnunar, sem gefið var út eftir fiskverðhækkunina 1. sept. s.l., að 4% fiskverðshækkun þá úr 16 í 20% hefði litlu breytt um afkomu útgerðarinnar. Og eins og hæstv. sjútvrh. veit manna best varaði Seðlabankinn ríkisstj. sérstaklega við því, þegar brbl. voru sett, að með þeim ráðstöfunum væri ekki tekið á vanda atvinnuveganna. Þetta liggur fyrir og er kjarni þessa máls.

Ég vil aðeins vegna þeirra ummæla hæstv. sjútvrh., sem ýmsir hafa nú hrakið hér, að við höfum orðið fyrir mjög verulegum aflabresti á þessu ári, vekja athygli á að í rekstraryfirliti Þjóðhagsstofnunar, þar sem fjallað er um minni skuttogara, munar 0.1 tonni á veiðidag. Aflamunurinn í ár og í fyrra, ef sami afli hefði veiðst í ár og veiddist í fyrra, miðað við það sem minni skuttogararnir fá eftir áætluninni 1. sept., er 0.1 tonn. Það er nú allt og sumt. Og hvort sem heldur yrði eru það aðeins tvö ár sem minni togararnir fá meiri afla en á þessu ári, þ.e. 1981 og 1980, og skakkar þó ekki miklu. Varðandi stærri togarana munar 0.2 tonnum sem hver þeirra fær minna í ár en ef sami afli hefði verið á úthaldsdag og í fyrra. Það er nú allt og sumt.

Þegar við tölum um vanda útgerðarinnar er það ennfremur mjög athyglisvert í sambandi við stöðu og hag hennar á s.l. ári, mesta aflaári sem yfir okkur hefur gengið, á ári þegar t.d. stærri togararnir öfluðu meira á úthaldsdag en nokkru sinni, bæði fyrr og síðar, að þá skuli það samt sem áður vera eina árið sem þeir eiga ekki eyri afgangs upp í fjármagnskostnað, ekki einn einasta eyri, ekki grænan eyri, og það er mesta aflaárið. Og síðan sagði hæstv. sjútvrh. áðan að ástæðan fyrir erfiðleikum útgerðarinnar núna væri minni afli. Þetta stenst ekki hjá hæstv. sjútvrh. Aflasældin í fyrra skilaði útgerðinni ekki því sem hann vildi gefa í skyn núna. En ef við á hinn bóginn rifjum upp það sem hæstv. sjútvrh. sagði í Tímanum í áramótagrein sinni kemur það í ljós að hann skildi a.m.k. þá að hann hafði staðið sig illa sem sjútvrh. á árinu 1981, þegar hann leit yfir farinn veg og sá að þetta ár hafði orðið neikvætt varðandi efnahag sjávarútvegsins, þó að það væri mesta góðæri sem yfir sjávarútveginn hefur gengið.

Ég skal svo að öðru leyti ekki hefja víðtækar umr. um útvegsmál, en aðeins varpa fram þeirri skoðun minni að Olíusjóður fiskiskipa eigi að koma inn í A-deild ríkisreiknings og að það eigi að meðhöndla hann sem slíkan, því að hér er að sjálfsögðu um hreina skuld ríkissjóðs að ræða. Þessi sjóður hefur engar tekjur. Honum er ætlað að greiða niður olíu um fjögurra mánaða skeið og þegar nýtt ár rennur upp hefur hann gufað upp eins og frá þessu er gengið. Ég tel þess vegna að þingnefnd eigi að ganga þannig frá þess máli að olíusjóðurinn komi inn í A-deild ríkisreiknings og verði skráður þar. Ég tel það bókhaldslega rétt og gefa réttari mynd af stöðu ríkissjóðs um áramót en ella mundi, þó að ég þykist hins vegar vita að sú hafi verið hugmynd ráðh. að halda sjóðnum utan við ríkisbókhaldið til þess að hafa fallegri skuldastöðu um áramótin.

Ég vil svo í öðru lagi draga það mjög í efa, að það standist skv. stjórnarskrá að með einföldum brbl. sé heimilt að taka fé úr Tryggingasjóði og verja til olíuniðurgreiðslna. Ég fæ í fljótu bragði ekki séð hvaða nauðsyn bar til slíkrar eignaupptöku. Sjútvrh. sagði að vísu í kringum mánaðarmótin ágúst/september í sjónvarpi að hann teldi ekki verjandi að standa undir niðurgreiðslum á olíu til fiskiskipa með almennri skattlagningu á meðan eitthvað væri til í sjóði h já útgerðinni. Og nú leitaði hann vel og lengi og fann Tryggingasjóðinn. — En það kom líka fram hjá hæstv. sjútvrh. áðan að hann skildi hvers vegna svo mikið væri til í þessum sjóði. Í fyrsta lagi hefðu menn á undangengnum góðærum, á því mikla aflaári í fyrra, ekki sótt um framlög úr Aldurslagasjóði eins og búast hefði mátt við og í öðru lagi hefði óvenjumikið komið inn. Þess vegna varaði hann við því að halda lengra út á þessa braut því að það gæti komið upp sú tíð að minna fiskaðist og þá gæti Tryggingasjóður fiskiskipa komist í vandræði. En hann taldi samt sem áður, og ég veit ekki hvernig hann komst að þeirri niðurstóðu, óhætt að taka þessar 30 millj., sem ég sé nú satt að segja ekki hvernig hægt er að réttlæta.