06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

119. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég skal svara fsp. hv. þm. út af svokölluðu tollvörugjaldi, sem hann spurði um áðan. Hann tengdi saman þessi tvö mál, þ.e. annars vegar tollkrítarmálið og svo hins vegar álagningu tollvörugjalds. Þetta er á misskilningi byggt af hans hálfu, þó að sá misskilningur sé kannske ekki alveg ástæðulaus. Það er kannske eðlilegt að þessi misskilningur skuli vera uppi, enda er auðvitað um skyld mál að ræða. En staðreyndin var sú, að þegar tollvörugjaldið var lagt á í febrúarmánuði á þessu ári var gerð grein fyrir því til hvers andvirði þess ætti að renna. Það voru efnahagsráðstafanir ríkisstj. sem þá voru ákveðnar og fólust í niðurfærslu verðlags. Þær niðurfærslur voru bæði fólgnar í auknum niðurgreiðslum og lækkun aðflutningsgjalda og allt hefur þetta komið til framkvæmda, bæði stóraukning niðurgreiðslna á árinu og raunar niðurfærsla verðlags með lækkun aðflutningsgjalda á ýmsum tegundum vara, þar á meðal heimilistækjum hvers konar, sem hafa lækkað mjög verulega í verði á einu ári eins og margir þekkja. Ljóst var varðandi álagningu tollvörugjaldsins að væntanlegar tekjur af því áttu að renna til tiltekinna verkefna og gat því ekki blandast saman við það tekjutap sem ríkissjóður hugsanlega yrði fyrir vegna tollkrítarmálsins. Hitt er annað mál, að það má vel hugsa sér að í framtíðinni tengist þessi mál saman og að tollvörugjald sé lagt á fyrst og fremst til að fjármagna þann tekjumissi, sem ríkissjóður verður fyrir, og kannske má segja að það hafi öðrum þræði verið haft á bak við eyrað. En það er meira framtíðarspursmál og á þessu ári og hinu næsta tengjast þessi tvö mál ekki saman.

Í febrúarmánuði s.l., þegar tollvörugjaldið var lagt á, var gert ráð fyrir að það mundi skila ríkissjóði tekjum sem næmu um 53 eða 54 millj. kr. Þó var sú áætlun að sjálfsögðu tengd nokkrum óvissuatriðum, m.a. magni innflutnings og fleiri óvissum stærðum. Það liggur ekki fyrir á þessari stundu hvað tollvörugjaldið hefur skilað miklum tekjum á þessu ári. Það mun vafalaust ekki koma fram fyrr en ríkisreikningur fyrir árið 1982 hefur verið fullgerður, en eins og sakir standa blandast algerlega saman innheimtur tollur annars vegar og hins vegar tollvörugjald. Ég get því ekki svarað spurningu hv. þm. um hvað gjaldið hefur gefið, en það átti að gefa á árinu um 53 millj. kr. Svo má aftur sjá það í frv. til fjárlaga fyrir árið 1983 hvað gjaldið á að gefa á því ári. (FrS: Hvenær koma nýendurskoðuð tollskrárlög í frv.?)

Hv. þm. spyr hvenær vænta megi að ný tollskrá verði sett og þar með hvenær heildarendurskoðun tollskrárinnar verði lokið. Eins og ég gat um hérna áðan hef ég gert mér vonir um að heildarendurskoðun tollskrárinnar fari fram á næsta ári. Það er mjög mikil vinna sem liggur að baki endurskoðun tollskrárinnar. Sú vinna er í fullum gangi. Það er nefnd að störfum og ég hef gert mér vonir um að hún skilaði af sér á þessum vetri. Þó hef ég ekki nem trygg loforð nm. fyrir því að svo verði, en ákveðin áform hafa verið uppi um að það gæti gerst.

Ég vil loks taka það fram, að það hefur verið algerlega óraunhæft að gera ráð fyrir að endurskoðun tollskrár gæti farið fram án þess að áður væri búið að endurskoða vísitölugrundvöllinn sem í gildi er og ég held að engri ríkisstj. hafi dottið í hug að beita sér fyrir endurskoðun tollskrár án þess að fyrir lægi nýr vísitölugrundvöllur. Hvenær það verður er ekki fullákveðið, en vonir hafa staðið til að honum yrði komið á einmitt á þessum vetri.