06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

130. mál, málefni fatlaðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar mál þetta var afgreitt úr félmn. á s.l. þingi, í n. sem ég átti sæti í, skrifaði ég undir nál. félmn. með fyrirvara. Þessi fyrirvari minn varðaði fyrst og fremst fjármögnunina við þetta frv. og þá till. sem félmn. gerði þar að lútandi. Till. félmn. var um 33 millj. kr. framlag miðað við verðlag 1. janúar 1982. Eins og frv. er lagt fram núna kemur fram að lagt er til að Framkvæmdasjóður fái til að standa undir þeim verkefnum sem lagt er til í þessu frv. að hann sinni 33 millj. miðað við 1. janúar 1983, þannig að þarna er auðvitað um skerðingu að ræða miðað við það sem félmn. lagði til. Ég fagna auðvitað þeim orðum hæstv. félmrh. að honum þyki þessi tala of lág og telji rétt, ef ég skil hans orð rétt, að leiðrétting fáist á þessu í meðferð frv. hér á Alþingi, enda er það svo, að þegar við lítum á fjárlagafrv. er lagt til að 38 millj. kr. renni í Framkvæmdasjóð öryrkja til að standa undir fjármögnun á ýmsum þjónustuþáttum að því er snertir lög um aðstoð við þroskahefta, en það er ljóst að með þessu frv. eru þau verkefni stóraukin sem Framkvæmdasjóður öryrkja á að standa undir.

Því er það nú eins og á s.l. þingi, að mín höfuðathugasemd við þetta frv. er sú fjármögnun sem ætluð er til Framkvæmdasjóðs öryrkja til að standa undir þessum verkefnum.

Þegar lög um aðstoð við þroskahefta voru samþykkt 1979 voru bundnar við þá löggjöf miklar vonir, enda hafði þjónusta við þroskahefta verið í algjöru lágmarki uns lögin voru sett 1979. Það hefur vissulega margt áunnist frá því að þau lög voru sett og töluverð uppbygging orðið í málefnum þroskaheftra, þó enn sé langt í land að þroskaheftir búi við viðunandi þjónustu.

Því er ekki að leyna, að margir sem að málefnum þroskaheftra vinna óttast að úr uppbyggingu fyrir þroskahefta geti dregið frá því sem átt hefur sér stað nú þegar Framkvæmdasjóði öryrkja og þroskaheftra er ætlað að fjármagna allar framkvæmdir í þágu fatlaðra að viðbættum Erfðafjársjóði, sem á að standa undir framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ef litið er til athugasemda með þessum frv. er ljóst að skilgreiningin á orðinu „fatlaður“ í frv. er mjög víðtæk, en þar segir svo á bls. 25, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessum lögum ná ákvæði þeirra til allra barna og unglinga, sem þroskast ekki eðlilega andlega eða líkamlega. Orsakir geta verið af margvíslegum toga, bæði meðfæddar og áunnar, og skipta ekki máli í þessu sambandi“.

Ennfremur segir hér, með leyfi forseta: „Fullorðnir, sem vegna andlegrar eða líkamlegrar skerðingar þurfa á sérstakri aðstoð og stuðningi að halda til að lifa við svipaðar aðstæður og venjulegt er talið í þjóðfélaginu, eiga rétt á þjónustu sem lögin fela í sér“.

Ljóst er af þessu að verkefnin sem Framkvæmdasjóður á að standa undir aukast stórlega, auk þess sem finna má í þessum frv. nokkuð marga nýja þjónustuþætti og nýjar stofnanir sem sjóðurinn á að fjármagna umfram það sem er nú í lögum um aðstoð við þroskahefta. Þrátt fyrir þetta er ekki hægt að sjá, eins og frv. er hér lagt fram, hvað sem verður í meðförum Alþingis á þessu máli, að framlög séu aukin frá því sem nú er. Í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að ef við bara miðum við lögin um aðstoð við þroskahefta og þau verkefni sem sjóðnum er þar ætlað að sinna eru samningsbundnar skuldbindingar sjóðsins á næsta ári yfir 40 millj. kr. Hér er ekki talið með framlag til greiningarstöðvarinnar eða ýmissa öryrkjasamtaka, sem Framkvæmdasjóðurinn hefur styrkt, svo sem Sjálfsbjargar á Akureyri og í Reykjavík, Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Blindrafélagsins o.fl. Ennfremur er vert að vekja athygli á því, að beiðnir er liggja fyrir sjóðnum um brýn verkefni og úrlausnarefni varðandi þjónustuuppbyggingu fyrir þroskahefta, og þá er eingöngu miðað við lögin um aðstoð við þroskahefta, eru um 135 millj. kr.

Ég tel rétt að vekja athygli á þessu, ekki síst vegna orða félmrh. Hann segir að það sé gagnslaust að setja inn tölu nema hún standist og sé raunhæf. En við verðum þá líka að setja löggjöf sem er raunhæf. Við megum ekki vera að vekja vonir hjá föttuðum sem ekki er hægt að standa við. Ef alþm. eru tilbúnir að setja löggjöf fyrir fatlaða, sem gefur fyrirheit um aukna þjónustu og uppbyggingu, hlýtur það að verða að fylgja að þm. séu tilbúnir að leggja til þess fjármagn að hægt sé að standa við fyrirheit sem í löggjöfinni felast um betri þjónustu við fatlaða. Því er það grundvöllur þess og forsenda að við sjáum betri framtíð fyrir öryrkja að þessari löggjöf fylgi aukið fjármagn til þess að hægt sé að standa við ákvæði frv. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því varðandi þessa löggjöf að við byggjum ekki upp alla þjónustu fyrir fatlaða eða þroskahefta á stuttum tíma, þetta tekur auðvitað langan tíma; en þegar við erum að setja nýja löggjöf fyrir þessa hópa verður að fylgja því viðbótarfjármögnun, þannig að við sýnum að við ættum virkilega að gera betrumbót í þessu máli.

Hæstv. félmrh. minntist á tillögur samráðsnefndar um málefni fatlaðra, sem lagðar hafa verið fram sem fylgiskjal með þessu frv. á bls. 40, en það eru brtt. við frv. frá þessum samráðshóp, sem ekki hafa verið, a.m.k. ekki á þessu stigi, teknar til greina í frv. sjálfu. Félmrh. hafði þau orð áðan, að hann ætlaðist til þess að félmn. skoðaði þetta mál og liti á þessar till. og tæki þá afstöðu til þess hvort þær brtt. yrðu teknar til greina og lagðar fyrir þingið. Það eru töluvert veigamiklar breytingar sem samráðsnefndin leggur hér til.

Það er í fyrsta lagi, sem er stór og viðamikil breyting, að samráðsnefndin leggur til að Framkvæmdasjóðurinn, sem fjármagnað hefur sérkennsluverkefni síðan 1980, hætti að fjármagna sérkennsluverkefni, sem þýðir að Framkvæmdasjóður skuli ekki standa undir fjármögnun sérkennslu í landinu. Telja verður eðlilegra að fjármögnun þessa þáttar færist yfir á fjárlög menntmrn.

Ég tel nauðsynlegt að fá upplýst í þessari umr. til leiðbeiningar fyrir félmn. hver sé afstaða hæstv. félmrh. til þess að fella niður fjármögnun úr sjóðnum til sérkennslu. Fjármögnun til sérkennslunnar hefur undanfarin ár verið um það bil 1/3 af ráðstöfunarfé sjóðsins, þannig að það skiptir töluvert miklu máli hvernig á þessu máli er tekið.

Ég verð að segja varðandi það að fella niður sérkennsluna, að það orkar nokkuð tvímælis í mínum huga. Þegar ákveðið var hér á Alþingi að fella sérkennsluna undir fjármögnun sjóðsins var það í raun neyðarráðstöfun að setja hana þar undir. Það var vegna þess að það hafði sýnt sig á fjárlögum undanfarinna ára að mjög litið var veitt á fjárlögum til sérkennsluverkefna. Ég tel að óhætt sé að segja að nokkur uppbygging hafi átt sér stað síðan sjóðurinn tók við þessari fjármögnun. Þá er auðvitað spurning hvort alþm. eru tilbúnir að veita á fjárlögum til sérkennslunnar það nauðsynlega fjármagn sem til hennar þarf.

Í annan stað er gerð af samráðsnefndinni brtt. varðandi greiningarstöð ríkisins. Í frv. er gert ráð fyrir að þeir sem sækja þjónustu í greiningarstöðina séu á aldrinum 0–20 ára, en samráðsnefndin leggur til að þetta falli niður, þannig að ekki sé bundið hér.við nein aldursmörk. Þetta er auðvitað veigamikið atriði líka, sem taka verður afstöðu til.

Í þriðja lagi er lagt hér til að í stað 33 millj. kr. í sjóðinn komi 60 millj. kr. Ég fel ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar en ég hef gert. Þm. þessarar deildar ætti að vera kunn afstaða mín til þess máls.

Það er einnig mjög athyglisvert sem fram kemur hjá samráðsnefndinni varðandi gildistökuna að því er þetta frv. varðar. Í frv. er lagt til að gildistakan verði 1. jan. 1983, en hjá samráðsnefndinni er lagt til að gildistakan verði 1. jan. 1984 eða eftir liðlega ár. Félmrh. hefur lagt mikla áherslu á það og gerði það í ræðu sinni áðan, að þingið mundi afgreiða þetta mál hið allra fyrsta. Þess vegna tel ég athyglisvert að samráðshópur, sem skipaður er fulltrúum þeirra hagsmunasamtaka sem njóta eiga góðs af þessum lögum, til að mynda fulltrúa Landssamtakanna þroskahjálpar og Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra, leggur til að gildistaka þessa frv. verði ekki fyrr en að ári liðnu. Nú er mér ekki kunnugt um af hverju þeir leggja til að gildistakan verði ekki fyrr en eftir ár, en ég tel rétt að þessir aðilar fái þetta mál til umsagnar og fái sinn tíma til að skoða þetta mál.

Ég tel einnig mikilvægt, sem ekki var gert á síðasta þingi, að leita formlegrar umsagnar allra svæðisstjórna á þessu máli — svæðisstjórnir, sem skipaðar voru samkvæmt lögum um aðstoð við þroskahefta, og svipuð uppbygging á að vera samkvæmt þessum lögum, fái að fjalla um þetta mál. Svæðisstjórnirnar eru mjög mikilvægir aðilar. Þær fjalla um uppbyggingu á hinum einstöku stöðum og hafa fengið nokkra reynslu af lögunum um aðstoð við þroskahefta, þannig að ég tel mikilvægt að þær fjalli sérstaklega um þetta mál og skili inn sínum umsögnum. Þess ber að vísu að geta að á fund félmn. s.l. vor voru kallaðir til fulltrúar þessara aðila, en ég tel rétt að fá inn skriflegar umsagnir þeirra varðandi þetta mál, ekki síst eftir þá breytingu sem frv. hefur tekið frá því að það var lagt fram síðast.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál við þessa umr., ég fæ tækifæri til að fjalla um það í félagsmálanefnd, og læt þetta því nægja að sinni.