07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Í skýrslu sem ríkisstj. lagði fram á Alþingi í upphafi árs var því lýst yfir að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að hefja viðræður við aðila um verðmyndunarkerfi sjávarútvegs og landbúnaðar og um breytingar á skipan þessara mála, sem stuðlað gætu að hjöðnun verðbólgu, en tryggt um leið afkomu í greinum þessum. Síðan hæstv. ríkisstj. lagði þessa skýrslu fyrir Alþingi hefur mjög lítið frést af því hvernig endurskoðuninni líði og hvað hafi verið gert til að hrinda þessari yfirlýsingu í framkvæmd. Hér er hins vegar á ferðinni mjög mikið nauðsynjamál, sem flestir þm. eru sammála um að þurfi að athuga mjög rækilega. Ég hef þess vegna borið fram á þskj. 85 fsp. þar sem ég leita eftir svörum við því hverjir hafi annast viðræður við samtök bænda um þetta atriði og ennfremur hvaða hugmyndir og tillögur um breytingar á verðmyndunarkerfinu fulltrúar rn. hafi lagt fram í þessum viðræðum og hvaða undirtektir þær hafi fengið hjá samtökum bænda.

Ennfremur er óskað eftir upplýsingum um hve margir fundir hafi verið haldnir með fulltrúum bænda um þetta efni og hverjir hafi skipað viðræðunefnd bændasamtakanna á þeim fundum. Ég tel mjög mikilvægt að náið samráð sé haft við samtök bænda um þessar breytingar og viðræður við fulltrúa bændasamtakanna séu alger forsenda þess að slík endurskoðun geti komið til framkvæmda.

Á sama þskj. hef ég einnig spurt um endurskoðun á útflutningsbótakerfi fyrir landbúnaðarafurðir, en hæstv. ríkisstj. gaf út yfirlýsingu í ágúst s.l. um að hún mundi vinna að slíkri endurskoðun. Í fsp. er óskað sams konar upplýsinga varðandi þetta atriði og það sem fyrst var nefnt; hvaða hugmyndir um endurskoðunina hafi verið lagðar fram, hverjir hafi annast viðræðurnar, hve margir fundir hafi verið haldnir og hverjir hafi skipað viðræðunefnd ráðuneytis og samtaka bænda.

Undanfarna mánuði og reyndar síðast í dag hefur mikið verið rætt um endurskoðun á einum þætti í hagkerfi okkar, þ.e. verðtryggingarkerfis launa. Það er alkunnugt að ríkisstj. skipaði sérstaka nefnd sem um þau mál fjallaði. Sú nefnd hefur haldið fjölda funda og átt ítarlegar viðræður við samtök launafólks um það atriði. Hún hefur nú skilað áliti til hæstv. ríkisstj. Þetta ákvæði í efnahagsyfirlýsingunni frá því í upphafi þessa árs, sem ég hef hér gert að umræðuefni, fól í sér að nákvæmlega hliðstæðar viðræður áttu að eiga sér stað við samtök bænda um endurskoðun á verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og ennfremur í yfirlýsingunni frá því í ágúst um endurskoðun útflutningsuppbótakerfisins. Vegna þess að nánast engar fréttir hafa heyrst opinberlega alla þessa mánuði um gang þessara viðræðna og framkvæmda á þessu fyrirheiti hef ég leyft mér, herra forseti, að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. á þskj. 85.