07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

262. mál, löggjöf um samvinnufélög

Baldur Óskarsson:

Herra forseti. Ég held að það geti ekki talist óeðlilega langur tími sem hefur farið í það hjá þeirri nefnd sem hæstv. viðskrh. skipaði til að endurskoða og semja nýtt frv. að samvinnulögum, þó að það taki rúmt ár að undirbúa samningu slíks bálks. Það er nauðsynlegt að nefnd af því tagi rasi ekki um ráð fram, þegar verið er að semja slíkt frv., og kasti ekki til þess höndunum. Ég vil taka undir þá skoðun að það er nauðsynlegt að við endurskoðun samvinnufélagalaganna verði það haft í huga að samvinnufélögin og samvinnusamböndin í landinu séu lýðræðislegri en nú er.

Ég vil aðeins víkja að spurningu nr. 4, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð varpar fram til viðskrh.: „Hafa hugmyndir Erlends Einarssonar, forstjóra SÍS, um „að gera fólki kleift að kaupa hluti í kaupfélögunum eða öðrum samvinnufélögum“ verið grandskoðaðar?“ Þessar hugmyndir voru settar fram árið 1972 og um þær hefur verið fjallað m.a. á þingum Sambands ísl. samvinnufélaga. Sannleikurinn er sá, að þær hafa ekki fengið góðar undirtektir í samvinnuhreyfingunni. Og það er mín skoðun, að það væri síst til þess að gera samvinnuhreyfinguna lýðræðislegri, ef menn færu að kaupa sér hlutabréf í kaupfélögunum. Grundvallarhugsjón kaupfélaganna og samvinnuhreyfingarinnar er einmitt að hér sé um að ræða frjáls og opin samtök, sem menn geti gengið í óháð efnahag sínum. Síðan fái menn arði úthlutað í hlutfalli af þeim viðskiptum sem þeir eiga við kaupfélögin og samvinnuhreyfinguna. Ég held þess vegna að það prinsip, sem hér kemur fram hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, gangi í raun og veru þvert á þá hugsjón sem á að einkenna alla samvinnustarfsemi.