02.12.1982
Sameinað þing: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

101. mál, umferðarmiðstöð á Egilsstöðum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þegar ég kom hér fyrst inn á hv. Alþingi fyrir 11 árum og fór að hugleiða að flytja hér eitthvert mál, þá varð það úr að ég flutti till. í mjög líkum dúr og sú till. sem hér er til umfjöllunar, þ.e. um skipulagningu samgangna. Reyndar var þar ekki miðað við Austurland heldur vestursvæðið. Sú till. var samþykkt hér á hv. Alþingi vorið 1972, en því miður veit ég ekki til þess að nokkuð hafi verið gert af hendi þeirra sem við tóku, þeirra hv. ríkisstjórna sem hafa setið síðan, til þess að framkvæma eitt eða neitt af því sem þar var lagt til.

Nú er komið svo að hér eru tvær till. um svipað málefni, sem hníga að því að skipulagning samgöngumála verði tekin til sérstakrar athugunar.

Allt frá því á þriðja áratugnum eða jafnvel fyrr hafa sérleyfisbílar, rútur verið helstu fólksflutningatækin á landi fyrir almenning. En á sérstakri skipulagningu þessara samgöngumála hefur því miður borið ansi lítið. Það hefur t.d. verið þannig hér á vesturlandinu eftir að vegur opnaðist fyrir Hvalfjörð, að jafnvel fimm rútur hafa farið þá leið, flestar náttúrlega hálftómar, áleiðis upp í Borgarfjörð. Þar hafa síðan dreifst leiðir. Sumar fara vestur á Snæfellsnes, og þegar lengra er komið fara aðrar í Dali og norður yfir fjöll. Þá hafa sumar farið norður á Strandir og yfir á Vestfirði. Þarna þarf vitaskuld að taka til hendi og skipuleggja þessi mál miklu betur en gert er.

Ég tek undir flest það sem fram kemur í grg. og ræðu hv. flm. þessarar till., en ég tel að það sé vítt og breitt um landið sem þurfi að lita á þessi mál. Svo er einn sérstakur þáttur sem ég vildi sérstaklega nefna hér. Það er að koma upp aðstöðu á afgreiðslustöðum þessara rútubíla. Það er ekki til nein aðstaða fyrir farþega eða bilstjóra á neinum stað á landinu, svo ég viti til, nema hér í Reykjavík. Og sú aðstaða, sem hér var byggð upp, er að mínu mati mjög svo bágborin. Rúturnar eru afgreiddar undir beru lofti. Það er ekkert þak eða skjól fyrir farþega, þegar þeir þurfa að fara út úr rútum, hvað þá til þess að verja flutning þeirra og farangur.

Það hefur mikið verið talað um það á undanförnum árum að nauðsynlegt væri að byggja flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Það væri hálfgerð skömm fyrir Íslendinga að þar væri ekki almennilegt þak yfir þá gesti útlenda sem heimsæktu Íslendinga, og jafnvel að þetta væri ekki nógu gott fyrir Íslendinga sjálfa. En hvað er þá með alla þá farþega sem þurfa að ferðast með rútum hér á Íslandi? Aðstaðan er þannig, eins og ég sagði áðan, að hvort sem verið er að skipta um farartæki, koma út úr farartæki eða koma inn í farartæki, mega þeir búast við því í íslenskum veðrum að verða fyrir meira og minna hnjaski. Ég tel að þetta sé nauðsynlegra og jafnframt auðveldara mál fyrir okkur að leysa á sviði samgöngumála heldur en það stóra mál sem varðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, og að þetta skref ættum við að stíga áður en við förum að tala um að gera eitthvert stórátak þar. Á Keflavíkurflugvelli er þó þak yfir farþegana sem þurfa að komast í og úr rútu, en það er hvergi til við allt þjóðvegakerfið hringinn í kringum landið.

Einn þátturinn, sem tengist umræðu og afgreiðslu á málum sem þessu, er tenging milli landshluta. Ef við litum á leiðir sérleyfishafanna hér vestur um landið í Borgarnes og hugsum okkur að farþegi, sem er að koma vestan af Snæfellsnesi, hafi áhuga á að komast í rútu sem færi norður í land, þá eru held ég allar leiðirnar þannig að slíkur farþegi yrði að gista í Borgarnesi. Hann yrði að bíða eftir því að rútan kæmi að morgni til og flytti hann norður í land. Það er ekkert hugsað um að tengja þetta saman, þannig að farþegi geti raunverulega komist hvert á land sem er ef hann stígur upp í rútu að morgni. Þessi þáttur er að mínu mati ansi mikils verður. Góð skipulagning mundi leiða til þess að þessi góðu og öruggu farartæki okkar yrðu meira notuð en þau eru nú.

Ég lýsi svo ánægju minni aftur yfir því, að þessi góða till. skuli vera hér til umr., og vænti þess að hún verði samþykkt, svo og önnur till., sem við Vestlendingar erum með, um umferðarathugun í sambandi við Vesturland. Mætti það verða til þess að þessi mál yrðu tekin til meiri umfjöllunar en verið hefur síðustu 10 árin og jafnvel til þess að farið yrði að lita á það sem sjálfsagðan hlut að bæta aðstöðuna fyrir farþega og bílstjóra sérleyfisbilanna á þeim stöðum þar sem þeir þurfa að stoppa og afgreiða sína farþega og sitt hafurtask.