06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

35. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég flyt hér öðru sinni frv. sem er í stuttu máli þess efnis, að viðhald, fasteignagjöld og iðgjöld af húseigendatryggingu á íbúðarhúsnæði til eigin nota verði frádráttarbært frá tekjuskatti. Þetta frv. var lagt fram á síðasta Alþingi, en varð ekki útrætt.

Við setningu tekjuskattslaganna var sú stefna mörkuð, að rekstrarkostnaður við íbúð viðkomandi skyldi ekki frádráttarbær við álagningu tekjuskatts. Síðan hefur verið horfið frá þessu varðandi leiguhúsnæði þannig að húsaleiga er nú frádráttarbær að hálfu. Þetta hefur skapað misræmi, ekki síst ef jafnframt er haft í huga að verulegu opinberu fé og vaxandi á ári hverju er varið til byggingar leiguhúsnæðis. Á sama tíma hefur hlutur húsbyggjenda versnað svo að einungis kjarkmenn ráðast í að reisa sér þak yfir höfuðið eins og nú er komið.

Ekki þarf að tíunda hversu mikið er í húfi fyrir samfélagið að íbúðarhúsnæði sé sómasamlega haldið við. Á þessu hefur orðið alvarlegur misbrestur varðandi hvers konar hús í opinberri eigu, íbúðarhús sem önnur. Frv. þetta, ef að lögum verður, stuðlar að því að einstaklingar haldi íbúðarhúsum sínum áfram vel við og séu forsjármönnum ríkiseigna til eftirdæmis hér eftir sem hingað til.

Frv. stuðlar m.ö.o. að varðveislu verðmæta, sem ekki veitir af á þessum síðustu tímum, um leið og það horfir til réttlætis. Þar sem þetta hvort tveggja fer saman er þess að vænta að málið nái fram að ganga á hinu háa Alþingi. Ég gerði mér vonir um að þessi yrði niðurstaðan á síðasta Alþingi. Þá náði þetta frv. að vísu að komast til n., en aldrei úr fjh.- og viðskn. Vil ég nú fastlega vonast eftir því að nm. í þessari virðulegustu n. Nd. sýni lítillæti og leyfi deildinni að fjalla um málið við 2. umr. svo að fram komi hver sé vilji hennar varðandi þetta atriði.

Ég vil í þessu sambandi rifja það upp til viðbótar að stórfelldar skemmdir hafa m.a. orðið vegna alkalíhvarfa í sementi, sem veldur mörgum húseigandanum þungum búsifjum. Þá er ennfremur því við að bæta, að fjármagn allt er orðið miklu dýrara en áður var og vextir vegna viðhalds eru ekki frádráttarbærir samkv. skattalögum nú eins og áður. Það er að vísu rétt að vextir hvað endurbætur varðar eru frádráttarbærir, en endurbætur eru ekki viðhald og í frvgr. er talað um viðhald. Húseigandinn hefur enga möguleika til að létta af sér þeirri byrði að einum né neinum hluta sem í viðhaldi felst. Þetta er orðið mjög tilfinnanlegt á tímum verðtryggingar og lækkandi launa og ég tel nauðsynlegt að þarna verði komið til móts við húseigendur.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. um.. og fjh.- og viðskn.