06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

119. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit. Eins og sjá má eru tvö mál á dagskrá Nd. sem heita nákvæmlega sama nafninu. Þau eru þó ekki með sama efnisinnihaldi og vegna þess hversu efni þeirra er óskylt og óvíst að þau hljóti sömu viðtökur eða sömu meðferð á þinginu þótti réttara að flytja þau sitt í hvoru lagi þannig að deildin ætti auðveldara með að ákveða hraða málsmeðferð hvors máls fyrir sig.

Það mál sem ég mæli nú fyrir er svokallað tollkrítarmál. Þetta mál var flutt á hv. Alþingi fyrir einu ári, þ.e. á seinasta Alþingi. — Það er nokkuð mikið sagt að heilt ár sé liðið síðan það var flutt. Það var flutt á vor- eða vetrarþingi á þessu ári. Þá var málið flutt í hv. Ed. Nokkrar gagnrýnisraddir heyrðust þá þess efnis, að eðlilegra væri að flytja þetta mál fyrst í Nd. þar sem ýmsir áhugamenn í stjórnarandstöðu um þetta mál ættu sæti þar. Hef ég tekið þá ábendingu til greina og flyt nú málið í Nd. En það er skemmst af að segja að Ed. afgreiddi málið ekki í fyrra.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að heimilt sé að veita greiðslufrest á tollum af vörum sem fluttar eru til landsins. Ákvæði þetta kemur skýrast fram í 4, gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðh. er heimilt að ákveða með reglugerð eða öðrum fyrirmælum að greiðsla aðflutningsgjalda af vöru skuli fara fram innan ákveðins tíma frá komudegi hennar til landsins eða hún sett innan sama tíma í tollvörugeymslu, sbr. lög nr. 47/1960 um tollvörugeymslur o. fl., og skal frestur þessi ekki vera lengri en sex mánuðir. Ráðh. er heimilt að undanþiggja einstaka vöruflokka tollafgreiðslu innan þessara tímamarka. Í reglugerð getur ráðh. ákveðið að leggja skuli viðurlög við því ef skyldum samkv. ákvæðum reglugerðar settrar samkv. þessari mgr. er ekki fullnægt, svo sem stöðvun tollafgreiðslu til hlutaðeigandi aðila.“

Í 5. gr. segir að ráðh. geti með reglugerð eða öðrum fyrirmælum heimilað tollstjórum að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum af innfluttum vörum, en að heimildina megi takmarka við innflytjendur sem flytja inn vörur í atvinnuskyni, þar á meðal umboðsmenn þeirra og miðlara, svo og innflytjendur sem stunda framleiðslu vara eða viðgerðarþjónustu í atvinnuskyni og flytja inn aðföng til starfsemi sinnar. Í þessari grein segir einnig að heimildina megi binda því skilyrði að innflytjandi sanni með fullnægjandi hætti að aflað hafi verið þeirra leyfa sem lög kunna að áskilja varðandi heimild til atvinnurekstrar og innflutningur hans á næstliðnu ári hafi að magni eða verðmæti náð tilteknu lágmarki.

Ég bendi sérstaklega á þá fyrirvara og þær takmarkanir sem felast í þessum heimildum vegna þess að ljóst er að útilokað er að taka upp tollkrít og veita þar með greiðslufrest á aðflutningsgjöldum yfir alla línuna, til allra innflytjenda í einu. Slíkt skref yrði allt of stórt og nánast óviðráðanlegt bæði fyrir ríkissjóð og fyrir tollayfirvöld. Þess vegna er ljóst að greiðslufrestur verður ekki veittur nema í mörgum áföngum og að liðnum töluverðum undirbúningstíma frá því að lögin eru sett.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að lögin komi til framkvæmda 1. jan. 1984 eða eftir rúmt ár, en í frv. eru einnig heimildir og áform um að framkvæmd laganna komi til á löngum tíma. Ég geri því ráð fyrir að það verði aðeins stærstu innflutningsaðilarnir sem njóti þessa til að byrja með og einnig að það verði sett það skilyrði að menn séu annaðhvort með allan sinn innflutning í þessu kerfi eða ekkert af honum.

Einnig er ljóst, að þegar fram í sækir verða eftir sem áður settar þær takmarkanir að menn þurfi að stunda innflutning að ákveðnu marki og ákveðnu magni til að geta öðlast þau réttindi sem í væntanlegum heimildarlögum felast.

Ástæðan til þess að varlega verður að fara af stað er auðvitað einfaldlega sú, að hér er um mjög viðamikið mál að ræða, sem er flókið í framkvæmd, en einnig hitt, að ríkissjóður verður fyrir verulegu tekjutapi á því ári sem lögin koma til framkvæmda og það verður því að fara mjög varlega í að láta þessa nýju framkvæmdatilhögun bitna á fjárhag ríkissjóðs og dreifa áhrifum hennar á lengri tíma, væntanlega á mörg ár.

Einnig er ljóst að peningamagn í umferð eykst eitthvað við að tekinn er upp greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum. Það er sem sagt þeim mun meira peningamagn í umferð sem nemur veittum greiðslufresti og ef ekki er farið hóflega í sakirnar getur framkvæmd laganna verkað verðbólguhvetjandi nema full varúð sé viðhöfð.

Ég hef gert grein fyrir meginatriðum þessa máls. Ég efast ekki um að þessi tilhögun að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, felur í sér hagræðingu í kerfinu, sparnað að vissu marki, og á því framtíðina fyrir sér. En ég tel einsýnt að framkvæmdarörðugleikar séu það miklir að menn megi ekki fara of geyst í að taka upp þetta nýja fyrirkomulag. Satt best að segja hygg ég að flestir séu sammála um þetta og geri sér fulla grein fyrir því að ekki er hægt að taka upp þetta nýja kerfi í einni svipan.

Herra forseti. Ég sé þá ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég flutti raunar miklu ítarlegri framsöguræðu um það á seinasta þingi, þegar það var flutt hér í fyrsta sinn sem stjfrv., og sé þar af leiðandi ekki ástæðu til að hafa þessi orð alveg jafnmörg nú, auk þess sem ítarleg grg. fylgir frv. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.