06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

118. mál, tollheimta og tolleftirlit

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns varðandi þau ákvæði sem getið er um í frv. þessu og varða áhafnir farskipa. Allt sem hann sagði er satt og rétt, en ég sé ekki ástæðu til, þótt ég hafi undir höndum samþykkt frá síðasta Sjómannasambandsþingi, að fara að fara með hana á þessum fundi. Ég tel að það geri sama gagn að senda þeirri nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, hana til frekari skoðunar.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. varðandi misræmið sem er milli manna sem teljast til áhafna þessara skipa og annarra sem koma til landsins. Bendi ég á, sem ekki kom fram hjá hv. ræðumanni, það gífurlega magn sem getur komið á hverju ári með einum manni sem ferðast oft til útlanda og aftur heim, en það er margfalt á við hlut þeirra manna sem vegna atvinnu sinnar fara nokkrar ferðir til og frá landinu og eru á verslunarskipunum. Þessi mál komu til mjög ítarlegrar umr. fyrir nokkrum árum á hv. Alþingi og ég minnti þá á misræmi þetta. Það hafði m.a. í för með sér að hæstv. þáv. dómsmrh., núv. hæstv. utanrrh., bauð öllum syndugum og saklausum að koma til sín og þá mundi hann leysa vandamál þeirra í sambandi við kjúklinga, kalkúna og annað þess háttar. Þó var ekki staðið við það því að að sjálfsögðu fellur sá hæstv. ráðh. undir íslensk lög eins og aðrir. — En þá var nákvæmlega það sama uppi á teningnum og nú er varðandi hin erlendu sendiráð. Íslenskir aðilar, sem koma til landsins, mega ekki koma með kjötvöru með sér, þótt hún sé fryst og þannig frá gengin að það er ekki nokkur hætta fylgjandi henni gagnvart íslenskum landbúnaði. Sama röksemd gildir náttúrlega alveg jafnt fyrir sams konar vöru sem kemur til sendiráðanna. Hún fer að sjálfsögðu til sendiráðsmanna sem eru búsettir víðs vegar um þéttbýlissvæði, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta vita allir. Það þýðir ekkert að komast framhjá því að tylliástæða er notuð til þess að fyrirbyggja að sjómenn geti nýtt sér þá aðstöðu sem þeir eru vissulega í og eiga siðferðilega fullan rétt á að mínu mati.

Hæstv. fjmrh. skildi ekki af hverju Skagaströnd og Dalvík hefðu ekki á sínum tíma verið talin með þeim kauptúnum sem heimild hafa til tollafgreiðslu og hann hefði ekki getað skilið það vegna þess, að mér skildist, að það væri mjög líkt á komið um íbúatölu þar og á öðrum stöðum sem teldust til tollhafna. Ég get upplýst hæstv. ráðh. um þetta mál. Mér sýnist ákvörðun um tollhafnir vera eðlileg afleiðing af því hvar skipin koma til landsins. Þau taka land þar sem heppilegast er fyrir þau að koma að landi og stefna þangað sem þau eiga erindi fyrst og fremst. Tollhafnir voru á sínum tíma valdar m.a. vegna þess hvers konar aðkoma var að þessum höfnum siglingarlega séð, bæði í sambandi við vitakerfi og siglingu að ströndinni. Þetta er skýringin á þessu.

En ég fagna því að fjölgun tollhafna skuli eiga sér stað og í raun fagna ég þessu frv. Ég heyrði að hv. 10. þm. Reykv. Friðrik Sophusson, varaformaður Sjálfstfl., gaf yfirlýsingu áðan um að það frv. sem hér var á undan til umr. mundi eiga hans stuðning og annarra sjálfstæðismanna hér í hv. Nd. Ég fæ ekki séð annað en ég sem þm. Sjálfstfl. geti fullyrt við hæstv. ráðh. að þetta frv. muni líka eiga greiðan aðgang hér í gegn. Tala ég þó ekki sem neinn ráðamaður í Sjálfstfl. En þetta segi ég þó með þeim fyrirvara að þær aths., sem hv. þm. sem talaði á undan mér hafði í ræðu sinni í frammi, verði teknar til greina og skoðað í nefnd hvernig verði komist framhjá þeim ómanneskjulegu reglum sem undirmenn hæstv. ráðh. í tollgæslunni hér í Reykjavík og nágrenni beita íslenska farmenn.