07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það hefur oft verið rætt hér á Alþingi um vandamál í íslenskum sjávarútvegi og vandamál í íslenskum iðnaði. Ég hef aldrei heyrt að þeir, sem hafa hreyft slíkri umr., hafi verið ásakaðir fyrir að vera á móti iðnaðarmönnum eða sjómönnum. Hins vegar má aldrei hreyfa umr. um vandamál íslensks landbúnaðar öðruvísi en maður fái þær slettur á sig, að maður vilji bændastéttina feiga. Þetta sýnir hversu lítil rök búa á bak við málflutning þeirra sem slíkan málflutning iðka. Þetta er eina svarið sem þau eiga til.

Við Alþfl.-menn höfum flutt fjölmargar tillögur, bæði við afgreiðslu fjárlaga og á öðrum vettvangi, um fjárframlög úr ríkissjóði til þess að styðja bændur til annarrar og arðsamari framleiðslustarfsemi en á sviði hefðbundins búskapar. Það er einnig gert ráð fyrir því í því frv. sem ég lagði fram hér áðan.

Það er ekki lítið gjald fyrir íslenska skattborgara, hæstv. landbrh., að þurfa að verja jafnmiklu fé í niðurgreiðslur innanlands og utan á afurðum einnar atvinnugreinar eins og allt heilbrigðiskerfið í landinu kostar, eins og allar samanlagðar tekjur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á ári nema. Þetta er ekki lítið gjald. Og það er ekki lítið gjald að þurfa á þessu ári að greiða tæplega hálft skuttogaraverð í afborganir af erlendum lánum, sem tekin hafa verið til þess að greiða útflutningsbætur ofan í erlenda neytendur, umfram það sem landslög heimila.