06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

119. mál, tollheimta og tolleftirlit

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það mun hafa verið vorið 1980 sem þetta mál bar á góma hér á hv. Alþingi og þá kom fram sú yfirlýsing af hálfu bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að von væri á frv. um tollkrít þá um haustið eða haustið 1980, fyrir rúmum tveimur árum. Síðan gerðist harla litið í málinu. Loks kom að því að hæstv. fjmrh. skipaði nefnd í þetta mál, en þá höfðum við nokkrir hv. alþm. flutt frv. til breytinga á tollskrárlögum og lögum um tollheimtu og tolleftirlit. — Herra forseti. Er það almennur siður hjá hæstv. ráðh. að fara út úr fundarsal þegar rætt er um mál sem kemur þeim við (Gripið fram í: Þeirra eigin frv.) og þeirra eigin frv.? (Forseti: Ég skal láta ná í ráðh.) Er ekki rétt að ég geri hlé á ræðu minni þangað til hann kemur inn?

Herra forseti. Nú sé ég að hæstv. ráðh. er kominn aftur í fundarsalinn. Af því að það er verið að ræða mál sem hann er flm. að þykir mér rétt að hann fái tækifæri til að hlusta á þau sjónarmið sem koma frá stjórnarandstöðunni.

Ég rifjaði það sem sagt upp að nokkrir þm., þ. á m. hv. þm. Matthías Á. Mathiesen og sá sem hér stendur, fluttu frv. um þetta efni. Nefnd sem hæstv. ráðh. skipaði vann síðan að þessu máli og skilaði áliti fyrir rúmu ári eða nánar tiltekið í sept. 1981, ef ég man rétt. Mjög var ýtt á störf nefndarinnar vegna þess að það var gert ráð fyrir því, eins og formaður nefndarinnar gat um og kemur fram í skýrslunni, að þetta frv. ætti að verða að lögum um áramótin 1981/1982. Frv. var síðan lagt fram í Ed., eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., en þar var nokkur fyrirstaða við málið. Formaður hv. fjh.- og viðskn. þeirrar deildar taldi að fyrirstaðan hefði orðið til þess að málið frestaðist og ekkert varð frekar að gert. Þeir sem einkum mótmæltu því að frv. yrði að lögum voru menn úr röðum iðnaðarins, sem heimsóttu nefndina og höfðu fyrirvara fyrir sitt leyti.

Upp úr síðustu áramótum lenti hæstv. ríkisstj. í vandræðum vegna efnahagsmála, en slíkt hefur verið árviss viðburður hjá þessari hæstv. ríkisstj. og reyndar hafa slík mál komið upp miklu oftar. Það gerðist eftir síðustu áramót að hæstv. forsrh. flutti hér á Alþingi skýrslu frá ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum og má finna þá skýrslu í skjali nr. 290 frá síðasta Alþingi. Í þessari skýrslu segir svo, með leyfi forseta:

„Lagt verði á sérstaki tollafgreiðslugjald við tollmeðferð vöru samkv. nánari reglum sem kynntar verða á næstunni. Greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum, svonefnd tollkrít, verður tekinn upp í áföngum frá næstu áramótum að telja, en því fyrirkomulagi er ætlað að stuðla að hagkvæmari innkaupum og almennri hagræðingu í innflutningsverslun. Jafnframt verða gerðar ráðstafanir til þess, að þessi breyting komi ekki niður á íslenskum iðnaði.“

Í þessari skýrslu er því sem sagt lofað að greiðslufrestur á tollum taki gildi frá og með næstu áramótum. Í frv. sem hér liggja fyrir er hins vegar gert ráð fyrir að tollkrít verði ekki tekin upp fyrr en um áramótin 1983/84.

En hæstv. ríkisstj. gerði meira en þetta. Hæstv. ríkisstj. lagði á nýjan skatt sem kallaður er tollafgreiðslugjald, og þegar sá skattur var lagður á var því haldið fram að hann væri fyrst og fremst lagður á vegna fyrirhugaðrar tollkrítar. Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðh. hve miklu þessi skattur hafi skilað ríkissjóði á yfirstandandi ári og hve miklum fjármunum sé gert ráð fyrir að hann skili ríkissjóði á næsta ári. Að þessu spyr ég fyrst og fremst vegna þess að þessi mál voru hnýtt saman. Tollafgreiðslugjaldið var sem sagt upp tekið vegna þess að fyrirhugað var að efna til tollkrítar. Það má finna orð sem féllu um þetta þegar þessi fjáröflunarleið var valin á sínum tíma.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. er einn megintilgangur þessara lagafrumvarpa að aðskilja annars vegar vöruflutning til landsins og hins vegar þá skjalameðferð, sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja vissum vöruinnflutningi, og að leggja, eins og gert hefur verið í flestum ef ekki öllum nágrannalöndum, ekki toll á slíkar vörur fyrr en um það bil sem ætla má að þær séu komnar til endanlegs notanda vörunnar.

Herra forseti. Ég lít svo á að það eigi að hraða því að þetta mál fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég tel ekki ástæðu til þess við 1. umr. að ræða einstakar greinar frv. Ugglaust má færa þær sumar til betri vegar, en ég legg jafnframt áherslu á að sérstaklega verði um iðnaðinn hugsað þegar þetta mál fær afgreiðslu hér á þinginu og vísa þá sérstaklega til aths. við frv. til l. um breyt. á lögum nr. 83 frá 1981, sem er 123. mál þessa þings og hæstv. ráðh. mælti fyrir fyrr á þessum fundi, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Nú stendur yfir heildarendurskoðun tollskrárlaga, en þar mun m.a. verða lagt til að felldir verði niður að meginstefnu til tollar og önnur aðflutningsgjöld af hvers konar efnivöru til innlendrar framleiðslu. Verði þær tillögur lögfestar bresta forsendur fyrir gjaldtöku þessari.“

En þar, herra forseti, er vísað til gjaldtöku vegna innfluttra húsa.

Í trausti þess að hæstv. ríkisstj. vinni að þessu máli af fullum dug og komi til móts við þær þarfir iðnaðarins að leggja niður tolla af aðflutningi til íslensks iðnaðar lýsi ég því yfir að það mun ekki standa á Sjálfstfl. að koma því máli, sem hér hefur verið til umr., heilu í höfn sem allra fyrst.