07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er alls ekki af litlu tilefni sem þessi mál eru rædd og hefði mátt ræða þau meira og oftar, hæstv. landbrh. Það er ekki af litlu tilefni sem menn ræða mál af því tagi að við verjum á næsta ári samkv. fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. jafnmiklu fé í niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum innanlands og utan og varið er samkv. fjárl. til allrar heilsugæslu í landinu, bæði til rekstrar og til framkvæmda. Það er ekki litið tilefni að menn skuli vilja fá fram endurskoðun á kerfi útflutningsbóta þegar þeir horfast í augu við að á næsta ári er áætlað að verja af launatekjum þjóðarinnar upphæð í útflutningsbætur með landbúnaðarafurðum sem ella gæti tvöfaldað allar vegaframkvæmdir í landinu. Það sýnir forstokkun þeirra manna, sem bera ábyrgð á þessu forspillta sukkkerfi, þegar þeir halda því fram, eins og hæstv. ráðh., að af engu tilefni hafi umr. hafist um þessi mál núna.