06.12.1982
Efri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

104. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég hef flutt hér ásamt hv. þm. Salome Þorkelsdóttur frv. til l. um breyting á lögum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins.

Eins og menn væntanlega þekkja hefur það verið nokkuð föst ven ja á síðari áratugum að leitast við að ná fram breytingum á áhersluatriðum í landbúnaðarmálum í gegnum lagakerfi landbúnaðarins. Þar má sérstaklega tilgreina breytingar á jarðræktarlögum, sem hafa verið gerðar nokkuð reglulega á 5–7 ára fresti og þá að sjálfsögðu með það að markmiði að auka áherslu á þá þætti í landbúnaðinum sem hafa verið taldir brýnastir hverju sinni. Þetta sama hefur verið haft í huga með breytingunum á búfjárræktarlögunum, sem reyndar hafa ekki verið eins tíðar, og reyndar líka með breytingum og endurskoðun á löggjöfinni um landnám, ræktun og byggingar í sveitum.

Aftur á móti hefur lögum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins ekki verið breytt í raun frá stofnun þeirrar löggjafar, sem var 17. des. árið 1966. Þótt þær heimildir, sem lögin þá byggðust á, væru ærið víðtækar, þá var þó megintilgangur með þeirri löggjöf að deila út ákveðnu fjármagni til vinnslustöðva í landbúnaði og var þessi löggjöf, að því er ég hygg, þá sett í tengslum við ákvörðun á búvöruverði og með tilliti til sérstaks samkomulags sem um þau mál var gert þá á milli bændasamtakanna og ríkisvaldsins. Hins vegar var verkefnum sjóðsins breytt árið 1979 með tilkomu þeirra breytinga sem þá voru gerðar á jarðræktarlögunum og sem síðar verður hér að vikið.

Það má því segja að með þessu frv. sé á vissan hátt farið inn á nýjar brautir. Það er horfið frá því að binda markmið í eins fastar skorður og jarðræktarlögin og búfjárræktarlögin og lögin um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, eru bundin við, en aftur á móti leitast við að efla Framleiðnisjóð landbúnaðarins með það að markmiði að hann geti eflt þau viðfangsefni í íslenskum landbúnaði sem eru í mestri þörf hverju sinni. Með hliðsjón af þessu hefur frv. að verulegu leyti verið endursamið og breytt þannig að til þessa horfs gæti það flust.

Ég mun nú fara hér yfir hverja grein fyrir sig og gera grein fyrir þeim breytingum sem þar er lagt til að upp verði teknar.

Í 1. gr. frv. er lögð á það áhersla að Framleiðnisjóður fái það verkefni að treysta búsetu og vinna gegn byggðaröskun í sveitum landsins. Er þá jafnframt lögð á það áhersla, að verkefni sem lúta að þessu markmiði hafi þar sérstakan forgang. Að öðru leyti eru heimildirnar skilgreindar í fjórum töluliðum:

1. Að efla hvers konar viðleitni er leiði til hagræðingar og aukinnar framleiðni í landbúnaði.

2. Auðvelda samræmdar aðgerðir til að draga úr framleiðslu- og dreifingarkostnaði búvara.

3. Auðvelda landbúnaðinum að aðlaga framleiðsluna þörfum þjóðfélagsins miðað við markaðsaðstæður utanlands og innan.

4. Efla nýjar búgreinar, hlunnindi og önnur þau verkefni er stuðla að fjölþættari atvinnu í sveitum landsins.

Í 2. gr. er gerð sú breyting að þessi verkefni eru færð í ríkara mæli til bændasamtakanna en verið hefur. Það er gert með því, eins og frv. gerir ráð fyrir, að Búnaðarfélagið tilnefni tvo menn í stjórn sjóðsins, Stéttarsamband bænda tilnefni tvo menn, en landbrh. skipi einn mann, sem jafnframt sé formaður Framleiðnisjóðs. Sú breyting, sem hér er horfið að, felst í því að Framkvæmdastofnun ríkisins tilnefndi áður einn mann og eins Búnaðarbankinn.

Ég tel þessa breytingu ákaflega mikilvæga. Hér eru bændasamtökunum sjálfum fengnar ríkari skyldur, enda kemur nú fjármagnið meira frá þeim sjálfum en áður var, en þó er hins vegar tryggt að fyrir hendi séu eftir sem áður fullkomin tengsl við stjórnsýsluna í þessu landi, þar sem formaðurinn á að vera tilnefndur af landbrh.

3. gr. skýrir sig í meginatriðum sjálf. Þó er vert að leggja á það áherslu, að í b-lið er kveðið á um að gerð verði sérstök áætlun til þriggja ára þar sem kveðið sé á um helstu verkefni sem leggja beri áherslu á.

4. gr. er svo sá þáttur frv. sem fjallar um tekjur sjóðsins. Þar er í fyrsta lagi lagt til að sú skipan haldist, sem verið hefur, að fast framlag verði til sjóðsins á fjárlögum hvers árs.

Í öðru lagi skal gjald á söluvörur og þjónustu landbúnaðarins verða einn af tekjustofnum sjóðsins. Hér er lagt til að búvörugjaldið, sem hefur gengið til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, verði að hálfum hluta fært til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og með tilliti til þess er lagt hér fram líka frv. til breytinga á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það liggur í augum uppi að sú gjaldtaka í því formi sem er er orðin úrelt. Þau rök sem sú gjaldtaka byggist á eru ekki lengur fyrir hendi. M.a. hefur Búnaðarþing fjallað um þetta atriði og þar hefur það komið greinilega fram að ekki væri hægt að fallast á áframhaldandi gjaldtöku af búvörum með sama hætti og verið hefur nema aðeins örfá ár til viðbótar og þá í sérstöku tilefni, eins og ég mun að sjálfsögðu skýra þegar um það frv. verður fjallað.

Svo er í þriðja lagi framlag úr ríkissjóði sem nemur tvöföldu búvörugjaldinu.

Í fjórða lagi eru svo aðrar tekjur, vaxtatekjur og aðrar fjárveitingar, ef til staðar verða.

Það er kannske vert að skýra aðeins nánar 3. liðinn og hvernig sú tala er fengin. Eins og áður hefur verið minnst á og umr. hafa átt sér stað út af hér á hv. Alþingi var árið 1979 gerð sú breyting á jarðræktarlögunum að framlögin eins og þau voru að meðaltali árin 1978 og 1979 skyldu ganga inn í fjárlög hvers árs fyrir sig verðtryggð. Auk þess voru gerðar aðrar breytingar á jarðræktarlögunum og þá sérstaklega þær, að það voru teknar upp heimildir til að skerða lögboðin framlög. Þetta fjármagn átti síðan að leggja grundvöll að nýrri uppbyggingu á sviði landbúnaðar, bæði er varðaði nýjar búgreinar og hvers konar aðra hagræðingu.

Nú hefur það komið í ljós, og reyndar kom það fljótlega í ljós, að af hálfu ríkisvaldsins hefur ekki verið við þetta staðið. Þetta sparnaðarfé átti að nema árið 1980 4.68 millj. og það má segja að þá hafi það skilað sér í meginatriðum. Árið 1981 nam það aðeins 4.84 millj. Þá átti það hins vegar að vera hér um bil helmingi hærra en það var. Árið 1982 átti það að nema 8.7 millj., en þá nam það aðeins 2.44 millj., næsta ári ætti þetta fjármagn að verða 13.68 millj., en eins og fjárlagafrv. er núna er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu í þetta og raunar minna en það því að það er ekki heldur þar til staðar fjármagn til að fjármagna jarðræktarlögin þó að skerðingin kæmi þar til frádráttar. Þannig liggur alveg ljóst fyrir, að þetta form til þess að fjármagna nýjar búgreinar og ný viðfangsefni í landbúnaði hefur gersamlega gengið sér til húðar. Aftur á móti er sú viðmiðun, sem frv. byggir tekjur sínar á að því er varðar 3. lið 4. gr., miðuð við þessi tekjuloforð og þar af leiðandi er þetta frv. að því er varðar útgjöld ríkisins einvörðungu byggt á þeim tekjustofnum sem hefðu átt að skila sér inn í þetta verkefni ef lögum hefði verið framfylgt og ef hefði verið staðið við gefin loforð í þeim efnum. Hér er boginn þess vegna með engum hætti spenntur meira en eðlilegt getur talist, nema þá ef menn vilja fallast á að sú ákvörðun, sem var tekin með breytingum á jarðræktarlögunum árið 1979, hafi verið óraunhæf.

Það kemur greinilega fram á 3. síðu, í töflu sem þar er birt, hvernig þetta hlutfall, 1:2, er fundið, en þar er, eins og ég sagði áðan, lögð til grundvallar hlutfallstalan á milli búvörugjaldsins og sparnaðarfjárins, sem hefði átt að koma í gegnum verðtrygginguna. Þriggja ára hlutfall er 1:1.97 í staðinn fyrir að frv. gerir ráð fyrir 1:2.

Það er að sjálfsögðu óþarft að fara nánar út í skýringar á þessu frv. Ég bendi í lokin á yfirlit yfir greiðslur vegna jarðræktarlaganna árin 1980–1982, sem er fskj. og prentað á 4. síðu. Eins og það ber með sér er það unnið af einum af jarðræktarráðunautum Búnaðarfélagsins, Óttari Geirssyni, og þar á ég ekki von á að í neinu sé réttu máli hallað.

Ég mun að sjálfsögðu skýra málið frekar eftir því sem umr. kunna að gefa tilefni til, en geri það að till. minni, herra forseti, að lokinni þessari umr. að málinu verði vísað til landbn.