07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

262. mál, löggjöf um samvinnufélög

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Fsp. sú sem nú verður svarað er í sex liðum og vænti ég þess, að hæstv. viðskrh. svari hverjum lið fyrir sig. Þál. sú sem samþykkt var 29. maí 1980 hljóðar svo með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta í samráði við samvinnuhreyfinguna hefja undirbúning nýrrar löggjafar um samvinnufélög og samvinnusambönd.“

Það er sérstaklega tekið fram að löggjöfin eigi bæði að fjalla um samvinnufélög og samvinnusambönd. Sumir kunna nú að halda að samvinnusambandið hér á landi, Samband ísl. samvinnufélaga, SÍS, sé samvinnufélag. En svo er alls ekki. Í samvinnufélagalögunum frá 1937 eru í 3. gr. t.d. talin upp eftirfarandi einkenni þess félagsforms:

1. Aðgangur skuli vera frjáls fyrir alla.

2. Atkvæðisréttur eigi að vera jafn.

3. Tekjuafgangi séu úthlutað eftir viðskiptamagni hvers um sig.

4. Í stofnsjóð leggist sem séreign hvers félagsmanns nokkuð af tekjuafgangi.

5. Vextir skuli reiknaðir af inneign félagsmanna.

6. Nafnaskrá skuli haldin yfir félagsmenn.

Ekkert þessara skilyrða er fyrir hendi að því er Samband ísl. samvinnufélaga varðar, enda er í VI. kafla samvinnufélagalaganna fjallað um svonefnd samvinnusambönd, sem þrjú eða fleiri samvinnufélög með líku verksviði geta stofnað, og undir þau ákvæði fellur Sambandið. Raunar eru þau atriði, sem upptalin eru í 3. gr. íslensku hlutafélaganna, í samræmi við þær hugsjónir sem sköpuðust í Rochdale í Bretlandi á sínum tíma, og þess vegna þarf að setja í löggjöf annars vegar þau ákvæði sem fjalla eiga um samvinnufélög og hins vegar samvinnusambönd, alveg eins og er nú í gömlu lögunum.

Vorið 1978 voru samþykkt hér á Alþingi lög nr. 32/1978, um hlutafélög. Þau höfðu verið í undirbúningi um margra ára skeið. Hygg ég að sú löggjöf sé með merkustu hlutafélagalöggjöfum um víða veröld, enda var mikið og vel að gerð þeirra laga unnið. Að vísu hafa þau ekki enn í dag náð tilgangi sínum, tilætluðum árangri, þ.e. að opna hlutafélög og auka lýðræði í þeim. Byggist það auðvitað, eins og menn vita, mestmegnis á því erfiða ástandi sem verið hefur í fjármálum þjóðarinnar og atvinnumálum. En það liggur utan þessara umr. hér í dag hvers vegna þetta hafi verið. Sem sagt, við höfum mjög fullkomna hlutafélagalöggjöf, en hins vegar eru lög um samvinnufélög gömul og úrelt.

Ég vil gjarnan minna á það, að forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, Erlendur Einarsson, flutti mjög merkt erindi um samvinnufélög árið 1972. Þar segir forstjóri Sambandsins, með leyfi forseta:

„Þá kem ég loksins að þessum hugmyndum um nýjar leiðir í fjármagnsuppbyggingu hjá okkur hér heima. Enda þótt leggja beri áherslu á þýðingu þess, að félögin eigi aðgang að lánsfjármagni, — og í því sambandi vil ég minna á útgáfu skuldabréfa eins og Svíar hafa gert, ég tel að það komi mjög vel til greina að fara út í slíkt, t.d. hjá Sambandinu í dag — þá er orðið mjög tímabært að mínu áliti að leita að ótroðnum slóðum. Það er ekkert launungarmál, að ég er sannfærður um nauðsyn þess að opnuð verði ný leið í þessum efnum, er geri félagsfólki samvinnufélaganna og almenningi mögulegt að ávaxta fé sitt í samvinnufélögunum. Það er skoðun mín, að þetta verði best tryggt í framkvæmd með því að gera fólki kleift að kaupa hluti í hlutafélögunum og öðrum samvinnufélögum.

Ég vil leyfa mér að vísa til þess sem ég sagði áðan, að þessi leið í fjármagnsuppbyggingu hefur lengi verið notuð í Bretlandi, þar sem vagga samvinnuhreyfingarinnar stóð og þar sem upprunnar eru þær meginreglur sem orðið hafa undirstaða samvinnustarfs hvarvetna um heim, og þá á ég við Rochdalereglurnar.

Ég vil strax gera það ljóst, að þeir hlutir sem hér er um að ræða eru alls ekki það sama og hlutabréf, og ég hef líklega skúffað Eyjólf Konráð Jónsson með því að minna á að við erum samvinnufélag og við verðum að starfa sem slíkt. En þetta er ekki það sama og að gefa út venjuleg hlutabréf og því vaknar strax spurningin að finna þessum bréfum nafn, ef út í þetta yrði farið. Ég vil nota hér orðið stofnbréf. Þetta er gamalt og gott orð í samvinnusögunni. Þegar bændurnir í Þingeyjarsýslu svo að ég vitni nú aftur í Þingeyinga, fóru á milli bæja, er verið var að stofna Kaupfélag Þingeyinga árið 1882, þá skrifuðu menn sig fyrir stofnbréfum í þessum nýja félagi.“

Og síðar í þessu erindi segir forstjóri Sambandsins orðrétt:

„Skattfrelsi sparifjár í innlánsstofnunum hefur að mínu áliti m.a. stuðlað að því, að fjármagn hefur frekar leitað í banka, sparisjóði og innlánsdeildir heldur en ella, og kannske komið í veg fyrir það, að við séum að leita að nýjum leiðum til að fá þátttöku almennings til að koma með fjármagn inn í samvinnufélögin. Og þótt skattfrelsið hafi eitthvað hjálpað, þá hefur það í sumum tilfellum orðið bjarnargreiði. Hér verður því að breyta lögum. Og ég veit að Eyjólfur Konráð verður mér hjálplegur, ég vona það, þegar að því kemur að fá lagabreytingar um þetta.“

Þetta er hverju orði sannara, sem forstjóri SÍS þarna segir. Það þarf að breyta samvinnufélagalögunum og skipulagi samvinnuhreyfingarinnar mjög mikið til þess að þau geti verið starfrækt í nútímaformi. Að því miðaði þál. sem samþykkt var og nú er spurt hvað líði undirbúningi löggjafarinnar.