06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

118. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um tollheimtu og tolleftirlit. Það frv. ber sama nafn og það mál sem var áðan til umræðu, en inniheldur allt annað efni, eins og ég hef þegar tekið fram. Ekki var talið hyggilegt að blanda þessum tveimur málum saman, enda eru þau óskyld.

Í þessu frv. má segja að aðalefnið sé að tollhöfnum er fjölgað. Tollhafnir verða 26 eftir þá breytingu sem hér er gerð tillaga um. Vantað hefur inn í upptalninguna á tollhöfnum nokkra staði sem lítil rök virðast fyrir að skildir séu eftir og hafðir út undan ef um tollhafnir er rætt. Þessir staðir eru Grundartangi, Rif á Snæfellsnesi og Grundarfjörður... (Gripið fram í.) Já, það er í fyrsta lagi Rif og Grundarfjörður á Snæfellsnesi, í öðru lagi Grundartangi í Hvalfirði, í þriðja lagi Skagaströnd og Dalvík og Þórshöfn á Norðurlandi. Enda þótt hafnir þessar séu ekki tollhafnir fer fram nokkur tollafgreiðsla á þessum stöðum og sums staðar allveruleg, þannig að hér er fyrst og fremst verið að lagfæra lög til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á búsetu í landinu á seinustu árum og gildir það einkum um staði eins og Grundartanga, Rif og Grundarfjörð. Þetta eru staðir sem hafa verið í örri uppbyggingu í seinni tíð. Sama gildir um Þórshöfn og raunar alla staðina. Hitt hef ég aldrei skilið, hvers vegna staðir eins og Skagaströnd og Dalvík voru skildir eftir þegar lögin voru sett á sínum tíma, en staðir af sambærilegri stærð hafðir með. Þetta er sem sagt leiðrétt nú og var sannarlega tími til kominn.

Með lögum nr. 41/1979 var landhelgi Íslands færð út í 12 sjómílur, eins og kunnugt er. En í 2. gr. þeirra laga er kveðið svo á að fullveldisréttur Íslands nái til landhelginnar, hafsbotnsins innan hennar og loftrýmisins yfir henni. Í 6. gr. laga um tollheimtu og tolleftirlit er tolllandhelgin hins vegar aðeins 4 sjómílur. Þetta er að sjálfsögðu ósamræmi sem þarf að leiðrétta. Í aths. við frv. að fyrrnefndum lögum segir að breytingar þessar muni fela í sér nauðsyn á breytingum á nokkrum lögum til samræmingar, þar á meðal á tollalögum. Hér er sem sagt lagt til að íslensk tollalögsaga fylgi jafnan landhelgi Íslands svo sem hún er afmörkuð í lögum þar um og taki breytingum eins og hún. Þá er lagt til í 2. mgr. 2. gr. að tekið verði fram að loftrýmið yfir fyrrgreindu landsvæði tilheyri tollsvæði ríkisins. Þetta er í fullu samræmi við 2. gr. laga nr. 41/1979 og gildandi þjóðarétt.

Í þessu frv. eru einnig nokkrar fleiri breytingar, sem flestar eru tæknilegs eðlis. Í 3. gr. er reynt að auðvelda eftirlit með gámaflutningum og í frv. eru líka hækkuð sektarmörk í samræmi við verðlagsbreytingu sem orðið hefur síðan lögin voru sett á sínum tíma. Sem sagt má segja að það frv. sem hér er til umr. sé meira tæknilegs eðlis. Þar er verið að breyta ýmsu til samræmis við þá þróun sem orðið hefur bæði í þjóðfélaginu sjálfu og í löggjöfinni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.